Fara í innihald

Navajó-virkið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kápa bókarinnar.

Navajó-virkið (f. Fort Navajo) eftir Jean-Michel Charlier og Jean Giraud er fyrsta bókin í bókaflokknum (teiknimyndasögunum) um Blástakk liðsforingja. Sagan hóf göngu sína í franska myndasögutímaritinu Pilote þann 29. apríl 1965 og kom út í bókarformi síðar á sama ári. Bókin hefur ekki komið út í íslenskri þýðingu.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Craig liðsforingi í Bandaríkjaher er á leið til Navajó-virkis í óbyggðum Villta vestursins og hittir fyrir tilviljun kollega sinn Blástakk (Mike Blueberry) á krá í smábæ einum. Þeir verða samferða með póstvagni til virkisins, en á leiðinni koma þeir að bóndabýli sem orðið hefur fyrir árás indíána. Helsærður bóndinn segir þeim að árásarmennirnir hafi rænt ungum syni hans og Craig liðsforingi lofar bóndanum að hafa uppi á drengnum. Blástakki líst mátulega á slíkt hættuspil, en lætur þó tilleiðast að elta Graig og bjargar honum naumlega úr klóm indíánanna. Á bakaleiðinni mæta þeir leitarsveit frá Navajó-virki undir forystu Bascom ofursta sem hatast við alla indíána. Þegar hópur saklausra Apasa með konur og börn verður á vegi sveitarinnar fyrirskipar Bascom ofursti árás í hefndarskyni. Blástakkur grípur til sinna ráða og tekst með klókindum að afstýra miklu blóðbaði, en fjöldi Apasa fellur engu að síður. Bascom hótar Blástakki herrétti og dauða fyrir svikin í bræði sinni, en Craig tekur upp hanskann fyrir Blástakk og Bascom neyðist til að láta í minni pokann. Þegar sveitin nær til Navajó-virkis eru Blástakkur, Craig og Bascom kallaðir á fund Dickson hershöfðingja sem er órólegur yfir atburðum og vörnum virkisins ef til árásar Apasa kæmi. Næstu nótt er ör skotið að virkinu með skilaboðum frá Kotsís, höfðingja Apasa, um fund með stjórnendum virkisins. Dickson hershöfðingi fellst á það og lofar Apösunum griðum, en Bascom ofursti vill nota tækifærið og leiða þá í gildru. Áður en fundurinn fer fram er Dickson bitinn af skröltormi, leggst á sóttarsæng og felur Bascom stjórn virkisins. Blástakkur og túlkurinn Crowe, sem er af indíánaættum og í mikilli ónáð hjá Bascom ofursta, fara til fundar við Kotsís í tjaldi fyrir utan virkið. En á meðan umkringja menn Bascoms tjaldið. Bascom sakar Apasa um árásina á býlið, en Kotsís neitar og fullyrðir að ræningjar frá Mexíkó séu ábyrgir. Skerst í brýnu í tjaldinu og Bascom dregur upp byssu. Kotsís tekst að forða sér út úr tjaldinu þegar Craig liðþjálfi gengur á milli, en verður fyrir skoti á æðisgengnum flótta. Fjölda Apasa drífur að og Blástakkur og félagar komast naumlega inn fyrir virkismúrana. Bascom hefur trú á að liðsauki muni fljótt berast frá Santa Fe þar sem Dickson hershöfðingi hafði gert sendiboða út af örkinni. En snemma næsta morgun reka Apasarnir hest með höfuðflettu líki sendiboðans að virkishliðinu og liðsmönnum verður ljóst að þeir eru einangraðir og umkringdir og engrar hjálpar að vænta.

Fróðleiksmolar

[breyta | breyta frumkóða]
  • Í upphafi var ekki gert ráð fyrir því að Blástakkur yrði aðalpersóna bókaflokksins, en það breyttist fljótt og höfundurinn Charlier tók þá til við að skrifa aðrar persónur út úr sögunum, t.d. Craig liðsforingja. Útlit Blástakks er stæling á franska kvikmyndaleikaranum Jean-Paul Belmondo sem var á hátindi frægðar sinnar á sjöunda áratugnum.
  • Á ferð sinni um söguslóðir Villta Vestursins árið 1962 kynntist Charlier blaðamanni sem hafði dálæti á bláberjasultu og fékk því viðurnefnið Blueberry. Þaðan er nafn Blástakks komið.
  • Blueberry: Samlade äventyr 1. Cobolt Förlag. 2015.