Fara í innihald

C-vítamín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Askorbínsýra)
Efnafræðisleg uppbygging C-vítamíns.
Kúlulíkan af C-vítamíni.

C-vítamín eða askorbínsýra er vítamín sem fyrirfinnst í matvælum (ferskum ávöxtum og grænmeti) og fæðubótarefni. Nota má C-vítamín til að koma í veg fyrir og meðhöndla skyrbjúg. Ekki hefur verið sýnt fram á að neysla C-vítamins komi í veg fyrir kvef meðal almennings en þó eru nokkrar vísbendingar um að reglubundin neysla þess gæti stytt tímabil kvefs. Óljóst er hvort neysla C-vítamíns hafi áhrif á krabbamein, hjartasjúkdóma eða vitglöp. Gefa má C-vítamín í töfluformi eða sem sprautu.

Mannslíkaminn þolir C-vítamín vel og er það vatnsleysanlegt (skilst út með þvagi). Hins vegar geta stórir skammtar valdið óþægindum, höfuðverk, svefntruflunum og roðnun. Taka má venjulegan skammt af C-vítamíni á meðgöngu þó er mælt gegn stórum skömmtum.

C-vítamín er mikilvægt næringarefni og gegnir hlutverki í viðhaldi vefja og framleiðslu á tilteknum taugaboðefnum. Það hjálpar sárum að gróa og eykur viðnám gegn sýkingum. Það tekur þátt í myndun bandvefs, þroska og heilbrigði æða, beina, góms og tanna, en blóðugt tannhold getur verið merki um c vítamín skort. Það eykur einni frásog járns og því er gott að neyta þessara efna samhliða hvors annars. Menn, apar, naggrísir og sumar leðurblökutegundir, eru einu skepnurnar sem ekki geta myndað sitt eigið C-vítamín. C-vítamín þarf til þess að ákveðin ensím virki og er mikilvægt fyrir ónæmiskerfið. Það er þar að auki andoxunarefni. Meðal matvæla sem eru rík af C-vítamíni eru sítrusávextir, kíví, spergilkál, rósakál, hráar paprikur og jarðarber. C-vítamín getur eyðilagst við mikla eldun eða langvarandi geymslu.

C-vítamín var uppgötvað árið 1912 og einangrað árið 1928. Framleiðsla á C-vítamíni hófst árið 1933 og var það fyrsta framleidda vítamínið.

C-vítamínið uppgötvað

[breyta | breyta frumkóða]
Albert Szent-Györgyi

Tilvist C-vítamíns var löngu grunað en það var ekki fyrr en hann Albert Szent-Györgyi tók við embætti sem prófessor í lyfjaefnafræði við Háskólann í Szeged. Þar fór hann að skoða  frumuöndun og orkuframleiðslu í plöntum og uppgötvaði líffræðilegt brunaferli (sem hann hlaut svo Nóbelsverðlaunin fyrir árið 1937). Þá hóf hann tilraunir á naggrísum ásamt Svirbely sem er bandarískur efnafræðingur. Þeir fóðruðu tvo hópa naggrísa, annar fékk soðinn mat og hinn fékk bættan mat (sá hópur blómstraði). Í framhaldi af því  rannsakaði hann meira og uppgötvaði C-vítamínið eða askorbínsýru. Szent-Györgyi var ungverskur að uppruna og í fjölskyldu hans voru margir vísindamenn og hafði hann því gríðarlegan áhuga á vísindum frá unga aldri. Hann útskrifaðist með læknagráðu í Háskólanum í Búdapest og fór í frekara nám í evrópskum háskólum. Albert Szent-Györgyi flutti til Bandaríkjanna þar sem hann gerði fleiri áhugaverðar rannsóknir. Hann lést 22.október 1986 [1].

