Austur-þýska karlalandsliðið í knattspyrnu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Austur-þýska karlalandsliðið í knattspyrnu
Merki landsliðsins
Íþróttasamband(Þýska: Deutscher Fußball-Verband der DDR) Knattspyrnusamband þýska alþýðulýðveldisins
ÁlfusambandUEFA
LeikvangurZentralstadion, Leipzig


Heimabúningur
Útibúningur
Fyrsti landsleikur
0-3 gegn Póllandi, 21. sept., 1952
Stærsti sigur
12-1 gegn Srí Lanka, 12. jan. 1964
Mesta tap
1-4 gegn Wales, 25. sept. 1957; 0-3 gegn Póllandi, 21. sept. 1952; 1-4 gegn Tékkóslóvakíu, 27. okt. 1957; Gana, 23. feb. 1964; Danmörku, 8. maí 1985; Ítalíu, 22. nóv. 1969; Belgíu, 18. apríl 1973; Skotlandi, 30. okt. 1974; Austurríki, 15. nóv. 1989; Frakklandi, 24. jan. 1990; Sovétríkjunum, 26. apríl 1989; Brasilíu, 8. apríl 1986; Úrúgvæ, 29. jan. 1985; Ungverjalandi, 28. mars 1979 & Hollandi, 15. nóv. 1978

Austur-þýska karlalandsliðið í knattspyrnu var fulltrúi Austur-Þýskalands í knattspyrnu og var stjórnað af knattspyrnusambandi landsins á árunum 1952 til 1990. Austur-Þjóðverjar voru löngum í hópi sterkari knattspyrnuþjóða Evrópu en komust þó aðeins einu sinni í úrslitakeppni stórmóts, á HM 1974 - ef Ólympíuleikarnir eru undanskildir.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Þegar árið 1949 var myndað óformlegt úrvalslið hernámssvæða Sovétmanna í Þýskalandi undir stjórn Helmut Schön sem síðar flutti vestur á bóginn og stýrði liði Vestur-Þýskalands um árabil. Það sama ár var Austur-Þýskaland stofnað sem sjálfstætt ríki og á árunum 1951 og 1952 fékk landið aðild að FIFA í áföngum þrátt fyrir hörð mótmæli granna þeirra í vestri. Vestur-Þjóðverjar neituðu upp frá því alla tíð að leika við Austur-Þjóðverja ótilneyddir.

Fyrsti landsleikurinn var vináttuleikur gegn Pólverjum í Varsjá í september 1952 sem heimamenn unnu 3:0. Fyrstu misserin voru landsleikir stopulir sem skýrðist að miklu leyti af Berlínaruppreisninni 1953.

Fallið út í forkeppni[breyta | breyta frumkóða]

Austur-Þjóðverjar freistuðu þess fyrst að komast á stórmót á HM 1958 en höfnuðu í neðsta sætis síns riðils á eftir Tékkóslóvakíu og Wales. Sagan endurtók sig fjórum árum síðar, þar sem liðið fékk bara eitt stig í fjórum leikjum í forkeppninni. Í það skipti og aftur fyrir HM 1966 voru það Ungverjar sem komust áfram. Fyrir HM í Mexíkó 1970 féllu Austur-Þjóðverjar svo úr keppni eftir stórtap fyrir Ítölum í lokaleik.

Uppskeran var viðlíka rýr í Evrópukeppninni. Fyrir mótin 1960 og 1964 var undankeppnin með útsláttarfyrirkomulagi og féllu Austur-Þjóðverjar úr leik fyrir Portúgölum og Ungverjum. Enn og aftur urðu Ungverjar ofjarlar austur-þýska liðsins í forkeppninni 1968 þar sem Hollendingar og Danir ráku lestina. Fyrir EM 1972 vann Austur-Þýskaland svo þrjá fyrstu leiki sína og virtist í kjörstöðu en fékk svo aðeins eitt stig úr seinni þremur leikjunum og mátti sjá á eftir Júgóslövum í næstu umferð.

