Fara í innihald

Arenas Club de Getxo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Arenas Club de Getxo
Fullt nafn Arenas Club de Getxo
Gælunafn/nöfn El Histórico
Stofnað 1909
Leikvöllur Gobela, Getxo, Baskaland
Stærð 2.000 áhorfendur
Stjórnarformaður Francisco Javier Egusquiaguirre
Knattspyrnustjóri Javier Olaizola
Deild 2ªB – Riðill 2
2019-2020 18.Sæti
Heimabúningur
Útibúningur

Arenas Club de Getxo er spænskt knattspyrnufélag sem stofnað var árið 1909 í bænum Getxo í Baskalandi. Það var eitt af stofnliðum La Liga og varð bikarmeistari árið 1919. Frá 1944 hefur félagið aldrei leikið ofar en í þriðja til fimmta þrepi spænska knattspyrnupíramídans.

Félagið var stofnað árið 1909 sem Arenas Football Club sem síðar var breytt í Arenas Club. Basknesk félög voru leiðandi í þróun fótboltans á Spáni á fyrsta tímabili hans, auk þess sem basknesk ítök voru sterk í félögum annars staðar á landinu.

Arenas Club varð baskneskur meistari árið 1917 og tók því þátt í úrslitakeppni Copa del Rey, þar sem liðið beið lægri hlut gegn Real Madrid í úrslitaleik. Tveimur árum síðar komst liðið aftur í úrslitakeppnina eftir sigur í héraðskeppni og í það skiptið fór það með sigur af hólmi, eftir 5:2 sigur á FC Barcelona í framlengingu. Árið eftir átti Arenas Club tvo leikmenn í fyrsta spænska landsliðinu sem keppti á Ólympíuleikunum í Antwerpen.

Árin 1925 og 1927 átti Arenas Club eftir að komast í bikarúrslitaleiki, en tapaði í bæði skiptin. Fyrst fyrir Barcelona en svo fyrir Real Unión. Fjórir leikmenn Arenas Club voru í spænska landsliðshópnum sem keppti á Ólympíuleikunum í Amsterdam árið 1928.

Arenas Club var stofnfélagi í La Liga árið 1928 og náði best þriðja sæti leiktíðina 1928/29. Eftir sjö ára keppni féll félagið niður um deild og hefur aldrei aftur komist í hóp þeirra bestu. Frá stríðslokum hefur liðið flakkað milli þriðju og fimmtu efstu deildar og látið lítið fyrir sér fara.

Veturinn 1975-76 þreytti Javier Clemente frumraun sína sem þjálfari hjá Arenas Club.