Fara í innihald

Básendaflóðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Bátsendaflóðið)

Básendaflóðið var mikið sjávarflóð, sem hlaust af einhverri kröppustu lægð sem farið hefur yfir Ísland á sögulegum tíma. Gekk það yfir aðfaranótt 9. janúar 1799 og olli miklum skemmdum á Suðvesturlandi. Kaupstaðurinn að Básendum varð rústir einar og byggðist aldrei aftur. Kaupmaðurinn á Básendum, Hinrik Hansen, komst ásamt fólki sínu við illan leik að hjáleigunni Loddu í Stafneshverfi. Ein kona drukknaði í flóðinu. Kirkjur fuku á Hvalsnesi og Seltjarnarnesi. Bátar og skip skemmdust víða á svæðinu frá Eyrarbakka og vestur á Snæfellsnes.

Svo segir Jón Espólín frá veðrinu:

Gæsalappir

Þá gjörði, aðfaranótt hins níunda Janúar, sunnan og vestanlands, veður mikið af útsuðri, höfðu þá komið önnur fyrri, en eigi jafnmikil; fylgdi því veðri regn mikið, þrumur og leiftranir, og var himininn all-ógerlegur að líta, þar með fylgdi brim og hafrót með miklum straumi, og urðu því skaðar hvarvetna sem mestir máttu verða hér af slíku; tók sjórinn vöruhlaða-hús á Eyrarbakka með allmikilli vöru, en viðinn rak upp í mýri langt fyrir ofan. Stakkstæðum öllum velti um og steinaskansi, er þar var hlaðinn, svo að engin merki sá til þegar fjaraði; timbur og annað bar sjórinn víðsvegar, en gróf grundvöll undan flestum húsum, spillti vörum, gekk upp um húsagólf, og braut glugga og þili; voru menn þar í svo mikilli hræðslu, sem líklegt var, að sjórinn og veðrið mundi lífláta þá alla, en þó lést enginn, varð þó hvergi flúið undan. Malarkampinn allan braut sjórinn af, svo að sýnilegt var að hið næsta flóð mundi ganga undir húsin upp, brotnuðu í Stokkseyrararhverfi 26 skip og bátur einn. Jarðir spilltust þar og brotnuðu hús, tók út bæði hey, hross og kýr í Stokkseyrar hjáleigum, svo að sumar urðu ei byggilegar; varð og líkur skaði á tveimur býlum hins sjötta tugar í þingsókninni, og flýðu 29 menn heimili sín með öllu. Skaði varð í Þorlákshöfn og Selvogi, 5 hjáleigur spilltust í Grindavík, og tók völl af tveimur, braut og tún víða; þar brotnuðu 6 skip, en 8 meiddust, og fórst 100 sauðfjár. Timburkirkjuna í Hvalsnesi tók ofan að grundvelli í veðrinu, og sá ekki eftir af, og öll höndlunar og bæjarhús á Bátsendum braut sjór og veður, svo þar stóð ekkert og rótaðist grundvöllurinn, fékk einn maður bana, en Hansen kaupmaður flýði að Stafnesi með konu sína og börn. Fiskgarðar og túngarðar á Nesjum, sópuðust heim á tún, sumstaðar tók af túnin, skipauppsátur og brunna, og braut 8 skip; kirkjan skekktist í Kirkjuvogi, þar brotnuðu í sókn tvö skip, og meiddist maður. Tveir bátar fuku í sjó í Njarðvíkursókn, og fundust ei síðan, og einn brotnaði; 4 brotnuðu í Útskálasókn. Tók af völlum á Vatnsleysuströnd, spillti malarkömbum og öðru; skekkti kirkjuna á Kálfatjörn fyrir veðri, en tvö negld borð tók af mæni hennar, og sáust aldrei síðan. 9 bátar og eitt fjögura manna far brotnaði þar á Ströndinni. Þá tók ofan að grundvelli kirkjuna að Nesi við Seltjörn, nýlega, vandaða og sterka, og spillti mörgum jörðum, segir Geirr biskup Vídalín, er þá bjó að Lambastöðum, að 5 álnum hefði sjór gengið hærra, þverhnýptu máli, en í öðrum stórstaumsflóðum; braut sjórinn þvert yfir um nesið innan Lambastaði svo að hvorki var fært hestum né mönnum; lét biskup mæla það, og voru 3 hundruð faðma tíræðir, spilltust til ónýtingar á nesinu 18 skip, eða meira, með þeim sem í Viðey og í Engey voru; kot braut á Kjalarnesi og nokkra báta og veður spillti víðar húsum. Í Staðarsveit vestra urðu hinar mestu skemmdir, því hún lá fyrir opnum sjó, gekk sjór þar allstaðar meir en 300 föðmum, og allt til hins 15da hundraðs lengra á land upp en í öðrum flóðum stórstreymdum. [...] Tók upp flutningaskip Hans Hjaltalíns kaupmanns, og braut undir Sölvahamri; höndlunarhús eitt braut og að grundvelli í Ólafsvík, og 2 skip á Sandi; 5 skip brotnuðu á Skógarströnd og 3 bæir, en hvarvetna spillti húsum í öllum sveitum, tók sumstaðar hús ofan að veggjum vestur um Dali, en sjór braut af löndum, og tók hjalla og fiskiföng. 18 skip og bátar brotnuðu þar til vissu, og þóttust menn ei vita til um annað veður, er á einni nóttu hefði meira tjón; kom það og á Vestfjörðum, og Norðurlandi, en varð minna.“

— Jón Espólín.

  • „Básendaflóðið 1799 - Lýður Björnsson“ (PDF). Sótt 11. janúar 2019.
  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.