Richard Nixon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Richard Nixon

Richard Milhous Nixon (9. janúar 191322. apríl 1994) var 37. forseti Bandaríkjanna frá 20. janúar 1969 til 9. ágúst 1974 fyrir repúblikana.

Hann fæddist í Yorba Linda í Kaliforníu sonur trúaðra kvekara. Nixon hlaut fullan styrk til laganáms við Duke-háskóla þaðan sem hann útkrifaðist með þriðju hæstu einkunn í sínum árgangi og starfaði sem lögmaður eftir að námi lauk. Nixon varð fulltrúi Kaliforníu í kosningum til fulltrúadeildar Bandaríkjaþings árið 1946 fyrir repúblikanaflokkinn og árið 1950 varð hann öldungadeildarþingmaður. Árið 1952 var hann útnefndur sem varaforsetaefni repúblíkanaflokksins við framboð Dwight D. Eisenhower sem sigraði og varð Nixon einn yngsti varaforseti í sögu Bandaríkjanna.

Hann tapaði naumlega fyrir John F. Kennedy í forsetakosningunum árið 1960 og eftir tap í kosningum til ríkisstjóra Kaliforníu árið 1962 tilkynnti hann brotthvarf sitt úr stjórnmálum. Nixon snéri þó aftur og árið 1968 bauð hann sig fram í forsetakosningum og náði kjöri.

Æska[breyta]

Richard Nixon var einn af fimm drengjum þeirra Hannah Milhouse Nixon og Frank Nixon og var hann annar elstur, næst á eftir Harold (f. 1909). Sá þriðji var Francis Donald (f. 1914), fjórði Arthur (f.1918) og yngstur var Edward (f. 1930). Eitt af því sem hafi mikil áhrif á æsku Nixon var að missa tvo bræður sína snemma á lífsleiðinni. Arthur lést árið 1925 eftir mikil veikindi og Harold lést árið 1933 einnig eftir veikindi.[1] Fyrstu árin ólst Nixon upp á búi þar sem foreldrar hans ræktuðu aðallega sítrónur. Einnig tók pabbi hans að sér öll þau störf sem honum buðust svo hann gæti séð fyrir fjölskyldu sinni. Árið 1922 varð erfitt á sítrónubúinu, svo fjölskyldan flutti til Whitter í Kaliforníu til að vera nær móðurfjölskyldu Nixons. Á nýjum stað opnaði faðir hans verslun og bensínstöð þar sem hægt var að kaupa helstu nauðsynjar. Öll fjölskyldan vann saman í versluninni svo hægt væri að ná endum saman. Nixon fjölskyldan var ekki rík fjölskylda og hefur verið haft eftir Richard Nixon að þau hafi verið fátæk, en það góða við það hafi verið að þau vissu ekki af því.[2]

Menntun[breyta]

Nixon kláraði grunnskóla í Whittier og vildu foreldrar hans að hann færi framhaldsskólanám í Fullerton. Þau voru þeirrar skoðunar að framhaldsskólinn í Whittier hafi haft slæm áhrif á eldri bróður hans þegar hann var þar í námi. Nixon stóð sig vel í skólanum og hafði góðar einkunnir. En skólinn var í töluverðri fjarlægð frá heimahögunum og gáfu foreldrar hans honum því að lokum leyfi til að færa sig yfir í framhaldsskólann í Whittier.[3] Þaðan útskrifaðist hann með næsthæstu einkunn í sínum árgangi. Nixon bauðst námsstyrkur til náms í Harvard, en foreldrar hans höfðu ekki efni á kostnaðinum sem fylgdi því að hann færi þangað. Það varð því, í september 1930, að hann hóf nám í nærliggjandi Háskóla í Whittier.[4] Ásamt því að búa í foreldrahúsum og hjálpa til við að reka fjölskyldufyrirtækið, var Nixon mjög virkur námsmaður. Hann lagði rækt við áhuga sinn á stúdentaráði, leiklist og amerískan fótbolta[5] og ávann sér, með því, orðspor um að vera gífurlegur ræðumaður, framúrskarandi í leiksýningum á vegum Háskólans og farsæll íþróttamaður.[6] Árið 1934 útskrifaðist Nixon frá Whittier Háskólanum og hlaut fullan námsstyrk til náms í lagadeild Duke Háskólans. Þar varð hann formaður nemendaráðs og var einn af þeim hæstu þegar hann útskrifaðist, árið 1937.[7]

Upphaf ferilsins[breyta]

Eftir útskriftina úr Duke Háskólanum, sneri Nixon aftur til Whittier þar sem hann hóf störf hjá lögfræðifyrirtækinu Kroop og Bewley. Nixon hélt áfram að leika á sviði í áhugamannaleikhúsi. En hann hitti einmitt kennarann Thelmu Catherine Ryan (Pat) á leikæfingu í bæjarleikhúsinu. Nixon heillaðist af Ryan og giftu þau sig þann 21. júní 1940. Saman eignuðust þau svo dæturnar Tricia og Julie.[8]

