Þórður Kolbeinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þórður Kolbeinsson (f. um 974) var íslenskt skáld. Um hann er mest fjallað í Bjarnar sögu hítdælakappa og er Þórði þar ekki borin vel sagan enda átti hann í átökum við hetju sögunnar, Björn hítdælakappa. Lyktaði þeirra viðskiptum þannig að Þórður vó Björn. Kona Þórðar var Oddný eykyndill Þorkelsdóttir og var hún áður heitin Birni. Í sögunni eru margar lausavísur eignaðar Þórði. Sú síðasta er um Oddnýju eykyndil og er í henni „ángurblíða og raunatónn“[1] samkvæmt Finni Jónssyni:

Móðr verðk mitt hross leiða,
mjúk verðra fǫr sjúkrar,
(reið esa fljót) und Fríði
fjargvefjar dag margan;
þvít (hjǫrborgar) hvergi
Hlǫkk unði sér dǫkkvar
(mikit stríð vas þat -Móða
merki-) skins fyr verkjum.[2]

Samkvæmt Skáldatali orti Þórður um allnokkra norræna höfðingja: Eirík jarl Hákonarson, Ólaf helga Noregskonung, Magnús góða Noregskonung og Svein Úlfsson Danakonung. Þórður hefði þó þurft að verða nokkuð langlífur til að yrkja um Svein Úlfsson og kann að vera að hér sé ruglingur á ferð og hið rétta sé að hann hafi í raun ort um Svein tjúguskegg.[3]

Hirðkvæði Þórðar eru að mestu glötuð nema að talsvert er varðveitt af Eiríksdrápu en í hana er vitnað í konungasögum, þar á meðal Heimskringlu, Fagurskinnu og Knýtlinga sögu. Í kvæðinu er meðal annars fjallað um orrustuna við Hjörungavog, útlegð Eiríks í Svíþjóð við hirð Ólafs sænska, Svöldarbardaga og hernað Eiríks á Englandi með Knúti ríka. Þar er meðal annars sagt frá viðureign Eiríks við Úlfkel snilling við Lundúnaborg:

Gollkennir lét gunni
grœðis hests fyr vestan
(Þundr vá leyfðr til landa)
Lundún saman bundit.
Fekk, — regn Þorins rekka
rann — of þingamǫnnum,
ýglig hǫgg, þars eggjar,
Ulfkell, bláar skulfu.[4]

Finnur Jónsson sagði að Eiríksdrápa væri "vel ort og liðlega, kenníngar ekki sjerlega margar og ekki tilkomumiklar".[1]

Arnór Þórðarson jarlaskáld var sonur Þórðar.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Finnur Jónsson 1904–1905:120.
  2. Finnur Jónsson 1912–1915:209.
  3. Carroll 2012:486.
  4. Carroll 2012:508.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Carroll, Jayne. 2012. "Þórðr Kolbeinsson". Skaldic Poetry of the Scandinavian Middle Ages I: 486–513. Turnhout: Brepols.
  • Finnur Jónsson. 1904–1905. Bókmentasaga Íslendínga fram undir siðbót. Kaupmannahöfn: Hið íslenska bókmentafjelag.
  • Finnur Jónsson. 1912–1915. Den norsk-islandske skjaldedigtning. B I. Kaupmannahöfn.