Ungverska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ungverska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Ungverska: Magyar Labdarúgó Szövetség) Ungverska knattspyrnusambandið
ÁlfusambandUEFA
ÞjálfariMarco Rossi
FyrirliðiDominik Szoboszlai
LeikvangurPuskás leikvangurinn
FIFA sæti
  Hæst
  Lægst
40 (31. mars 2022)
18 (apríl-maí 2016)
87 (júlí 1996)
Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
0-5 gegn Austurríki, 12. okt., 1902.
Stærsti sigur
13-1 gegn Frakklandi, 12. júní 1927; 12-0 gegn Albaníu, 24. sept. 1950 & 12-0 gegn Rússlandi, 14. júlí 1912.
Mesta tap
8-1 gegn Hollandi, 11. okt., 2013; 0-7 gegn Þýskalandi, 6. apríl 1941 & 0-7 gegn Stóra-Bretlandi, 30. júní. 1912 & 0-7 gegn Englandi, 10. júní, 1908.

Ungverska karlalandsliðið í knattspyrnu er fulltrúi Ungverjalands í knattspyrnu og er stjórnað af knattspyrnusambandi landsins. Liðið átti sitt gullaldarskeið í aldarfjórðung um og fyrir miðja síðustu öld og hafði talsverð áhrif á þróun heimsfótboltans.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Frá leik Ungverja og Austurríkismanna árið 1913.

Þótt Austurríki-Ungverjaland mynduðu eina ríkjaheild fram að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar starfræktu Austurríki og Ungverjaland hvort sitt knattspyrnusambandið og héldu úti eigin landsliðum. Fyrsti landsleikur beggja var innbyrðisleikur í Vínarborg árið 1902 sem lauk með 5:0 sigri Austurríkis. Næstu árin léku Ungverjar fjölda leikja, einkum við nágranna sína en einnig við England og fleiri Vestur-Evrópulönd.

Ungverjar mættu til leiks á ÓL í Stokkhólmi 1912 en töpuðu fyrsta leik með miklum mun gegn liði Stóra-Bretlands sem varð að lokum Ólympíumeistari. Á leið frá Svíþjóð hélt ungverska liðið til Moskvu þar sem það sigraði Rússa 12:0, sem enn er metsigur landsliðsins.

Lið nýfrjálsrar þjóðar[breyta | breyta frumkóða]

Að heimsstyrjöldinni lokinni neitaði FIFA að verða við kröfu Englendinga um að reka úr sambandinu þau ríki sem tapað höfðu í stríðinu. Engu að síður fengu Ungverjar ekki keppa á ÓL 1920. Á næstu árum styrktist ungverska liðið til muna, þar sem bærðurnir József og Károly Fogl voru í stóru hlutverki, auk Béla Guttmann sem síðar varð áhrifamikill þjálfari vestan hafs og austan. Ungverjar notuðust við leikaðferðina 2-3-5 sem var afar sjaldgæf.

Eftir stórsigra á Sviss (1:6) og Ítalíu (7:1) veturinn 1923-24 mættu Ungverjar fullir sjálfstrausts á ÓL í París 1924. Ungverjar hófu leik með 5:0 stórsigri á Pólverjum og virtust eiga greiða leið í fjórðungsúrslitin. Sú varð þó ekki raunin því öllum að óvörum skelltu Egyptar þeim í næstu umferð, 3:0. Ósigurinn leiddi til afsagnar bæði þjálfarans og forseta knattspyrnusambandsins. Ungverjar skráðu sig ekki til keppni á ÓL í Amsterdam 1928 né á HM 1930.

Silfur í Frakklandi[breyta | breyta frumkóða]

Úr úrslitaleik Ítala og Ungverja á HM 1938.

Ungverjar tóku í fyrsta sinn þátt á heimsmeistaramóti í Ítalíu 1934. Í fyrstu umferð mættu þeir Egyptum sem leikið höfðu þá svo grátt áratug fyrr. Afríska liðið jafnaði metin í 2:2 og hefði náð forystunni ef ekki hefði komið til umdeildur rangstöðudómur. Ungverjar náðu að lokum að knýja fram 4:2 sigur. Í næstu umferð mættu þeir grönnum sínum Ungverjum og töpuðu 2:1.

