Ættarmerki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ættarmerki var skjaldarmerki ættar og tíðkaðist meðal heldra fólks, t.d. hér á Íslandi. Haukur Erlendsson lögmaður (d. 1334) bar t.d. hauk í innsigli sínu og er það líklega hið elsta ættarmerki á Íslandi sem sögur fara af. Loftur ríki Guttormsson á Möðruvöllum (d. 1432) hafði fyrir ættarmerki hvítan fálka á bláum feldi en hafði höggorm í innsigli sínu. Björn ríki Þorleifsson og hans afkomendur höfðu að skjaldarmerki hvítabjörn í bláum feldi og hvítabjörn á hjálminum. Torfi Arason riddari á Ökrum hafði nokkru áður 1450 tekið upp samskonar merki, nema hálfur hvítabjörn var á hjálminum.

Eggert Eggertsson, sem eitt sinn var lögmaður í Víkinni í Noregi og aðlaður 1488, hafði að skjaldarmerki hvítan einhyrning í bláum feldi og sömuleiðis á hjálmi. Sonarsonur hans, Eggert Hannesson lögmaður, fékk staðfestingu á því merki hjá Kristjáni 3. árið 1554, handa sér og afkomendum sínum, er síðan báru það í innsiglum sínum fram á 19. öld.

Orðið ættarmerki er einnig haft um ættareinkenni, sbr. t.d.: Ættarmerki lágmannaðra forfeðra höfðu einnig skilið eftir mörg spor í innra eðli hennar.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.