C-vítamín er askorbínsýra og efnafræðileg formúla vítamínsins er C₀H₈O₆

C-vítamín í mannslíkamanum

[breyta | breyta frumkóða]

Flest dýr framleiða askorbínsýru eftir þörfum, en prímatar, naggrísir og ýmsar leðurblökutegundir geta ekki myndað askorbínsýru. Önnur dýr framleiða efnið í nýrum og lifur með ensíminu gulonlactone oxidasa sem framleiðir efnið úr glúkósa. Það ensím er hins vegar ekki til staðar í mannslíkamanum. Þar af leiðandi reiðir líkaminn sig algjörlega á upptöku C-vítamíns í gegnum fæðu eða fæðubótarefni (Naidu, K.A. 2003).[2]

Askorbínsýra er tekin upp í þörmum. Frásogið gengur auðveldlega fyrir sig en aftur á móti geymir líkaminn ekki aukamagn af vítamíninu. Meðalmanneskjan hefur um 1,2 -2 g af askorbínsýru í líkamanum sem hægt er að viðhalda með  ráðlagðum dagskammti (Naidu,K.A, 2003).[2]

Manneskjan hefur hinsvegar búið til einstaklega áhrifaríkt kerfi, þar sem líkaminn getur tekið upp mun meira magn af C-vítamíni og unnið hraðar úr því en dýr sem geta framleitt það sjálf (Cerullo,G., o.fl., 2020)[3]. C-vítamínið er að mestu geymt í beinagrindarvöðvum líkamans og í blóðvökva og sést fljótt á vöðvaþráðum ef dagleg inntaka fer undir ráðlagðan dagskammt. ( Carr, A. C. o.fl., 2013)[4]

Vítamín C er mjög virkt andoxunarefni og verndar hin ýmsu efnasambönd (m.a. prótein, lípíð,  og kjarnasýrur) frá skemmdum vegna oxunaráhrifa sem eiga sér stað við efnaskipti í frumum. Einnig hefur vítamínið verndandi áhrif  þegar líkaminn kemst í samband við eiturefni, sem dæmi; loftmengun og sígarettureyk. C- vítamínið  er nauðsynlegur hvati í mörgum  efnahvörfum m.a við myndun fitubera, kollagens í bandvefjum dópamíns, noreandrenalíns og andrenalíns. (Carr, A. C og Maggini, S.,  2017 )[5].  Þekktasta virkni c-vítamín er að það eykur upptöku járns í líkamanum (Lynch, S. R., og Cook, J.D., 1980)[6]

Fæðubótarefnið C- vítamín

[breyta | breyta frumkóða]

Framleiðsla á C-vítamíni hófst árið 1933 þegar pólsk-svissneska efnafræðingnum Tadeus Reichsteind að tókst framleiða  C-vítamín úr sorbitóli. En í dag er vítamínið framleitt úr sorbitóli. Framleiðslan er tiltölulega ódýr þar sem sykrur (sem sorbitól er unnið úr) er að finna í flest öllum jurtum í töluverðu magni. ( Linster, C.L. og Van Schaftingen, E., 2007)[7]

Upp úr  1960 fundu kínverskir vísindamenn nýja aðferð við framleiðsluna sem er ódýrari en hin hefðbundna Reichstein aðferð ( Linster, C.L. og  Van Schaftingen, E., 2007 [7]) sem hefur leitt til þess að Kína framleiðir núna  95% af öllu C-vítamíni í heiminum.(Vitamin C prices triple in a years time, 11. Júní 201[8]7)

Aukaefnum er hins vegar alltaf blandað saman við hreint C-vítamínið þar sem það er mjög hvarfgjarnt, en hiti, ljós, sýrustig og önnur utanaðkomandi efni getur haft áhrif á efnasambandið. (Linster, C.L. og Van Schaftingen, E., 2007[9])

Askorbinsýra er mikið notuð sem aukaefni í mat, bæði sem fæðubótarefni og þráarvarnarefni. En aukaefni eru efni sem notuð eru til að hafa áhrif á eiginleika matvæla.  Sérhvert aukaefni á sitt E númer,  E-300 er E-númerið á askorbínsýru,  en aðrar týpur af C-vítamíni eru t.d. E-304 Fitusýruesterar askorbínsýru og E-315 Ísóaskorbínsýra.  ( Aukaefni í matvælum, júlí 2015)[10].

Lækningsfræði

[breyta | breyta frumkóða]

C-vítamín skortur.

[breyta | breyta frumkóða]
James Lind

Skyrbjúgur er hörgulsjúkdómur vegna skorts á c-vítamíni. Sjúkdómurinn hefur verið þekktur um aldir og finna má lýsingu á honum í fjölmörgum aldagömlum læknisritum.  Fyrstu rituðu heimildirnar er að finna í riti Hippókretesar og í egypskum ritum. (Magiorkinis,E., Apostolos, B., Diamantis, D., 2011)[11].