Á ÓL í Berlín 1936 steinlágu Ungverjar í fyrsta leik, 3:0 og luku þar með keppni.

Ungverjaland var meðal keppnisþjóða á HM í Frakklandi 1938. Líkt og fjórum árum fyrr var útsláttarkeppni viðhöfð. Í fyrstu umferð unnu Ungverjar auðveldan 6:0 sigur á Hollensku Vestur-Indíum. Í fjórðungsúrslitum var Svisslendingum rutt úr vegi 2:0 og Svíum í undanúrslitum, 5:1.

Mótherjarnir í úrslitaleiknum voru ríkjandi heimsmeistarar Ítala. Meistararnir voru talsvert sterkari og unnu að lokum 4:2.

Gullaldarliðið[breyta | breyta frumkóða]

Fegurðardrottningin Armi Kuusela heiðrar Ungverja eftir sigurinn á ÓL 1952.

Ungverjaland fór illa út úr seinni heimsstyrjöldinni og var í hópi þeirra Evrópulanda sem ekki treysti sér til að taka þátt í forkeppni HM 1950 vegna ferðakostnaðar til Brasilíu. Gusztáv Sebes hafði tekið við stjórn landsliðsins á árinu 1949 og hóf þegar að setja mark sitt á það. Á meðan flest landslið og félagslið notuðust við svokallaða WM-uppstillingu kaus Sebes að draga tvo sóknarmenn aftar á völlinn og bjó þar með til afar sveigjanlega 3-2-3-2 uppstillingu sem gerði liðinu kleift að skipta hratt á milli sóknar og varnar. Leikkerfið gerði jafnframt auknar kröfur til hraða og úthalds leikmanna. Á sama tíma var að koma upp ný og efnileg kynslóð ungverskra leikmanna.

Það var á Ólympíuleikunum í Helsinki 1952 sem Ungverjum gafst færi á að ná athygli heimsbyggðarinnar. Vegna áhugamannareglna Ólympíuhreyfingarinnar tefldu þjóðir Vestur-Evrópu og Suður-Ameríku fram veikum ungmenna- og áhugamannaliðum en kommúnistaríki Austurblokkarinnar tefldu fram sínum sterkustu mönnum, sem voru að nafninu til áhugamenn. Ungverska liðið hafði ekki tapað leik í tvö ár þegar til Finnlands var komið. Á leiðinni í úrslitin unnu Ungverjar m.a. ríkjandi Ólympíumeistara Svía, Ítali og Rúmena. Úrslitaleikurinn var við Júgóslava og lauk með 2:0 sigri. Sándor Kocsis varð markakóngur ungverska liðsins en Ferenc Puskás var þó stjarna þeirra á leikunum.

Leikur aldarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Veggmálverk í Búdapest helgað „leik aldarinnar“ árið 1953.

Frammistaða Ungverja í Helsinki gerði það að verkum að mikil eftirvænting var fyrir vináttuleik þeirra og Englendinga á Wembley sumarið 1953. Þrátt fyrir hrakfarir enska liðsins á HM í Brasilíu þremur árum fyrr var það að margra mati stærsta lið heimsfótboltans. England hafði ekki tapað landsleik á heimavelli í 90 ár. Yfirburðir gestanna voru miklir og 6:3 sigur Ungverja gaf villandi mynd af því hversu einhliða viðureignin var. Leikurinn, sem fljótlega var farið að kalla „leik aldarinnar“ olli því að stjórnendur enska knattspyrnusambandsins ákváðu að ráðast í mikla naflaskoðun og endurskipulagningu á flestum þáttum í kringum landsliðið. Sex úr byrjunarliði Englands í tapleiknum voru aldrei aftur valdir í landsliðið.

