Úur
Úurnar var félagsskapur ungra kvenna sem starfaði innan Kvenréttindafélags Íslands. Kvenréttindafélagið stofnaði árið 1968 æskunefnd. Í nefndina máttu ganga allar félagskonur 35 ára og yngri. Í nóvember 1969 voru 18 ungar konur skráðar í nefndina. Rauðsokkuhreyfingin var stofnuð nokkru síðar og Vilborg Dagbjartsdóttir kynnti Rauðsokkuhreyfinguna á fundi hjá Úunum en konurnar í æskunefnd Kvenréttindafélagsins kusu þó að halda áfram sínu starfi en renna ekki saman við Rauðsokkahreyfinguna. Þann 18. nóvember 1970 samþykktu konurnar á fundi að hér eftir kæmu þær fram undir starfsheitinu Úur. Nafnið er sótt til persónu í bók Halldórs Laxness Kristnihald undir Jökli sem kom út um þetta leyti eða árið 1968.
Úurnar voru margar kennarar og þeim blöskraði sú sýn á íslenskar konur sem fram kom í kennslubókum þeirra tíma og kynbundið launamisrétti. Nokkrar Úanna skoðuðu námsbækur og gerðu úttekt á handavinnukennslu drengja og stúlkna sem þá var kynskipt og könnuðu boðskap barnabóka. Fyrstu afskipti Úanna af stjórnmálum voru undirskriftasöfnun í kringum Kvennaskólafrumvarpið.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Kvennasögusafn - Úurnar Geymt 17 maí 2006 í Wayback Machine