Artemisia Gentileschi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Artemisia Gentileschi, Sjálfsmynd sem allegóría málaralistarinnar, 1638–39, Málverkasafn bresku konungsfjölskyldunnar.

Artemisia Lomi eða Artemisia Gentileschi (8. júlí 1593 – um 1656) var ítölsk myndlistarkona á barokktímanum. Hún er álitin einn af fremstu listmálurum 17. aldar og var hluti af hópi listamanna sem kenndir voru við Caravaggio, ásamt föður sínum, Orazio Gentileschi. Hún var farin að mála myndir í atvinnuskyni aðeins 15 ára gömul.[1] Hún var fyrsta konan sem fékk inngöngu í Accademia delle Arti del Disegno í Flórens og vann fyrir alþjóðlegan hóp viðskiptavina á tíma þegar konur höfðu annars fá tækifæri til listnáms eða sem atvinnulistamenn.[2][3] Hún starfaði í Flórens, Róm, Napólí og á Englandi. Ekki er nákvæmlega vitað hvenær andlát hennar bar að en vitað er að hún tók við pöntunum í Napólí fram undir miðjan 6. áratug 17. aldar. Sumir telja að hún hafi látist í Napólíplágunni 1656.

Margar af myndum Gentileschi sýna konur úr goðsögum, táknsögum og Biblíusögum.[4] Meðal þekktustu viðfangsefna hennar eru Súsanna og öldungarnir (sérstaklega málverk frá 1610 varðveitt í Pommersfelden), Júdit og Hólófernes (sérstaklega málverk frá 1614-1620 varðveitt í Uffizi-safninu í Flórens) og Júdit og þjónustustúlka hennar (málverk frá 1625 er varðveitt í Detroit).

Gentileschi var þekkt fyrir að mála raunsæja kvenlíkama og fyrir færni sína í að nota liti til að skapa átök og dýpt.[5][6][7][8] Listrænir hæfileikar hennar fengu lengi minni athygli en sagan um það hvernig listamaðurinn Agostino Tassi nauðgaði henni þegar hún var ung kona og þátttöku hennar í réttarhöldunum yfir honum.[9] Í mörg ár var litið á list hennar sem jaðarfyrirbæri, en seinni tíma rannsóknir listsagnfræðinga hafa leitt til endurmats á henni. Hún er nú talin einn framsæknasti og tjáningarríkasti listmálari sinnar kynslóðar og verk hennar eru áberandi á stórum alþjóðlegum listsýningum.[10]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Garrard, Mary D. (1989). Artemisia Gentileschi: The Image of the Female Hero in Italian Baroque Art. Princeton University Press. ISBN 978-0-691-04050-9.
  2. Gunnell, Barbara (4. júlí 1993), „The rape of Artemisia“, The Independent, afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2014, sótt 28. desember 2014
  3. Bissell, R. Ward (1999), Artemisia Gentileschi and the Authority of Art: Critical Reading and Catalogue Raisonné, Pennsylvania University Press, ISBN 0-271-02120-9
  4. Lubbock, Tom (30. september 2005), „Great Works: Judith and her Maidservant, The Independent, London, bls. 30, Review section, afrit af upprunalegu geymt þann 2. maí 2015
  5. Patrizia Cavazzini, "Artemisia in Her Father's House", in Orazio and Artemisia Gentileschi (New Haven and London, 2001), pp. 283–295.
  6. Mary D. Garrard, "Artemisia Gentileschi's Self Portrait as the Allegory of Painting", The Art Bulletin, Vol. 62, No.1 (Mar.,1980) pp. 97–112.
  7. Adelina Modesti, "'Il Pennello Virile': Elisabetta Sirani and Artemisia Gentileschi as Masculinized Painters?" in Artemisia Gentileschi in a Changing Light, ed. Shelia Barker (Turnhout, 2018)
  8. Jesse Locker, "Artemisia in the Eyes of the Neapolitan Poets," from Artemisia Gentileschi: The Language of Painting (New Haven: Yale University Press, 2015)
  9. Cohen, Elizabeth S. (Spring 2000). „The Trials of Artemisia Gentileschi: A Rape as History“. Sixteenth Century Journal. 31 (1): 47–75. doi:10.2307/2671289. JSTOR 2671289.
  10. Davis-Marks, Isis, Why a Long-Awaited Artemisia Gentileschi Exhibition Is So Significant, Smithsonian, 2. október, 2020