Árið eftir mættust liðin á nýjan leik, í það skipti í Búdapest. Yfirburðirnir voru síst minni og leiknum lauk með 7:1 ungverskum sigri. Það er enn í dag stærsti ósigur enska landsliðsins á knattspyrnuvellinum. Eftir leikina tvo bar flestum saman um að Ungverjar ættu besta landslið í heimi og að það yrði staðfest á næsta heimsmeistaramóti.

Kraftaverkið í Bern[breyta | breyta frumkóða]

Ungverjar mættu til leiks á HM í Sviss 1954 sigurstranglegastir allra, enda ósigraðir í fjögur ár. Keppt var í fjórum fjögurra liða riðlum en keppnisfyrirkomulagið var með þeim hætti að liðin léku að jafnaði aðeins tvo leiki. Í fyrri leik sínum gjörsigruðu UNgverjar lið Suður-Kóreu 9:0 og var það stærsti sigur HM-sögunnar. Seinni leikurinn var enn merkilegri, þar sem Vestur-Þjóðverjar voru lagðir að velli 8:3. Þó ber að hafa í huga að þjálfari vestur-þýska liðsins hvíldi nokkra lykilmenn enda útlit fyrir að annað sætið í riðlinum gæfi mun auðveldari leiki í útsláttarkeppninni en toppsætið.

Ungverska liðið sem sigraði Úrúgvæ í undanúrslitum á HM 1954.

Mikil eftirvænting var fyrir fjórðungsúrslitaleiknum gegn Brasilíu en í staðinn fyrir knattspyrnuveislu buðu leikmenn beggja liða upp á blóðugan bardaga þar sem enskur dómari leiksins þurfti að reka þrjá leikmenn útaf og slagsmál liðanna héldu áfram eftir að inn í búningsklefa var komið. Leiknum lauk með 4:2 sigri Ungverja en meiðsli sem nokkrir manna þeirra hlutu í leiknum áttu eftir að draga dilk á eftir sér. Undanúrslitaleikurinn gegn heimsmeisturum Úrúgvæ var ekki síður dramatískur. Úrúgvæ lenti 2:0 undir en náði að jafna metin undir lokin og skot þeirra small á markstönginni á lokamínútunni. Í framlengingu skoruðu Ungverjar tvívegis í leik sem talinn er meðal þeirra bestu í HM-sögunni. Úrslitaleikur gegn Vestur-Þjóðverjum beið.

Fyrir úrslitaleikinn í Bern höfðu Ungverjar skorað 25 mörk í fjórum leikjum og þegar unnið mótherja sína í úrslitunum með miklum yfirburðum. Ýmislegt vann þó gegn ungverska liðinu. Leiðtogi þeirra Puskás átti við meiðsli að stríða og úrhellisrigning setti svip á leikinn sem gerði Ungverjum erfitt fyrir að beita hröðu spili sínu. Þeir hófu leikinn þó með stórsókn, komust í 2:0 eftir innan við tíu mínútur og hefðu hæglega getað verið búnir að skora fleiri mörk. Lið Vestur-Þjóðverja vann sig þó aftur inn í leikinn og sigraði að lokum 3:2. Úrslitin komu mjög á óvart og töluðu Þjóðverjar sjálfir um „kraftaverkið í Bern“. Ungverska liðið var í sárum yfir að missa af heimsmeistaratitlinum.

Áhrif uppreisnarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Honvéd með fjölda landsliðsmanna innanborðs ferðaðist um Evrópu í lok árs 1956 til að vekja athygli á málstað Ungverja.

Eftir heimsmeistarakeppnina sýndu Ungverjar ekki nein merki um að þeir ætluðu að slaka á klónni í heimsfótboltanum. Á árinu 1955 mætti liðið Skotum í leik á Hampden Park sem lauk með 4:2 sigri þeirra ungversku í hörkuleik. Í september 1956 varð liðið svo það fyrsta til að sigra Sovétmenn á þeirra eigin heimavelli, úrslit sem mögulega lögðu sitt af mörkum til að gera samskipti ríkjanna tveggja enn erfiðari.

