Adolfo Zumelzú

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Zumelzú árið 1929.

Adolfo Bernabé Zumelzú (f. 5. janúar 1902 - d. 29. mars 1973) var knattspyrnumaður frá Argentínu. Hann var í landsliði þjóðar sinnar sem lék til úrslita á HM 1930 og varð tvívegis Suður-Ameríkumeistari.

Ævi og ferill[breyta | breyta frumkóða]

Zumelzú fæddist í Buenos Aires og var af baskneskum ættum eins og endurspeglaðist í viðurnefni hans El Vasko eða Baskinn. Hann lék með CA San Isidro í útborg Buenos Aires áður en hann gekk til liðs við stórliðið Racing Club. Þar varð hann Argentínskur meistari, síðasta árið sem áhugamennska var við lýði í deildinni. Þótt Zumelzú væri aðeins eitt ár í herbúðum Racing Club bakaði hann sér miklar vinsældir og virðingu og er talinn í hópi bestu leikmanna í sögu félagsins.

Síðar átti Zumelzú eftir að leika með Sportivo Palermo og CA Tigre.

Hann var fyrst valinn í argnetínska landsliðið fyrir Copa America 1927 þar sem Argentína fór með sigur af hólmi. Tveimur árum síðar varði liðið titilinn á heimavelli í keppni þar sem Zumelzú skoraði fyrsta landsliðsmark sinn í viðureign gegn Perú. Hann var í landsliðshópnum sem hélt á Ólympíuleikana 1928 en kom ekki við sögu.

Á HM í Úrúgvæ tók Zumelzú aðeins þátt í einum leik, í 6:3 sigri á Mexíkó þar sem hann skoraði tvö mörk þrátt fyrir að leika sem varnarmaður. Þetta reyndist síðasti landsleikur og landsliðsmörk leikmannsins.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]