Abdelaziz Bouteflika

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Abdelaziz Bouteflika
عبد العزيز بوتفليقة‎
Forseti Alsír
Í embætti
27. apríl 1999 – 2. apríl 2019
Forsætisráðherra
Sjá lista
ForveriLiamine Zéroual
EftirmaðurAbdelkader Bensalah
(til bráðabirgða)
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. mars 1937
Oujda, Marokkó
Látinn17. september 2021 (84 ára) Zéralda, Alsír
ÞjóðerniAlsírskur
StjórnmálaflokkurÞjóðfrelsisfylkingin
MakiAmal Triki (1990−?; skilin)[1]
Undirskrift

Abdelaziz Bouteflika (2. mars 1937 – 17. september 2021[2]) var alsírskur stjórnmálamaður. Hann var forseti Alsír frá 27. apríl árið 1999 til 2. apríl 2019. Forsetatíð hans var sú lengsta í sögu landsins.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Bouteflika var meðlimur í Þjóðfrelsisher Alsír (ALN) í stríðinu um Alsír. Hann var meðlimur í herforingjasamtökunum Oudja og komst þar til metorða sem bandamaður byltingarleiðtogans Houari Boumédiène.

Bouteflika var kjörinn á alsírska þingið fyrir Tlemcen-kjördæmi árið 1962 og varð ungdóms-, íþrótta- og ferðamálaráðherra í fyrstu ríkisstjórn Ahmeds Ben Bella frá 1962 til 1963. Hann var síðan utanríkisráðherra frá 1963 til 1979 í næstu þremur ríkisstjórnum Ben Bella og síðan ríkisstjórnum Houari Boumédiène. Bouteflika var 26 ára þegar hann varð utanríkisráðherra og á enn í dag met sem yngsti utanríkisráðherra heimssögunnar.[3]

Bouteflika tók árið 1965 þátt í valdaráni gegn Ben Bella sem leiddi til þess að Boumédiène varð forseti. Eftir dauða Boumédiène var Bouteflika ráðgjafi Chadli Bendjedid Alsírsforseta frá 1979 til 1980. Árið 1981 var Bouteflika sakaður um fjárdrátt í embætti og neyddist því til þess að dvelja í útlegð frá heimalandinu til ársins 1987.

Í alsírsku borgarastyrjöldinni á tíunda áratuginum reyndi Bouteflika, ólíkt Liamine Zéroual forseta, að hvetja til sátta á milli stríðandi fylkinganna. Bouteflika bauð sig sjálfstætt fram í alsírsku forsetakosningunum árið 1999 og vann umdeildan sigur í fyrstu umferð með meintum 73,8 prósentum atkvæða. Hann var endurkjörinn í fyrstu umferð í kosningum árin 2004 (með 85 % atkvæða), 2009 (með 90,2 % atkvæða) og 2014 (81,5 %). Ásamt því að vera forseti var hann jafnframt varnarmálaráðherra frá árinu 2003 og heiðursforseti alsírsku Þjóðfrelsisfylkingarinnar (FLN) frá 2005.

Þegar arabíska vorið skall á árið 2011 kom Bouteflika til móts við landsmenn með því að aflétta neyðarástandi sem hafði lengi verið í gildi í Alsír. Þetta nægði til þess að Bouteflika hélt völdum á meðan mörgum stjórnendum í arabískum nágrannalöndum Alsír var steypt af stóli.[3]

Árið 2013 fékk Bouteflika alvarlegt heilablóðfall sem hafði veruleg áhrif á langtímaheilsu hans. Hreyfigeta hans varð hömluð og hann birtist sjaldan opinberlega upp frá því. Því var geta hans til þess að stjórna landinu oft dregin í efa á síðustu árum.

Bouteflika lýsti því yfir að hann hygðist engu að síður bjóða sig fram í fimmta sinn árið 2019. Yfirlýsing hans leiddi til langvarandi mótmælaöldu um allt landið[4] sem leiddi til þess að hann lýsti því fyrst yfir að hann myndi ekki sitja út kjörtímabilið ef hann næði endurkjöri,[5] en dró síðan framboð sitt alfarið til baka.[6] Þann 26. mars krafðist yfirmaður alsírska herráðsins þess að Bouteflika yrði úrskurðaður óhæfur til að halda áfram stjórn landsins vegna heilsubrests.[7]

Þann 1. apríl lýsti Bouteflika yfir að hann hygðist segja af sér fyrir lok kjörtímabils síns þann 28. apríl 2019.[8] Næsta dag sagði Bouteflika af sér og hlaut strax lausn úr embætti.[9]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Algérie : Bouteflika et les femmes – JeuneAfrique.com“. 3. mars 2015. Sótt 26. mars 2019.
  2. Markús Þ. Þórhallsson (18. september 2021). „Bouteflika fyrrverandi Alsírforseti látinn“. RÚV. Sótt 18. september 2021.
  3. 3,0 3,1 Árni Sæberg (18. september 2021). „Fyrrverandi forseti Alsír er allur“. Vísir. Sótt 19. september 2021.
  4. „For­set­an­um neitað í tveim­ur heims­álf­um“. mbl.is. 10. mars 2019. Sótt 26. mars 2019.
  5. Jóhann Óli Eiðsson (4. mars 2019). „Bouteflika situr áfram en lofar að sitja ekki út kjörtímabilið“. Vísir. Sótt 26. mars 2019.
  6. Samúel Karl Ólason (11. mars 2019). „Bouteflika stígur til hliðar“. Vísir. Sótt 26. mars 2019.
  7. „Als­írski her­inn vill Bou­teflika burt“. mbl.is. 26. mars 2019. Sótt 26. mars 2019.
  8. Ásgeir Tómasson (1. apríl 2019). „Forseti Alsírs boðar afsögn“. RÚV. Sótt 2. apríl 2019.
  9. Bjarni Pétur Jónsson (2. apríl 2019). „Bouteflika segir af sér“. RÚV. Sótt 2. apríl 2019.


Fyrirrennari:
Liamine Zéroual
Forseti Alsír
(27. apríl 19992. apríl 2019)
Eftirmaður:
Abdelkader Bensalah
(til bráðabirgða)