Það voru þó atburðir utan vallar sem réðu mestu um þróun landsliðsins. Uppreisnin í Ungverjalandi braust út í lok október 1956 og var brotin niður af hörku af Rauða hernum. Leikmenn Honvéd, sem myndaði kjarna ungverska landsliðsins, voru staddir erlendis þegar atburðirnir áttu sér stað og ákváðu margir hverjir að flýja land. Kocsis og Czibor gengu til liðs við Barcelona en Puskás fór í raðir Real Madrid. Ungverjaland dró sig úr knattspyrnukeppni ÓL í Melbourne sem fram fóru síðla árs 1956. Ungverjar voru enn um hríð í hópi sterkari landsliða Evrópu en gullöldinni mátti heita lokið.

Í nýju umhverfi[breyta | breyta frumkóða]

Óvænt 2:1 tap gegn Norðmönnum í forkeppninni kom ekki í veg fyrir að Ungverjar kæmust í úrslitakeppni HM í Svíþjóð 1958. Ungverjar lentu í riðli með heimamönnum, Wales og Mexíkó. Wales og Ungverjaland luku bæði keppni með þrjú stig í öðru til þriðja sæti. Ungverjar hefðu komist áfram ef horft hefði verið til markatölu en reglur mótsins kváðu á um umspilsleik og þar vann Wales 2:1 og tryggði sér þannig fjórðungsúrslitaleik gegn heimsmeistaraefnum Brasilíu.

Fyrsta EM í knattspyrnu fór fram árið 1960. Ungverjar steinlágu fyrir Sovétmönnum í fyrstu umferð undankeppninnar og voru þar með úr leik. Betur gekk á ÓL 1960 í Róm. Ungverjar töpuðu fyrir Dönum í undanúrslitum en unnu heimamenn í bronsleiknum 2:0.

Ungverjar tryggðu sér auðveldlega farseðilinn á HM í Síle 1962. Liðið lenti í strembnum forriðli en sigraði hann með glæsibrag. Í fyrsta leik unnu Ungverjar 2:1 sigur á Englendingum. Þá tók við 6:1 stórsigur á Búlgörum og að lokum markalaust jafntefli gegn Argentínu sem sló Suður-Ameríkumennina úr leik. Í fjórðungsúrslitum reyndist lið Tékkóslóvakíu hins vegar of sterkt og sigraði 1:0 eftir stórleik markvarðar Tékkanna.

Evrópubrons og Ólympíugull[breyta | breyta frumkóða]

EM í knattspyrnu var haldið í annað sinn árið 1964. Leið Ungverja í fjögurra liða úrslitakeppnina var strembin og slógu þeir út lið Wales, Austur-Þýskalands og Frakka. Það kom í hlut Spánverja að halda mótið og mættu þeir Ungverjum í fyrri undanúrslitaviðureigninni. Grípa þurfti til framlengingar þar sem Spánn knúði fram 2:1 sigur. Aftur þurfti framlengingu í bronsleiknum en þar höfðu Ungverjar betur gegn Dönum, 3:1.

Síðar á árinu 1964 fóru Ólympíuleikarnir haldnir í Tókýó. Norður-Kórea dró sig úr keppni á síðustu stundu og áttu Ungverjar og Júgóslavar því greiða leið upp úr þriggja liða forriðlinum. Í fjórðungsúrslitum unnu Ungverjar sigur á Rúmenum, í undanúrslitum var landslið hins skammlífa Sameinaða Arabalýðveldis lagt að velli 6:0. Í úrslitaleiknum unnu Ungverjar svo 2:1 sigur á Tékkóslóvakíu og urðu þar með Ólympíumeistarar í annað sinn.

Þriðji Ólympíutitillinn[breyta | breyta frumkóða]

Ungverska landsliðið á leið á HM 1966.

