Fara í innihald

Þrumur í vestri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa bókarinnar.

Þrumur í vestri (f. Tonnerre à l'ouest) eftir Jean-Michel Charlier og Jean Giraud er önnur bókin í bókaflokknum um Blástakk liðsforingja. Sagan kom út í bókarformi árið 1966 og hefur ekki verið þýdd á íslensku.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Bókin tekur upp þráðinn þar sem frá var horfið í næstu bók á undan, Navajó-virkinu. Blástakkur og félagar eru einangraðir og fáliðaðir í Navajó-virki sem Apasar undir stjórn höfðingjans Kotsís sitja um. Bascom ofursti er herskár og vill lífláta þá indíána sem eru í haldi í virkinu. Þegar Crowe liðþjálfi hreyfir mótmælum verður Bascom æfur, niðurlægir Crowe og skipar honum í stofufangelsi. Blástakkur afræður að freista þess að laumast frá virkinu í morgunsárið til að sækja hjálp, en um nóttina grípur Crowe til örþrifaráða, yfirbugar vörð sem gætir fanganna og tekst að flýja með þeim yfir virkismúrinn út í nóttina. Blástakkur heldur sínu striki og með því að reka mannlausan hestvagn fullan af sprengiefni á harðaspretti út úr virkinu tekst virkismönnum að rugla indíánana í ríminu og Blástakkur nær að komast undan. Eftir för yfir brennheita eyðimörk, þar sem þorstinn sverfur að og engu má muna að Blástakkur týni lífi, kemur hann loks að ánni Santa Cruz í Arísóna, en er tekinn höndum af mexíkóskum smyglurum sem sjá indíánunum fyrir skotvopnum. Honum tekst þó að sleppa úr klóm bandíttanna og komast til Tucson, en bærinn reynist mannlaus þar sem íbúarnir hafa flúið yfirvofandi árás Apasa, að einum gömlum manni undanskildum. Enga hjálp er því að fá, en Blástakkur verður sér úti um móteitur við skröltormabiti í þeirri von að það geti bjargað lífi Dickson hershöfðingja í Navajó-virki. En þá ráðast indjánarnir á bæinn og aðeins Blástakkur og gamli maðurinn til varnar. Sá gamli fellur, en Blástakki tekst að flýja úr bænum. Þegar hann nær til virkisins reynist það yfirgefið af öllum nema Crowe liðsforingja sem segir Blástakki að Bascom ofursti hafi fallið í árás indíánanna, en Kotsís hafi þyrmt lífi annarra í virkinu og leyft þeim að fara burt. Crowe telur Blástakk á að hjálpa sér að finna hinn brottnumda son Stantons bónda sem sé í klóm mexíkóskra ræningja sem beri ábyrgð á árásinni a bóndabýlið. Eftir nokkurra daga ferð yfir landamærin til Mexíkó finna þeir ræningjana. Blástakki tekst að forða drengnum í skjóli nætur og komast undan á meðan Crowe lætur byssukúlum rigna yfir ræningjana. Blástakkur fer með drenginn yfir landamærin til Texas, en afdrif Crowe eru óljós.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Sagan er innblásin af raunverulegum atburðum og persónum, þ.e. átökum bandaríska hersins við frumbyggja af ættflokki Apasa-indíána í suðvesturríkjum Bandaríkjanna á seinni hluta 19. aldar. Aðdragandi þeirra átaka var sá að herinn undir forystu George N. Bascom liðþjálfa tók leiðtoga Apasa, Kotsís, og meðlimi ættflokks hans höndum fyrir að hafa rænt ungum dreng í Arísóna árið 1861.
  • Blueberry: Samlade äventyr 1. Cobolt Förlag. 2015.