Fara í innihald

Skítuga stríðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Óhreina stríðið)
Minnismerki til heiðurs fórnarlamba fjöldaaftöku sem haldin var við bæinn Margarita Belén árið 1977.
Ljósmyndir af fólki sem var látið „hverfa“ á tíma skítuga stríðsins.

Skítuga stríðið (sp. Guerra sucia, einnig kallað Época del Proceso eða Época de los desaparecidos) er heiti á pólitískum ofsóknum herforingjastjórnar Argentínu gegn vinstrisinnum og stjórnarandstæðingum frá 1976 til 1983 í tengslum við Kondóráætlunina. Á þessum árum er talið að um 30.000 manns hafi verið látnir „hverfa“. Rúmum áratugi síðar hafði aðeins verið gerð grein fyrir afdrifum um helmings þeirra.[1]

Saga skítuga stríðsins

[breyta | breyta frumkóða]

Skítuga stríðið átti upptök sín á forsetatíð Isabel Martínez de Perón árin 1974 til 1975. Á stjórnartíð hennar var stofnuð dauðasveit sem gekk undir nafninu Andkommúníska bandalagið (sp. Alianza Anticomunista Argentina eða AAA) og stóð fyrir fjölda pólitískra morða á argentínskum vinstrimönnum.[2]

Árið 1975 framdi hópur hershöfðingja undir stjórn Jorge Rafael Videla valdarán gegn Martínez de Perón og stofnaði herforingjastjórn í Argentínu sem kölluð var Þjóðarendurskipulagningarferlið (sp. Proceso de Reorganización Nacional) eða bara „Ferlið“ (sp. el Proceso). Herforingjastjórn Videla hélt áfram grimmilegum ofsóknum á hendur argentínskum vinstrimönnum.[3] Algengt var að grunaðir vinstrisinnar væru sprautaðir með deyfilyfjum, þeir afklæddir og þeim síðan varpað í hafið að næturlagi úr flugvélum í um 2.000 metra hæð. Talið er að um 4.000 stjórnarandstæðingar hafi verið drepnir með þessum hætti á tíma skítuga stríðsins.[1][4]

Margir grunaðir vinstrisinnar voru leitaðir uppi í háskólanum Universidad del Sur í Búenos Aíres og handteknir eða látnir „hverfa“. Mörgum þeirra var haldið í fangavist í leynilegu fangelsi í sjóliðaskólanum ESMA (Escuela Superior de Mecánica de la Armada) í höfuðborginni. Þar voru þeir gjarnan pyntaðir með rafstraumi og margir þeirra létust við pyntingarnar.[1] Sjóliðsforinginn Adolfo Scilingo, sem tók þátt í aðgerðum skítuga stríðsins, greindi árið 1997 frá því við yfirheyrslur á Spáni að ófrískar konur hafi stundum verið handteknar, látnar fæða börn sín í fangelsi og síðan teknar af lífi. Börn þeirra hafi síðan verið afhent völdum fjölskyldum hermanna svo þau gætu hlotið „kristilegt uppeldi“, eða seld hjónum sem gátu ekki eignast börn sjálf sem „stríðsgóss“. Að sögn argentínska mannréttindafrömuðarins Estelu de Carlotto voru um 300 til 500 börn ættleidd með þessu móti.[3][5]

Samtök mæðra sem misstu börn sín í skítuga stríðinu hafa reglulega haldið mótmæli á Maítorginu fyrir framan forsetahöllina í Búenos Aíres frá árinu 1977. Samtök þeirra kallast mæður Maítorgsins (sp. Madres de Plaza de Mayo) og hafa þær reglulega krafist upplýsinga um horfna niðja sína og þess að morðingjum skítuga stríðsins verði refsað.[6] Samtökin Ömmur Maítorgsins (sp. Abuelas de Plaza de Mayo) hafa jafnframt starfað við að hjálpa fólki sem var selt í ættleiðingu eftir að líffræðilegir foreldrar þeirra voru drepnir að finna uppruna sinn og komast í tengsl við ættingja sína.[7]