Ungverjar lentu í afar þungum riðli á HM 1966 í Englandi ásamt Búlgörum, Portúgölum og heimsmeisturum Brasilíumanna. Ungverjar lentu með bakið upp að veggnum eftir tap í fyrsta leik gegn spútnikliði Portúgal. Í næsta leik skelltu Ungverjar liði Brasilíu 3:1 og tryggðu sér að lokum annað sætið í riðlinum með því að sigra Búlgari 3:1. Í fjórðungsúrslitum töpuðu Ungverjar fyrir Sovétmönnum 2:1 og féllu þar með úr keppni.

Sovétríkin og Ungverjaland mættust aftur í umspilsleikjum um að komast í úrslitakeppni EM 1968. Ungverjar komust í góða stöðu með því að vinna heimaleik sinn 2:0 en fengu 3:0 skell í Moskvu og þurftu að sitja heima. Sama ár voru Ólympíuleikar í Mexíkóborg. Ungverjar urðu efstir í forriðlinum án mikilla vandræða. Í fjórðungsúrslitum unnu þeir Gvatemala 1:0 og Japan 5:0 í undanúrslitum. Það var fyrst í úrslitaleiknum sem Ungverjar fengu evrópska mótherja þegar þeir unnu Búlgari 4:1 og vörðu þannig Ólympíumeistaratitilinn.

Síðustu stórmótin um hríð[breyta | breyta frumkóða]

Silfurlið Ungverja á Ólympíuleikunum 1972.

Ungverjaland og Tékkóslóvakía bitust um laust sæti á HM 1970. Grípa þurfti til oddaleiks á hlutlausum velli sem Tékkarnir unnu 4:1. Tveimur árum síðar skutu Ungverjar bæði Búlgörum og Frökkum aftur fyrir í baráttunni um að komast á EM 1972. Í umspilsleikjum gerðu Ungverjar og Rúmenar tvö jafntefli uns ungverska liðið vann 2:1 í oddaleik með sigurmarki á 89. mínútu.

Úrslitakeppni Evrópumótsins var haldin í Belgíu. Báðir undanúrslitaleikir mótsins fóru fram á sama tíma, með þeim afleiðingum að öll athygli heimamanna beindist að leik belgíska liðsins og rétt um 1.700 manns mættu á leik Ungverjalands og Sovétríkjanna sem lauk með 1:0 sigri þeirra síðarnefndu. Á sjöunda þúsund manns sáu ástæðu til að borga sig inn á bronsleik heimamanna og Ungverja sem lauk með sigri Belga, 2:1. Meira en fjórir áratugir áttu eftir að líða uns Ungverjar komust aftur í úrslit Evrópumóts.

ÓL í München 1972 átti einnig eftir að verða síðustu Ólympíuleikarnir með þátttöku ungversks knattspyrnuliðs. Ungverjar höfnuðu í efsta sæti bæði forriðils og milliriðils, þar sem þeir skutu m.a. Dönum, Brasilíumönnum, Vestur-Þjóðverjum og Austur-Þjóðverjum aftur fyrir sig. Í úrslitaleiknum reyndust Pólverjar hins vegar sterkari og Ungverjaland mátti sætta sig við silfurverðlaunin.

Lokahnykkurinn á HM[breyta | breyta frumkóða]

Ungverska landsliðið í leik gegn Diego Maradona og félögum í Argentinos Juniors í keppnisferð um Argentínu árið 1981.

Ungverjaland, Svíþjóð og Austurríki enduðu öll jöfn að stigum í forkeppni HM 1974. Samkvæmt fyrri reglum hefðu liðin þurft að leika þriggja liða úrslitakeppni en markatöluregla hafði verið tekin upp og Ungverjar féllu úr keppni. Sovétmenn og Grikkir sátu eftir þegar Ungverjar komust á HM í Argentínu 1978. Þar lentu þeir í ógnarþungum riðli og töpuðu öllum þremur leikjunum gegn heimamönnum, Ítölum og Frökkum.

