Agnar Már Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Agnar Már Magnússon er íslenskur djasstónlistarmaður. Hann hóf tónlistarnám sitt sex ára gamall við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar þar sem hann lagði fyrst stund á orgelleik en síðar píanó. Eftir lokapróf frá tónlistarskóla FÍH og Conservatorium van Amsterdam í Hollandi stundaði hann nám hjá Larry Goldings og fleiri einkakennurum í New York. Þar komst Agnar jafnframt í kynni við marga þekkta djasstónlistarmenn og þau kynni leiddu meðal annars til útgáfu fyrsta geisladisks hans sem ber nafnið 01. Núll einn var gefinn út 2001 og honum dreift víða um heim af spænska plötufyrirtækinu Fresh Sound-New Talent. Síðan þá hefur Agnar sent frá sér marga geisladiska sem hafa flestir hlotið tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2001. Þeirra á meðal eru Tónn í tómið, tónleikaupptaka af píanó-dúett með Ástvaldi Traustasyni; tveir geisladiskar með B3 orgeltríóinu, Fals og Kör, geisladiskur með frumsaminni tónlist við leikritið Nítjánhundruð, Ég um þig með söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur og síðast ekki síst, Láð sem kom út 2007. Agnar Már kallar Láð heimkomu sína og vinnur þar úr íslenskum tónlistararfi en lagið „Daboli“ var valið djasslag ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum 2008.

Agnar hefur hlotið verðlaunin „Outstanding Musicianship Award“ frá Berklee-tónlistarháskólanum í Boston og komist í undanúrslit í Alþjóðlegu djass-píanókeppninni Martial Solal í París haustið 2002. Hann hefur útsett lög fyrir geislaplötur og söngleiki, starfað með Stórsveit Reykjavíkur í mörg ár, leikið á tónleikum á Íslandi sem erlendis, verið píanóleikari og annast tónlistarstjórn í leikhúsi.