Andreas Heusler
Andreas Heusler (10. ágúst 1865 í Basel – 28. febrúar 1940 í Basel) var svissneskur miðaldafræðingur, sem sérhæfði sig í germönskum og norrænum fræðum.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Andreas Heusler fæddist inn í fjölskyldu virðulegra borgara í Basel, þriðji í röð feðga sem báru sama nafn. Faðir hans var Andreas Heusler (1834–1921) og afi Andreas Heusler (1802–1868), sem báðir höfðu fengist við lögfræði, réttarsögu og stjórnmál. Hann átti glæsilegan námsferil í Basel, Freiburg og Berlin og brautskráðist 1887 í Freiburg með doktorsritgerðinni: „Beitrag zum Consonantismus der Mundart von Baselstadt“.
Þegar Heusler var 25 ára gamall, 1890, hóf hann háskólakennslu í Berlín og var settur prófessor þar í norrænni textafræði frá 1894 til 1913. Hann sökkti sér niður í rannsóknir á íslenskum fornbókmenntum, einkum Eddukvæðum og Íslendingasögum, þýddi mörg verk á þýsku og ferðaðist tvisvar til Íslands. Frá 1914 til 1919 var Heusler prófessor í germanskri textafræði í Háskólanum í Berlín. Eftir að hann fluttist aftur til Sviss bjó hann frá 1920 í Arlesheim við Basel; þá hafði verið stofnuð staða fyrir hann við Háskólann í Basel, sem hann sinnti uns hann náði aldursmörkum 1936.
Meðal áberandi eðlisþátta í persónuleika Heuslers voru ást hans á tónlist (hann spilaði á fiðlu), sinnaskipti úr því að vera sannkristinn í að vera sannfærður guðleysingi (um 1889) og þó einkum hrifning af germanskri og norrænni menningu. Nokkuð er deilt um hver afstaða Heuslers var síðustu árin til þjóðernisstefnunnar í Þýskalandi. Hann mun í fyrstu hafa verið hallur undir hana, en talið er að hann hafi orðið fráhverfur Adolf Hitler um 1938.[1] Góða innsýn í hugarheim hans gefa 400 sendibréf til Wilhelm Ranisch, sem hann skrifaði á árabilinu 1890–1940.
Andreas Heusler giftist (1893) söngkonunni Auguste Hohenschild, sem var fjórtán árum eldri en hann. Hún var frá Hessen. Hjónabandið var misheppnað og þau skildu 1922, en höfðu ekki búið saman frá 1901. Heusler dó í Basel árið 1940 eftir stutta sjúkdómslegu.
Áhrif
[breyta | breyta frumkóða]Andreas Heusler var meðal áhrifamestu manna í germönskum fræðum á fyrri hluta 20. aldar, og setti mark sitt á kenningar og hugtök sem hafa haft áhrif til þessa dags. Hann lagði einnig sitt af mörkum við að kynna íslenskar fornbókmenntir á hinu þýskumælandi svæði, með því að þýða Brennu-Njáls sögu, Hænsa-Þóris sögu og Grágás.
Ritverk (úrval)
[breyta | breyta frumkóða]- Der Ljóþaháttr, eine metrische untersuchung, Berlin: Mayer & Müller 1889, 82 s.
- (Útg.): Zwei Isländer-Geschichten. Die Hønsna-þóres und die Bandamanna saga, Berlin: Weidmannsche Buchhandlung 1897, lxii+164 s. — 2. útg. endurskoðuð, 1913.
- (Þýð.): Die Geschichte vom Hühnerthorir, eine altisländische Saga, Berlin 1900, 92 s.
- Die Lieder der Lücke im Codex Regius der Edda, Strassbourg 1902, 98 s. — Sérpr. úr Germanistische Abhandlungen. Hermann Paul zum 17. März 1902 dargebracht.
- (Útg.): Eddica minora. Dichtungen eddischer Art aus den Fornaldarsögur und anderen Prosawerken, Dortmund 1903, xc+160 s. — Með Wilhelm Ranisch. Texti á íslensku, en inngangur á þýsku.
- Lied und Epos in germanischer Sagendichtung. Dortmund: Ruhfus 1905.
- Die gelehrte Urgeschichte im altisländischen Schrifttum, Berlin 1980, 102 s.
- Das Strafrecht der Isländersagas, Leipzig 1911, 246 s.
- Altisländisches Elementarbuch. Heidelberg: Winter 1913.
- (Þýð.): Die Geschichte vom weisen Njal. Jena: Diederichs 1914. (Thule, altnordische Dichtung und Prosa, 4 / ritstj. Felix Niedner). — Þýðing á Brennu-Njáls sögu.
- Die Anfänge der isländischen Saga, Berlin 1914, 87 s.
- Die altgermanische Dichtung. Berlin: Athenaion 1923.
- Deutsche Versgeschichte. Berlin: de Gruyter 1925-1929 (3 bindi)
- Nibelungensage und Nibelungenlied, die Stoffgeschichte des deutschen Heldenepos, 3. útg., Dortmund 1929, 336 s.
- Germanentum. Vom Lebens- und Formgefühl der alten Germanen, Heidelberg 1934, 143 s.
- Einfälle und Bekenntnisse. Basel 1935.
- Codex Regius of the Elder Edda, Copenhagen 1937. — Ljósprentun á Konungsbók Eddukvæða. Formáli eftir Andreas Heusler. Corpus Codicum Islandicorum Medii Aevi, 10.
- (Þýð.): Isländisches Recht. Die Graugans, Weimar 1937, xxxii+457 s. — Grágás í þýskri þýðingu.
- Kleine Schriften 1–2, Berlin 1943–1969, 690+774 s.
- Schriften zum Alemannischen. Berlin: de Gruyter 1970. — Stefan Sonderegger gaf út.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Historisches Lexikon der Schweiz
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Arthúr Björgvin Bollason: Andreas Heusler in Island. Germanentum im Fin de siècle, Basel 2006, 62–85.
- Germanentum im Fin de siècle. Wissenschaftsgeschichtliche Studien zum Werk Andreas Heuslers. Basel: Schwabe, 2006. ISBN 978-3-7965-2163-8
- Fyrirmynd greinarinnar var „Andreas Heusler (Altgermanist)“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. júlí 2011.