Í forkeppni HM á Spáni 1982 endaði Ungverjaland á toppi riðils sem innihélt m.a. Englendinga. Ungverjar byrjuðu úrslitakeppnina með látum og jöfnuðu eigið HM-markamet með 10:1 sigri á El Salvador og eru enn í dag eina liðið sem skorað hefur tíu mörk í úrslitakeppnbi HM. Tap gegn Argentínumönnum og jafntefli gegn Belgum gerðu það hins vegar að verkum að liðið komst ekki áfram í keppninni.

HM í Mexíkó 1986 er síðasta HM-úrslitakeppni Ungverja til þessa dags. Í forkeppninni skildu Ungverjar bæði Hollendinga og Austurríkismenn eftir. Þegar til Mexíkó var komið biðu Ungverjar hins vegar afhroð í fyrsta leik gegn Sovétmönnum 6:0 og enduðu á að tapa 3:0 fyrir Frökkum sem gerði það að verkum að sigur á Kanada dugði þeim ekki í 16-liða úrslitin. Hefði sú regla að gefa þrjú stig fyrir sigur í stað tveggja verið komin í gildi hefðu Ungverjar hins vegar komist áfram á kostnað Úrúgvæ.

Eyðimerkurgöngunni lýkur[breyta | breyta frumkóða]

Ungverjaland komst ekki í úrslitakeppni stórmóts frá 1986 til 2016 þegar liðinu tókst að vinna sér sæti á EM í Frakklandi. Keppnisliðum í úrslitunum hafði verið fjölgað í 24, sem þýddi að þriðja sætið í forriðli kom Ungverjum í umspil fyrir úrslitakeppnina. Þar voru mótherjarnir Norðmenn og unnu Ungverjar báðar viðureignirnar.

Ungverjar voru neðsta liðið í þriðja styrkleikaflokki þegar dregið var í riðla fyrir keppnina í Frakklandi. Í fyrsta leik mættu þeir Austurríkismönnum sem margir höfðu talið mögulegt spútniklið í keppninni, en þaulskipulagt ungverskt liðið náði að knýja fram 2:0 sigur. Næstu mótherjar voru Íslendingar sem náðu forystunni með marki Gylfa Sigurðssonar en sjálfsmark í blálokin jafnaði metin í 1:1. Ungverjar voru tryggir um sæti í 16-liða úrslitum fyrir lokaumferðina en gerðu gott betur og náðu 3:3 jafntefli gegn Portúgölum og enduðu í efsta sæti riðilsins. Mótherjarnir í útsláttarkeppninni, Belgar, reyndust hins vegar alltof sterkir og unnu 4:0.

Brostin íslensk hjörtu[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir nafnið fór EM 2020 fram á árinu 2021 vegna Covid-faraldursins. Þar sem um var að ræða afmælismót var ákveðið að halda það í fjölda evrópskra borga, þar á meðal í Búdapest, löngu áður en fyrir lá hvort Ungverjar kæmust í úrslitakeppnina. Ungverjar höfnuðu í fjórða og næstneðsta sæti forriðils síns en komust þó í umspil út á árangur sinn í Þjóðadeild Evrópu. Eftir útisigur á Búlgörum mættust Ungverjar og Íslendingar í hreinum úrslitaleik í Búdapest um sætið. Gylfi Sigurðsson skoraði snemma leiks og íslenska liðið pakkaði síðan í vörn allt til loka. Sú leikaðferð virtist ætla að gefa ávöxt en á 89. mínútu jöfnuðu heimamenn og Dominik Szoboszlai skoraði svo sigurmark í uppbótartíma.

Riðill Ungverja í úrslitakeppninni var almennt talinn sá sterkasti í keppninni. Í fyrsta leik í Búdapest unnu Portúgalir heimamenn 3:0. Því næst náðu Ungverjar að herja út 1:1 jafntefli gegn Frökkum og eygðu veika von um að komast áfram. Lokaleikurinn var gegn Þjóðverjum í München. Ungverjar komust tvívegis yfir í leiknum en Leon Goretzka jafnaði fyrir Þýskaland undir lokin og þar með var Evrópudraumurinn úti.