Stærsta stundin[breyta | breyta frumkóða]

Eftir langa mæðu tóks Austur-Þjóðverjum loks að komast í úrslitakeppni á HM 1974, eftir að hafa rutt Rúmenum, Finnum og Albönum úr vegi. Mótið var haldið í Vestur-Þýskalandi. Þögn sló á áhorfendur þegar dregið var í riðlakeppnina og í ljós kom að Vestur-Þjóðverjar og Austur-Þjóðverjar yrðu saman í riðli. Kvittur komst á kreik um að yfirvöld í Austur-Berlín myndu draga liðið úr keppni en til þess kom þó ekki.

Austur-þýska liðið byrjaði vel og lagði Ástrali í fyrsta leik, 2:0. Þvínæst gerði liðið 1:1 jafntefli gegn Síle. Úrslitin þýddu að austur-þýska liðið þurfti jafntefli gegn Vestur-Þjóðverjum í lokaleiknum til að vera öruggt um sæti í milliriðlum. Sigur myndi hins vegar þýða toppsætið í riðlinum. Eftir hnífjafnan og spennandi leik komu Austur-Þjóðverjar flestum á óvart með 1:0 sigri á heimamönnum. Þeir síðarnefndu gátu þó huggað sig við að tapið tryggði þeim mun viðráðanlegri milliriðil.

Brasilíumenn og Hollendingar unnu Austur-Þjóðverja 1:0 og 2:0 í milliriðlinum og hafði austur-þýska liðið ekki að neinu að keppa í lokaleiknum gegn Aregentínu. Honum lauk 1:1 í heldur tilþrifalitlum leik. Austur-Þjóðverjar höfðu þó staðið sig með prýði á sínu fyrsta og eina stórmóti.

Aftur í sama farið[breyta | breyta frumkóða]

Ekki tókst að fylgja árangrinum á HM eftir í forkeppni 1976. Austur-Þjóðverjar höfnuðu stigi á eftir toppliði Belga í forriðlinum, þar sem Íslendingar reyndust örlagavaldar með því að gera jafntefli við Austur-Þjóðverja ytra og vinna þá 2:1 á heimavelli. Það er til marks um virðinguna sem austur-þýska liðið naut á þessum árum að Íslendingar töldu þetta lengi sína stærstu stund á fótboltavellinum.

Austur-Þjóðverjar lutu í lægra haldi fyrir Austurríkismönnum í kapphlaupinu um sæti á HM í Argentínu 1978. Tveimur árum síðar kostaði 2:3 á heimavelli gegn Hollendingum í lokaleiknum farseðilinn á EM á Ítalíu 1980. Í forkeppni HM 1982 reyndust Pólverjar svo of stór biti að kyngja.

Forkeppni EM 1984 olli vonbrigðum en fyrir HM í Mexíkó 1986 enduðu Austur-Þjóðverjar með tíu stig, en Frakkar og Búlgarir komust áfram á ellefu stigum hvor þjóð. Fyrir EM 1988 höfnuðu Austur-Þjóðverjar fyrir ofan Frakka en fyrir neðan Sovétmenn og sátu því heima. Í þeirri forkeppni bar það m.a. til tíðinda að austur-þýska liðið sigraði Íslendinga 0:6 á Laugardalsvelli.

Austur-Þjóðverjar luku sinni síðustu heilu forkeppni fyrir HM 1990. Enn voru Íslendingar með þeim í riðli, sem reyndist sá opnasti í keppninni. Sovétmenn hirtu toppsætið og Austurríki nældi í hitt HM-sætið með 3:0 sigri í hreinum úrslitaleik gegn Austur-Þjóðverjum í lokin.

Vestur- og Austur-Þýskaland voru í fyrsta sinn dregin saman í forkeppni fyrir EM 1992, en sameining þýsku ríkjanna átti sér stað áður en fyrsti leikurinn var spilaður. Austur-Þýskaland lék sinn síðasta landsleik á móti Belgum þann 12. september 1990 og lauk honum með 2:0 kveðjusigri. Raunar hafði staðið til að þýsku löndin mættust í einum lokaleik rétt fyrir sameiningu, en hann var blásinn af eftir að knattspyrnuáhugamaður var stunginn í ólátum áhorfenda.