Íslenska óperan
Útlit
Íslenska óperan er íslensk sjálfseignarstofnun sem setur upp óperur. Stofnunin varð til upp úr samnefndum félagsskap sem myndaður var að undirlagi Garðars Cortes um uppsetningu óperunnar I Pagliacci í Háskólabíói 10. mars 1979. Árið 1980 fékk óperan hluta af arfi Sigurliða Kristjánssonar kaupmanns og konu hans Helgu Jónsdóttur eftir lát hennar. Íslenska óperan var formlega stofnuð 3. október það ár. Þá var húsnæði Gamla bíós keypt og því breytt svo það hentaði til óperusýninga. Fyrsta óperan sem sett var upp eftir það var Sígaunabaróninn 9. janúar 1982.
Árið 2011 flutti Íslenska óperan sig í tónlistarhúsið Hörpuna við Reykjavíkurhöfn.