Blástakkur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Blástakkur (franska: Blueberry) er heiti á vinsælum fransk-belgískum teiknimyndasögum í raunsæisstíl sem komu fram á sjónarsviðið árið 1963. Sögurnar voru skrifaðar af belgíska höfundinum Jean-Michel Charlier og teiknaðar af franska listamanninum Jean Giraud. Bækurnar segja frá ævintýrum Mike S. Blueberry, liðsforingja í bandaríkjaher, á tímum Villta Vestursins og eru bæði innblásnar af vestrakvikmyndum og -ævintýrum og bandarískri sögu. Bækurnar um Blástakk hafa verið þýddar á fjölmörg önnur tungumál, þar með talið ensku, þýsku, dönsku og sænsku, og nokkrar hafa verið þýddar á íslensku.

Jean Giraud

Útgáfusaga[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsta ævintýrið um Blástakk liðsforingja birtist í franska teiknimyndablaðinu Pilote þann 31. október 1963 undir heitinu Fort Navajo. Komu alls út 23 bækur í samstarfi þeirra Charlier og Giraud. Eftir lát Charlier árið 1989 hélt Giraud áfram að semja og teikna sögurnar um Blástakk og þegar Giraud sjálfur andaðist árið 2012 höfðu alls komið út 29 bækur í ritröðinni. Að auki urðu til tvær "spin-off" seríur upp úr Blástakksbókunum. Sú fyrri (f. Le Jeunesse de Blueberry), sem hóf göngu sína árið 1985, segir frá æskuárum Blástakks. Hin síðari (Marshal Blueberry), sem hóf göngu sína árið 1991, gerist á svipuðum tíma og bækurnar í aðalröðinni. Ýmsir höfundar komu að ritun þessara "spin-off" bóka, þar með talið þeir Charlier og Giraud, en aðrir sáu um að teikna þær. Í nóvember 2019 leit svo dagsins ljós ný bók um Blástakk eftir Joann Sfar (handrit) og Christophe Blain (teikningar).

Nokkur ævintýri Blástakks hafa komið út á íslensku. Þrjár bækur í ritröðinni komu út á vegum Fjölva á áttunda og níunda áratug síðustu aldar í íslenskri þýðingu Þorsteins Thorarensen, þ.e. bækur nr. 4, 5 og 13 í opinberu röðinni. Ein bók til viðbótar, nr. 11 í röðinni, kom síðan út á vegum Nordic Comic útgáfunnar árið 2002 í íslenskri þýðingu Hildar Bjarnason og Jean Posocco. Loks hefur ein saga af Blástakki, nr. 18 í röðinni, birst í myndasögublaðinu Neo-Blek sem Froskur útgáfa gefur út.

Sögurnar[breyta | breyta frumkóða]

Í Blástakksbókunum eru oftast sagðar lengri framhaldssögur af ævintýrum kappans. Hver saga spannar þannig oft nokkrar bækur þótt einnig séu dæmi um sjálfstæð ævintýri í einni bók. Þannig hefur sagnabálkurinn allur stundum verið hlutaður niður í níu sjálfstæðar sögur, þ.e. 1) fyrri söguna um Navajó-virkið (bækur 1-5), 2) söguna um óöld í Silfurtúni (bók 6), söguna um járnhestinn og leiðangurinn til Svörtufjalla (bækur 7-10), söguna um gullnámu Þjóðverjans (bækur 11-12), söguna um Suðurríkjafjársjóðinn (bækur 13-15), söguna um samsærið mikla (bækur 16-17), seinni söguna um Navajó-virkið (bækur 18-20), söguna um upprisu Blástakks (bækur 21-22), söguna um ást í Arísóna (bók 23) og loks söguna um átökin í O.K. Corral (bækur 24-28). Síðasta bókin í seríunni, Apaches, sem kom út árið 2007, gerist hins vegar við lok Þrælastríðsins áður en atburðirnir sem lýst er í fyrstu bókinni (Navajó-virkið) áttu sér stað og er þannig nokkurs konar formáli að seríunni allri.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

Eftirfarandi listi yfir Blástakksbækurnar sýnir nöfn og útgáfuár bókanna á frönsku og íslenskt heiti og útgáfuár þar sem við á. Stuðst er við íslensk heiti sem notuð eru í þeim bókum sem komið hafa út á íslensku, en í öðrum tilvikum við heiti bókanna á frummálinu.


  1. Navajó-virkið (Fort Navajo, 1963)
  2. Þrumur í vestri (Tonerre á l'Ouest, 1964)
  3. Einmana Örn (L'Aigle solitaire, 1964)
  4. Týndi riddarinn (Le Cavalier perdu, 1965) [Ísl. útg. 1978]
  5. Á slóð Navajóa (La Piste des Navajos, 1965) [Ísl. útg. 1978]
  6. Maðurinn með silfurstjörnuna (L'Homme á l'etoile d'argent, 1966)
  7. Járnhesturinn (Le Cheval de fer, 1966)
  8. Maðurinn með gullhnefann (L'Homme aux poing d'acier, 1967)
  9. La Piste des Sioux (1967)
  10. Générale Téte Jaune (1968)
  11. Gullnáma þjóðverjans (Le mine de l'allemand perdu, 1969) [Ísl. útg. 2002]
  12. Draugurinn með gullkúlurnar (Le Spectre aux balles d'or, 1969)
  13. Stúlkan í Mexíkó (Chihuahua Pearl, 1970) [Ísl. útg. 1982]
  14. Maðurinn með hálfu milljónina (L'Homme qui valait 500 000$, 1971)
  15. Ballade pour un cercueil (1972)
  16. Le Hors-la-loi (1973)
  17. Angel Face (1975)
  18. Arnarnef (Nez Cassé, 1980) [Ísl. útg. 2014]
  19. La Longue marche (1980)
  20. La Tribu Fantôme (1982)
  21. La Dernière carte (1983)
  22. Le Bout de la piste (1986)
  23. Arizona Love (1990)
  24. Mister Blueberry (1995)
  25. Ombres sur Tombstone (1997)
  26. Géronimo l'Apache (1999)
  27. OK Corral (2003)
  28. Dust (2005)
  29. Apaches (2007)

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Blueberry: Samlade äventyr 1. Cobolt Förlag. 2015.
  • Blueberry: Samlade äventyr 2. Cobolt Förlag. 2016.
  • Blueberry: Samlade äventyr 3. Cobolt Förlag. 2016.
  • Blueberry: Samlade äventyr 4. Cobolt Förlag. 2017.