Fara í innihald

Auðkúluheiði

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Auðkúluheiði er heiði í Austur-Húnavatnssýslu og er næstaustust húnvetnsku heiðanna, á milli Eyvindarstaðaheiðar og Grímstunguheiðar. Hún nær frá drögum Svínadals og Blöndudals og suður að Kili og Hveravöllum, milli Hofsjökuls og Langjökuls, en það er um 60 kílómetra vegalengd. Í austri eru mörk heiðarinnar við Blöndu en í vestri við Miðkvísl og Búrfjöll.

Kjalvegur liggur suður eftir heiðinni, sem fer smám saman hækkandi suður á bóginn en er víðast í 400-500 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún einkennist af lágum ásum og fellum en á milli þeirra eru flóar og vötn. Hún er greiðfær og vatnsföll fá og er víða ágætlega gróin. Þegar Blönduvirkjun var reist um 1990 myndaðist stórt miðlunarlón, Blöndulón, á Auðkúluheiði og Eyvindarstaðaheiði, og fór þar mikið gróðurlendi undir vatn. Í staðinn hefur verið grætt upp töluvert land á heiðinni

Heiðin tilheyrði áður Auðkúlu í Svínadal og dregur nafn af bænum.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „„Auðkúluheiði." Gagnasafn Morgunblaðsins, skoðað 3. apríl 2012“.