Alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu
Alþjóðasamningur um öryggi mannslífa á hafinu eða SOLAS-samþykktin er alþjóðlegur hafréttarsamningur um lágmarksöryggiskröfur við smíði, búnað og rekstur kaupskipa. Skip sem sigla undir fána aðildarríkis samningsins eru skuldbundin til að uppfylla kröfur hans. Alþjóðasiglingamálastofnunin ber ábyrgð á samningnum.
Samningurinn var samþykktur árið 1974 og tók gildi 25. maí 1980. Í nóvember 2018 voru aðildarríki 164 talsins. 99% kaupskipaflota heimsins í tonnum talið siglir undir fána einhvers þessara ríkja. Ísland fullgilti samninginn árið 1984.
Ákvæði
[breyta | breyta frumkóða]SOLAS-samþykktin kveður á um að fánaríki tryggi að skip sem sigla undir þeirra fána uppfylli lágmarkskröfur til smíði, búnaðar og reksturs kaupskipa. Samningurinn er mjög umfangsmikill. Hann skiptist í 14 kafla, sem síðan skiptast í undirkafla. Aðeins Kafli V gildir um öll skip og báta. Í köflunum er síðan vísað í ítarlegri staðla („kóða“) fyrir útfærslu einstakra þátta.
- Kafli I - Almenn ákvæði
- Fjallar um gildissvið samþykktarinnar, almenna skoðun, skoðun öryggisbúnaðar og vottun. Hér er tekið fram að samþykktin eigi aðeins við um vélknúin farþega- og flutningaskip í millilandasiglingum sem eru yfir 500 rúmlestir. Reglurnar eiga ekki við minni skip, seglskip, fiskiskip og skemmtibáta.
- Kafli II-1 - Smíði; skipting og stöðugleiki, vélar og rafmagnskerfi
- Kveður meðal annars á um skiptingu skrokksins í hólf með vatnsþéttum skilrúmum.
- Kafli II-2 - Brunavarnir, eldskynjarar og slökkvibúnaður
- Þar á meðal alþjóðakóði um brunaöryggiskerfi (FSS) og alþjóðakóði um brunaprófunaraðferðir (FTP)
- Kafli III - Björgunarbúnaður og uppsetning
- Þar á meðal alþjóðakóði um björgunarbúnað (LSA)
- Kafli IV - Fjarskipti
- Gerir kröfu um að öll farþega- og flutningaskip í millilandasiglingum uppfylli GMDSS-staðalinn, séu með EPIRB-neyðarbauju og ratsjárvara fyrir leit og björgun.
- Kafli V - Siglingaöryggi
- Kafli VI - Flutningur farms
- Þar á meðal reglur um örugga festingu farms (CSS), öryggisreglur fyrir skip sem flytja timburhlaða (TDC) og reglur um örugga meðferð fasts búlkafarms (IMSBC)
- Kafli VII - Flutningur hættulegra efna
- Þar á meðal alþjóðlegur kóði um siglingu með hættulegan varning (IMDG)
- Kafli VIII - Kjarnorkuknúin skip
- Þar á meðal öryggiskóði fyrir kjarnorkuknúin kaupskip (VET)
- Kafli IX - Stjórnun fyrir öruggan rekstur skipa
- Þar á meðal alþjóðakóði um öryggisstjórnun skipa (ISM)
- Kafli X - Öryggisatriði fyrir háhraðaskip
- Þar á meðal kóði um háhraðaför (HSC)
- Kafli XI-1 - Sérstök ákvæði til að auka siglingaöryggi
- Þar á meðal kóði um aukna áætlun athugana í eftirliti með búlkaskipum og olíuflutningaskipum (ESP)
- Kafli XI-2 - Sérstök ákvæði til að auka siglingavernd
- Þar á meðal öryggiskóði um skip og hafnaraðstöðu (ISPS)
- Kafli XII - Sérstök öryggisákvæði fyrir búlkaskip
- Kafli XIII - Staðfesting á uppfyllingu krafna
- Kafli XIV - Öryggisákvæði fyrir skip á pólsvæðum
- Þar á meðal kóði um siglingar á pólsvæðum (pólkóðinn)
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsta SOLAS-samþykktin var gerð í kjölfarið á Titanic-slysinu 1914 og kvað meðal annars á um fjölda björgunarbáta og stöðuga talstöðvarvakt. Samþykktin tók aldrei gildi vegna Fyrri heimsstyrjaldarinnar. Nýrri útgáfur hennar voru gefnar út 1929 og 1948.
Alþjóðasiglingamálastofnunin var stofnuð 1948 og var fyrsta verkefni hennar að endurskoða SOLAS-samninginn. Nýr samningur var gerður 1960. Samningurinn hafði mikla þýðingu sem alþjóðlegt regluverk í samræmi við þróun nútímakaupskipa.
Árið 1974 var samningnum breytt verulega, aðallega til að hraða breytingum í takt við þróun skipa. Þannig var þögult samþykki nóg til að breytingar tækju gildi í stað yfirlýsts samþykkis áður. Samningnum hefur oft verið breytt síðan þá og er því oft talað um SOLAS-samþykktina, með breytingum.
Árið 1975 var ákveðið að nota metrakerfið í framtíðarútgáfum samþykktarinnar og árið 1988 var Morse-lykillinn lagður af og alþjóðlegt neyðar- og öryggiskerfi fjarskipta á sjó, GMDSS, tekið upp í staðinn.