Kóði um siglingar á pólsvæðum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ísbrjótur á ferð við Suðurskautslandið.

Kóði um siglingar á pólsvæðum eða Pólkóðinn er alþjóðlegur öryggiskóði sem Alþjóðasiglingamálastofnunin tók upp sem hluta af SOLAS-samþykktinni árið 2014. Kóðinn setur fram reglur um siglingar skipa í Norður-Íshafi og Suður-Íshafi. Hann nær bæði yfir öryggi skipa og á að draga úr hættu á mengunarslysum. Þannig er líka vísað til hans í MARPOL-samþykktinni. Kóðinn flokkar skip í þrjá flokka: A-flokk skipa sem geta siglt í 0,7 til 1,2 metra þykkum ársgömlum ís sem getur innihaldið eldri ís, B-flokk skipa sem geta siglt í þunnum 0,3 til 0,7 metra þykkum ís, og C-flokk skipa sem geta siglt í þynnri ís eða á íslausum sjó.

Kóðinn hefur verið gagnrýndur fyrir að ganga ekki nógu langt í kröfum og eftirliti. Hann nær ekki yfir fiskiskip sem eru 500 brúttótonn eða minni, og ekki yfir loftmengun og útblástur gróðurhúsalofttegunda. Leiðbeiningar um meðferð kjölfestuvatns og notkun botnmálningar eru sett fram sem tilmæli.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.