Fara í innihald

Ævintýri Harúns hins milda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ævintýri Harúns hins milda (franska: Les aventures du Calife Haroun el Poussah), einnig þekkt sem Fláráður stórvesír (franska: Iznogoud), er heiti á vinsælum frönskum myndasögum sem segja frá Harún hinum milda, sem er kalífi í hinni fornu Bagdad og hinum undirförla stórvesír Fláráði. Teiknarinn Jean Tabary skapaði sagnaflokkinn ásamt René Goscinny árið 1962. Eftir fráfall Goscinny árið 1977 hélt Tabary áfram gerð sagnanna einn síns liðs og enn síðar tók sonur hans, Nicolas Tabary, við pennanum. Alls hafa 30 bækur komið út í ritröðinni.

Útgáfusaga

[breyta | breyta frumkóða]

Þeir Tabary og Goscinny sköpuðu sagnaflokkinn fyrir myndasögublaðið Record og hóf hann göngu sína í blaðinu þann 15. janúar árið 1962. Nokkrum árum fyrr höfðu þeir Goscinny og Albert Uderzo kynnt til sögunnar geysivinsælar sögur um Ástrík gallvaska, sem gerðust á tímum Rómaveldis hins forna. Með hinum nýju sögum var hins vegar ætlunin að leita í ævintýraheim 1001 nætur.

Titilpersóna bókaflokksins, hinn hrekklausi Harún hinn mildi, féll fljótlega í skuggann af illmenninu Fláráði stórvesír. Var heiti bókaflokksins því breytt á þann veg að sögurnar voru kenndar við Fláráð. Þótti það afar óvenjulegt, enda sárafá dæmi um andhetjur innan fransk/belgísku myndasöguhefðarinnar.

Tabary og Goscinny sendu sameiginlega frá sér fjórtán bækur um Fláráð og félaga. Eftir dauða þess síðarnefnda hóf Tabary að semja sögurnar auk þess að teikna þær. Nokkur breyting varð á sagnaflokknum við þessi umskipti, sem birtist meðal annars í lengri sögum, þar sem hver bók hafði að geyma eina sögu í stað margra styttri áður.

Jean Tabary lést árið 2011. Sonur hans, Nicolas, sem einnig er myndasöguteiknari, tók þá við sagnaflokknum og hefur teiknað þrjár bækur. Sú síðasta kom út árið 2015.

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Fjórar bækur um ævintýri Harúns hins milda komu út á vegum Bókaútgáfunnar Iðunnar á árunum 1978-1980 í íslenskri þýðingu Jóns Gunnarssonar. Bækur þessar voru nr. 1, 5, 8 og 9 í upprunalegu útgáfunni. Þær eru eftirfarandi:

  1. Fláráður stórvesír, útg. 1978. Kom fyrst út 1966 sem Le Grand Vizir Iznogoud.
  2. Allt á hvolfi, útg. 1979. Kom fyrst út 1969 sem Le jour des fous.
  3. Fláráður geimfari, útg. 1980. Kom fyrst út 1972 sem Des astres pour Iznogoud.
  4. Galdrateppið, útg. 1980. Kom fyrst út 1973 sem Le tapis magique.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.