Einkenni skyrbjúgs eru:  Þreyta,  blæðingar  frá húð og slímhúð, skemmdir á bandvef, tannholdsbólga og lausar tennur. Þá veldur hann öndunarerfiðleikum og  og sýkingum í öndunarfærum m.a. lungnabólgu. Einnig verður vart við verki í beinum og vöðvum auk krampa. Sjúkdómurinn leiðir til dauða ef sjúklingarnir fá ekki viðeigandi skammta af c- vítamíni. (Grosso, E. o. fl. 2013 [12]). Eftir þrjá mánuði á fæði sem inniheldur lítið af askorbinsýru kemur sjúkdómurinn fram. Hins vegar tekur eingöngu nokkra daga fyrir líkamann að jafna sig við inntöku á C-vítamíni. (Grosso, E. o.fl., 2013.[13])

Á 15.-16. öld var  skyrbjúgur algengur sjúkdómur hjá sjómönnum sem sigldu langar sjóleiðir með ferskmeti af skornum skammti. Um miðja 16.öld hóf læknir í breska hernum, James Lind  tilraun til að kanna hvað gæti mögulega læknað þennan skæða sjúkdóm sem tók líf margra í breska flotanum. Hann fékk tólf sjómenn sem allir þjáðust af skyrbjúgi og skipti þeim í tvo hópa.  Annar hópurinn fékk daglegan skammt af appelsínum og sítrónum en hinn hefðbundið fæði. Á einungis sex dögum voru sjúklingarnir sem innbirtu ávextina læknaðir af skyrbjúgnum. Niðurstaða hans var að sítrusávextir, sítrónur og appelsínur læknuðu sjúkdóminn. Sagt er að þetta hafi verið fyrsta stýrða tilraunin. (Dunn, P.M. 1997)[14]  Niðurstöðurnar voru í samræmi við aðferðafræði hins virta skipstjóra James Cook. Hann viðhafði þá reglu að byrgja skip sín ávallt þegar færi gafst á af appelsínum og öðrum ferskum ávextum til að koma í veg fyrir skyrbjúg. (Naidu, K.A, 2003)[2]

Skyrbjúgur er ekki lengur algengur sjúkdómur í dag, þökk sé hve einfalt og ódýrt er að framleiða C-vítamín ásamt auknu aðgengi að ferskum ávöxtum og grænmeti. (Grosso, E. ofl. 2013 ).[12] Hins vegar skjóta upp kollinum öðru hverju fréttir af tilfellum af skyrbjúg þá í tengslum við einhæft og lélegt mataræði m.a. í Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum(Skyrbjúgur skýtur upp kollinum á ný , 2016)[15].

Sítrónur

Ýmsir þættir geta takmarkað upptöku C-vítamín í líkamanum, rannsóknir hafa sýnt með óyggjandi hætti að reykingar geta takmarkað upptöku þess í líkamanum.  (Schectman, G., Byrd, J. C., og Grucho[16]w, H. W., 1989).  Aðrir þættir eru sem geta leitt til skorts á c-vítamíni eru alvarlegir geðsjúkdómar (m.a. anorexía), hár aldur, alkóhólismi og nýrnabilun ( Grosso, E., 2[12]013).

Einnig hafa rannsóknir á börnum sýnt að börn með taugaröskunarsjúkdóma líkt og einhverfu geta verið hrjáð af C-vítamín skorti þar sem sum þeirra sem eiga það til að hafa mjög einhæft mataræði. (Golriz, F., Donnelly, L[17]. F., Devaraj, S., & Krishnamurthy, R., 2017).

Ofneysla á C-vítamíni.

[breyta | breyta frumkóða]

C-vítamín er tiltölulega hættulaust vegna hárrar vatnsleysni og við inntöku á of stórum skömmtum af C-vítamíni, losar líkaminn sig vanalega við aukamagnið gegnum þvag án mikilla óþæginda. Niðurgangur er hinsvegar algeng aukaverkun og getur ofneysla leitt til myndunar nýrnasteina hjá nýrnasjúklingum vegna aukinnar oxalate-myndunar í líkamanum.  (Grosso[12], E. o.fl, 2013)

Ávinningur af inntöku C-vítamíns.  

