Fara í innihald

Úlfurinn bundinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Úlfurinn bundinn (danska: Ulven er løs) er fyrsta bókin í bókaflokknum um Goðheima. Hún kom út árið 1979. Teiknari hennar var listamaðurinn Peter Madsen, en auk hans komu þeir Hans Rancke-Madsen og Henning Kure að gerð handritsins, sem byggir að nokkru á frásögn Gylfaginningar af því þegar Fenrisúlfur var handsamaður. Bókin hefur verið þýdd á fjölda tungumála, þar á meðal íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst þegar Þór og Loki beiðast gistingar á bóndabæ í Miðgarði. Loki blekkir piltinn Þjálfa til að óhlýðnast fyrirmælum Þórs með því að brjóta bein úr geithafrinum Tanngrisni. Í refsingarskyni verður úr að Þjálfi og systir hans Röskva ganga í þjónustu Þórs. Þau halda til Ásgarðs þar sem Loki og Þór kynna til sögunnar helstu fyrirbæri og persónur. Þar fregna þau að Fenrisúlfur hafi slitið sig lausan og er mikill viðbúnaður meðal ása.

Frigg segir mannabörnunum frá því þegar Fenrisúlfur var upphaflega bundinn með töfrafjötri sem Loki hafði vélað út úr dvergum, en þeim aðförum lyktaði með því að Týr missti aðra hönd sína. Á sama tíma heldur Loki til fundar við dvergana og þarf að greiða þeim dýrum dómum fyrir viðgerð á fjötrinum. Tilraunir ásanna til að fanga úlfinn skila engum árangri og leiða einungis til eyðileggingar. Smástúlkan Röskva reynist sú eina sem óttast ekki Fenrisúlf, heldur lítur á hann sem ofvaxinn hvolp. Hún vingast við óargadýrið og fær það til að fallast á að hún smeygi fjötrinum um háls þess. Hið sérstaka samband Röskvu og Fenrisúlfs kemur síðar við sögu í bókaflokknum.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Afar skopleg mynd er dregin upp norrænu guðunum í sögunni. Flestir þeirra eru fremur hlálegir og fávísir, en um leið afar sjálfumglaðir. Konur eru yfirleitt rödd skynseminnar. Einkum Frigg, en einnig Sif og að sjálfsögðu Röskva, sem telja má aðalpersónu bókarinnar.
  • Þrátt fyrir titilinn er eltingaleikurinn við Fenrisúlf hálfgert aukaatriði í sögunni, þar sem megnið af rýminu fer í að kynna til sögunnar helstu persónur og skapa sögusvið sem gagnaðist höfundunum í næstu bókum.
  • Í upphafi fyrstu útgáfu bókarinnar var stiklað á stóru í heimi norræna goðaheimsins í máli og myndum á átta blaðsíðum. Í endurútgáfunni var sá texti skorinn niður í eina síðu.

Íslensk útgáfa[breyta | breyta frumkóða]

Úlfurinn bundinn kom út hjá Iðunni árið 1979, sama ár og á frummálinu. Þýðandi var Guðni Kolbeinsson. Hún var endurútgefin árið 2010 með nýrri forsíðu og endurskoðuðu aukaefni.