Nixon var mjög metnaðarfullur maður og vildi meira en að vera lögfræðingur í smábæ. Í janúar 1942 fluttu þau hjónin því til Washington, D.C. þar sem Nixon hóf störf í verðlagsstjórnunarráði (e. Offive of Price Administration) Franklins Roosevelts, þáverandi forseta Bandaríkjanna. Fljótlega fór Nixon að leiðast skriffinnskuræðið og gekk í Bandaríska sjóherinn –þrátt fyrir að vera undanskilinn herþjónustu vegna starfa sinna hjá hinu opinbera- þann 17. ágúst, sama ár. Í upphafi var honum skipað í herflotastöð í Iowa-ríki, en Nixon óskaði eftir flutningi til Suður-Kyrrahafsins. Honum varð að ósk sinni og starfaði sem yfirmaður í bandaríska flughernum í Kyrrahafinu. Þar starfaði Nixon á jörðu niðri og tók því ekki þátt í neinum orustum. Hann sneri þó aftur til Bandaríkjanna með tvær viðurkenningar- og nokkur hrós fyrir þjónustu sína. Þegar Nixon sagði sig úr herþjónustu í janúar 1946, hafði hann náð stöðu yfirlautinants í flotanum.[9]

Forsetakjör[breyta]

Árið 1960 gaf Nixon kost á sér sem forseta Bandaríkjanna í fyrsta skipti en á sama tíma gaf John F. Kennedy kost á sér. Baráttan var ansi hörð á milli Nixons og Kennedy og endaði með mjög naumum sigri John F. Kennedy. Munur á atkvæðum Nixons og Kennedy var aðein 113.000 svo þetta var því naumasti sigur í sögu forsetakosninga Bandaríkjanna hjá Kennedy. [10] Eftir að hafa tapað forsetakosnigunum bauð Nixon sig fram sem ríkisstjóri Kaliforníu en náði ekki heldur kjöri þar. Eftir að hafa ekki náð kjöri sem forseti né ríkisstjóri fór minna fyrir Nixon í pólitík um tíma en hann snéri sér að lögfræðinni á ný.[11] Árið 1968, eftir að Kennedy var drepinn, gaf Nixon aftur kost á sér sem forseta Bandaríkjanna. Í þessum kosningum bauð Nixon sig fram á móti [[Hubert Humphrey|Hubert Humphrey sem var á þessum tíma varaforseti Bandaríkjanna. Nixon vann þessar kosningar og tók við embætti forseta Bandaríkjanna í janúar 1969. Nixon var þrítugastir og sjöundi forseti Bandaríkjanna. Hann var síðan endurkjörin forseti árið 1972 en í það skiptið sigraði hann George McGovern þingmann.[12] Nixon gaf ekki kost á sér í fleiri kjörtímabil og kláraði ekki einu sinni síðara kjörtímabilið sitt. Nixon endaði forsetatíð sína á því að segja af sér árið 1974.[13]


Forsetatíð[breyta]

Brýnustu verkefni sem Nixon þurfti að kljást við á valdatíma sínum var að sameina bandarísku þjóðina eftir umbrotatíma sjöunda áratugarins þar sem mannréttindabarátta svartra var áberandi auk þess sem ungt fólk reis upp gegn gömlum gildum samfélgsins. Einnig olli Víetnamstríðið sem hann hlaut í arf frá forverum sínum mikilli ólgu í heiminum öllum en hann hóf það ferli að láta Bandaríkjaher hörfa frá Víetnam.

Nixon neyddist til að segja af sér embætti þann 9. Ágúst árið 1974 vegna yfirvofandi ákæru þingsins í kjölfar Watergate-hneykslisins en hann varð uppvís að því að reyna að þagga málið niður og afvegaleiða rannsóknina[14]. Á klukkustundar löngum blaðamannafundi með 400 ritstjórum AP-fréttastofunnar þann 18. nóvember 1973 reyndi Nixon að verja þátt sinn í málinu og lét þar meðal annars falla hin frægu orð; „I am not a crook“[15].


Fyrirrennari:
Lyndon B. Johnson
Forseti Bandaríkjanna
(1969 – 1974)
Eftirmaður:
Gerald Ford
Fyrirrennari:
Alben W. Barkley
Varaforseti Bandaríkjanna
(1953 – 1961)
Eftirmaður:
Lyndon B. Johnson


Heimildir[breyta]

 1. Richard Nixon. The Memoirs of Richard Nixon. Warner Books, 1979. bls: 1-13
 2. Richard Nixon. The Memoirs of Richard Nixon. Warner Books, 1979. bls: 1-13
 3. Fyrirmynd greinarinnar var „Richard Nixon“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 26. október 2014.
 4. „Richard Nixon Biography“, skoðað þann 26. október 2014.
 5. „Biography of Richard Milhous Nixon“, skoðað þann 26. október 2014.
 6. „Richard Nixon Biography“, skoðað þann 26. október 2014.
 7. „Biography of Richard Milhous Nixon“, skoðað þann 26. október 2014.
 8. „Biography of Richard Milhous Nixon“, skoðað þann 31. október 2014.
 9. „Richard Nixon Biography“, skoðað þann 31. október 2014.
 10. The Richard Nixon foundation. „37 Fascinating Facts About America’s 37th President“, skoðað þann 30. október 2014.
 11. The Richard Nixon Foundation. „37 Fascinating Facts About America’s 37th President“, skoðað þann 30. október 2014.
 12. The Richard Nixon Foundation. „37 Fascinating Facts About America’s 37th President“, skoðað þann 30. október 2014.
 13. The Richard Nixon Foundation. „Richard Nixon – America’s 37th President“, skoðað þann 30. október 2014.
 14. http://nixonfoundation.org/president-richard-nixon/
 15. „American Heritage People“. Skoðuð 2010-09-23 .
  Þetta æviágrip sem tengist sögu og stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.
  Þessi bandarískt-tengda grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.