Argentínska herforingjastjórnin hrundi árið 1983 í kjölfar ósigurs Argentínumanna í Falklandseyjastríðinu og borgaraleg lýðræðisstjórn tók við völdum í landinu. Nýi forsetinn, Raúl Alfonsín, tók í upphafi stjórnartíðar sinnar þá stefnu að sækja meðlimi herforingjastjórnarinnar til saka fyrir mannréttindabrot sín í skítuga stríðinu. Margir hátt settir leiðtogar herforingjastjórnarinnar, þar á meðal Videla og eftirmenn hans á forsetastól, Roberto Eduardo Viola og Leopoldo Galtieri, voru fangelsaðir, en árið 1987 mildaði Alfonsín stefnu sína gagnvart meðlimum herstjórnarinnar og skrifaði undir lög sem veittu lægra settum hermönnum sakaruppgjöf fyrir glæpi sem framdir voru í skítuga stríðinu.[8] Árið 1990 náðaði Carlos Menem forseti Videla og fleiri leiðtoga herforingjastjórnarinnar í því skyni að stuðla að „þjóðarsátt“.[1]

Á stjórnartíðum Néstors Kirchner og Cristinu Fernández de Kirchner eftir aldamót var lögð aukin áhersla á uppgjör við skítuga stríðið. Kirchner lét hefja rannsóknir á afdrifum þúsunda einstaklinga sem voru látnir hverfa á tíma herforingjastjórnarinnar.[9] Kirchner lét einnig ógilda sakaruppgjafir og náðanir yfir mörgum forsprökkum skítuga stríðsins og hóf réttarhöld yfir mörgum þeirra.[10][11] Á forsetatíðum Kirchner-hjónanna voru rúmlega 500 manns dæmdir og 1.000 sakfelldir fyrir mannréttindabrot í skítuga stríðinu.[12] Meðal annars var Videla fangelsaður á ný og dæmdur í lífstíðarfangelsi árið 2010.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Ásgeir Sverrisson (19. október 1997). „Hryllingssögur úr „skítuga stríðinu". Morgunblaðið. Sótt 23. nóvember 2019.
  2. „AAA birtir dauðalista mánaðarlega“. Mánudagsblaðið. 10. mars 1975. Sótt 24. nóvember 2019.
  3. 3,0 3,1 Ásgeir Sverrisson (21. júní 1998). „Börn „skítuga stríðsins". Morgunblaðið. Sótt 24. nóvember 2019.
  4. „Foringi úr „skítuga stríðinu" fyrir rétt á Spáni“. Morgunblaðið. 15. janúar 2005. Sótt 24. nóvember 2019.
  5. „Börn skítuga stríðsins farin að koma í leitirnar“. Dagblaðið Vísir. 7. október 1985. Sótt 25. nóvember 2019.
  6. Ólafur Ingólfsson (1991). „Fyrst verður að temja herinn“. Þjóðlíf. Sótt 25. nóvember 2019.
  7. Kjartan Kjartansson (14. júní 2019). „Fundu ættleiddan son myrts andófsfólks“. Vísir. Sótt 22. nóvember 2022.
  8. „Í lagi að myrða, sértu dáti!“. Þjóðviljinn. 1987. Sótt 25. nóvember 2019.
  9. Karl Blöndal (28. október 2010). „Leiddi Argentínu inn í uppsveiflu“. Morgunblaðið. Sótt 1. nóvember 2019.
  10. „Argentine amnesty laws scrapped“. bbc. 15. júní 2005. Sótt 25. nóvember 2019.
  11. „Argentine court overturns "Dirty War" pardon“. Reuters. 25. apríl 2007. Sótt 25. nóvember 2019.
  12. Harriet Alexander (10. desember 2015). „Argentina elections: Highs and lows of 12 years of the Kirchners“ (enska). The Telegraph. Afrit af uppruna á 11. október 2016. Sótt 25. nóvember 2019.
  13. „Tók mörg leynd­ar­mál með í gröf­ina“. mbl.is. 19. október 2013. Sótt 23. nóvember 2019.