[breyta | breyta frumkóða]
Kvefpest

Rannsóknir hafa sýnt að aukin inntaka á c-vítamíni getur stytt meðgöngu tíma hins almenna kvefs,( Douglas, M., og Hemilä[18],  H., 2005) Tilraunir á dýrum gefa til kynna að inntaka á c-vítamíni geti minnkað og jafnvel komið í veg fyrir bakteríu og veirusýkingar.  Einnig er ýmislegt sem gefur til kynna að c-vítamín geti komið í veg fyrir lugnabólgu og hafi jákvæð áhrif á lugnabólgu sjúklinga (Hemilä, H. 201[19]7). Einnig hafa verið gerðar margar rannsóknir um það hvort þetta tiltekna vítamín geti komið í veg fyrir kvef eða hafi áhrif á krabbamein og hjartasjúkdóma (Lewis Cantley og Jihyie Yun,20 20)en það er alveg óljóst hvort áhrifin séu marktæk.

Ráðlagðir dagskammtar.

[breyta | breyta frumkóða]

Við þurfum mismikið magn af c vítamíni eftir aldri og heilsu. Taflan hér að neðan sýnir ráðlagðan dagsskammt. Ekki eru gefnar ráðleggingar um börn undir 6 mánaða aldri þar sem þeim er ráðlagt að vera eingöngu á brjósti eða sérstakri ungbarnablöndu sem inniheldur öll þau helstu næringarefni sem þau þurfa fyrstu 6 mánuði lífs síns.[20]

Ráðlagðir  dagsskammtar af c-vítamíni.

Ungbörn 6-11 mán 20 mg
Ungbörn 12-23 mán 25 mg
Börn 2-5 ára 30 mg
Börn 6-9 ára 40 mg
Karlar 10-13 ára 50 mg
Karlar >14 ára 75 mg
Konur 10-13 ára 50 mg
Konur >14 ára 75 mg
Konur á meðgöngu 85 mg
Konur með barn á brjósti 100 mg
Paprikur,

(Embætti landlæknis, 2013)[20]

Til eru ýmiss C-vítamín fæðubótarefni sem hægt er að taka inn. En frekar er mælt með því að borða fjölbreytta fæðu til þess að innbyrða öll þau helstu næringarefni sem mannslíkaminn þarfnast. C-vítamín fæst í alls konar fæðutegundum t.d. sítrusávöxtum, grænu káli og papriku sem er mjög auðugur C- vítamíngjafi (Sölufélag Garðyrkjumanna, ed[21])


