Ayn Rand



Ayn Rand (2. febrúar 1905 – 6. mars 1982) var bandarískur rithöfundur og heimspekingur sem er frægust fyrir verk sín The Fountainhead og Atlas Shrugged. Í verkum sínum boðaði hún skynsamlega einstaklingshyggju og einstaklingsframtak. Stjórnmálahugmyndir hennar eru í anda laissez-faire kapítalisma og frjálshyggju en hún sagði sjálf heimspeki sína vera einkum undir áhrifum Aristótelesar.
Ayn Rand fæddist í Sankti Pétursborg í Rússlandi og var skírð Alissa Zinovievna Rosenbaum. Hún gerðist snemma andstæðingur hjarðhyggju, og tókst að komast til Bandaríkjanna í ársbyrjun 1926. Þegar þangað kom hélt hún til Hollywood í því skyni að freista gæfunnar sem handritshöfundur. Hún giftist leikaranum Frank O’Connor 1929 og gerðist bandarískur ríkisborgari 1931. Hún samdi nokkrar sögur og leikrit á fjórða áratug 20. aldar. En kunnustu verk hennar komu út seinna, skáldsögurnar The Fountainhead 1943 (sem birtist í íslenskri þýðingu Þorsteins Siglaugssonar 2011 undir nafninu Uppsprettan) og Atlas Shrugged 1957 (sem birtist í íslenskri þýðingu Elínar Guðmundsdóttur 2012 undir heitinu Undirstaðan). Meginstefið í báðum sögunum er hið sama, einstaklingurinn gegn múgnum, sköpun gegn sníkjulífi. Báðar sögurnar hafa selst í milljónum eintaka, Uppsprettan í 6,5 milljónum, Undirstaðan í átta milljónum. Í skáldsögum Rand skiptast söguhetjurnar í skapandi fólk og hamlandi og flytja söguhetjurnar langar ræður um lífsviðhorf sín, til dæmis Howard Roark fyrir rétti og John Galt í útvarp. Rand skrifaði einnig margt annað um heimspeki. Seinni hluta ævinnar bjó hún í New York þar sem hún lést.
Tenglar[breyta | breyta frumkóða]
- Heimasíða Ayn Rand Institute Geymt 2004-09-09 í Wayback Machine
- „Ayn Rand“ Geymt 2006-06-15 í Wayback Machine í The Internet Encyclopedia of Philosophy
- Ádeila á Rand eftir Murray Rothbard
- Grein um Rand eftir Andra Óttarsson Geymt 2007-09-29 í Wayback Machine
- Álit Ayn Rand á frjálshyggjumönnum Geymt 2014-01-07 í Wayback Machine
- Verk Ayn Rand á íslensku Geymt 2012-10-15 í Wayback Machine