  Þessi efnafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Albert Szent-Gyorgyi Vitamin C - Landmark“. American Chemical Society (enska). Sótt 21. apríl 2021.
  2. 2,0 2,1 2,2 Naidu, K. Akhilender (21. ágúst 2003). „Vitamin C in human health and disease is still a mystery? An overview“. Nutrition Journal. 2 (1): 7. doi:10.1186/1475-2891-2-7. ISSN 1475-2891. PMC 201008. PMID 14498993.
  3. Cerullo, Giuseppe; Negro, Massimo; Parimbelli, Mauro; Pecoraro, Michela; Perna, Simone; Liguori, Giorgio; Rondanelli, Mariangela; Cena, Hellas; D’Antona, Giuseppe (2020). „The Long History of Vitamin C: From Prevention of the Common Cold to Potential Aid in the Treatment of COVID-19“. Frontiers in Immunology (enska). 11. doi:10.3389/fimmu.2020.574029. ISSN 1664-3224.
  4. Carr, Anitra C; Bozonet, Stephanie M; Pullar, Juliet M; Simcock, Jeremy W; Vissers, Margreet CM (1. apríl 2013). „Human skeletal muscle ascorbate is highly responsive to changes in vitamin C intake and plasma concentrations“. The American Journal of Clinical Nutrition. 97 (4): 800–807. doi:10.3945/ajcn.112.053207. ISSN 0002-9165.
  5. Carr, Anitra C.; Maggini, Silvia (2017/11). „Vitamin C and Immune Function“. Nutrients (enska). 9 (11): 1211. doi:10.3390/nu9111211.
  6. Lynch, Sean R.; Cook, James D. (1980). „Interaction of Vitamin C and Iron*“. Annals of the New York Academy of Sciences (enska). 355 (1): 32–44. doi:10.1111/j.1749-6632.1980.tb21325.x. ISSN 1749-6632. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. maí 2021. Sótt 22. apríl 2021.
  7. 7,0 7,1 Linster, Carole L.; Schaftingen, Emile Van (2007). „Vitamin C“. The FEBS Journal (enska). 274 (1): 1–22. doi:10.1111/j.1742-4658.2006.05607.x. ISSN 1742-4658. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. mars 2022. Sótt 22. apríl 2021.
  8. „Vitamin C prices triple in a year's time“. www.foodbusinessnews.net (enska). Sótt 21. apríl 2021.
  9. Linster, Carole L.; Schaftingen, Emile Van (2007). „Vitamin C“. The FEBS Journal (enska). 274 (1): 1–22. doi:10.1111/j.1742-4658.2006.05607.x. ISSN 1742-4658. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. mars 2022. Sótt 22. apríl 2021.
  10. Matvælastofnun Íslands (júlí 2015). „Aukaefni í matvælum“ (PDF). Matvælastofnun Íslands.
  11. „Scurvy: Past, present and future“. European Journal of Internal Medicine (enska). 22 (2): 147–152. 1. apríl 2011. doi:10.1016/j.ejim.2010.10.006. ISSN 0953-6205.
  12. 12,0 12,1 12,2 12,3 Grosso, Giuseppe; Bei, Roberto; Mistretta, Antonio; Marventano, Stefano; Calabrese, Giorgio; Masuelli, Laura; Giganti, Maria Gabriella; Modesti, Andrea; Galvano, Fabio (1. júní 2013). „Effects of vitamin C on health: a review of evidence“. Frontiers in Bioscience (Landmark Edition). 18: 1017–1029. doi:10.2741/4160. ISSN 1093-4715. PMID 23747864.
  13. Grosso, Giuseppe; Bei, Roberto; Mistretta, Antonio; Marventano, Stefano; Calabrese, Giorgio; Masuelli, Laura; Giganti, Maria Gabriella; Modesti, Andrea; Galvano, Fabio (1. júní 2013). „Effects of vitamin C on health: a review of evidence“. Frontiers in Bioscience (Landmark Edition). 18: 1017–1029. doi:10.2741/4160. ISSN 1093-4715. PMID 23747864.
  14. Dunn, Peter M. (1. janúar 1997). „James Lind (1716-94) of Edinburgh and the treatment of scurvy“. Archives of Disease in Childhood - Fetal and Neonatal Edition (enska). 76 (1): F64–F65. doi:10.1136/fn.76.1.F64. ISSN 1359-2998. PMID 9059193.
  15. „Skyrbjúgur skýtur upp kollinum á ný“. www.mbl.is. Sótt 21. apríl 2021.
  16. Schectman, G; Byrd, J C; Gruchow, H W (1. febrúar 1989). „The influence of smoking on vitamin C status in adults“. American Journal of Public Health. 79 (2): 158–162. doi:10.2105/AJPH.79.2.158. ISSN 0090-0036. PMC 1349925. PMID 2913833.
  17. Golriz, Farahnaz; Donnelly, Lane F.; Devaraj, Sridevi; Krishnamurthy, Raj (1. febrúar 2017). „Modern American scurvy — experience with vitamin C deficiency at a large children's hospital“. Pediatric Radiology (enska). 47 (2): 214–220. doi:10.1007/s00247-016-3726-4. ISSN 1432-1998.
  18. „Log In - ProQuest“. search.proquest.com (enska). Sótt 21. apríl 2021.
  19. Hemilä, Harri (2017/4). „Vitamin C and Infections“. Nutrients (enska). 9 (4): 339. doi:10.3390/nu9040339.
  20. 20,0 20,1 Landlæknisembætti (2013). „Ráðlagðir dagskammtar“ (PDF). Landlæknisembættið.
  21. garðyrkjumanna, Sölufélag. „Vítamín“. Íslenskt grænmeti - Sölufélag garðyrkjumanna. Afrit af upprunalegu geymt þann 22. apríl 2021. Sótt 21. apríl 2021.