Birgir Þórarinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Birgir Þórarinsson (BirgÞ)
Fæðingardagur: 23. júní 1965 (1965-06-23) (58 ára)
9. þingmaður Suðurkjördæmis
Flokkur: Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðisflokkurinn
Nefndir: Fjárlaganefnd
Þingsetutímabil
2017-2021 í Suður fyrir Miðfl.
2021- í Suður fyrir Sjálfst.
= stjórnarsinni
Tenglar
Æviágrip á vef Alþingis

Birgir Þórarinsson (fæddur í Keflavík 23. júní 1965) er þingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Birgir tók fyrst sæti á Alþingi sem varaþingmaður Suðurkjördæmis október-nóvember 2010 og október 2012, þá fyrir hönd Framsóknarflokksins. Hann var kjörinn á Alþingi fyrir Miðflokkinn í Alþingiskosningum árið 2017. Hann var ekki meðal þeirra þingmanna sem náðist upptaka af á Klausturbarnum þann 20. nóvember 2018. Í kjölfar Klaustursmálsins óskaði Birgir eftir því að flokksráð Miðflokksins yrði kallað saman til að endurskoða trúnaðarstöður þingmanna innan flokksins.[1]

Birgir var ræðukóngur Alþingis þrjú ár í röð sem þingmaður Miðflokksins. Birgir talaði meðal annars gegn innleiðingu þriðja orkupakkans, fyrir auknu vægi kristinfræði í íslenskum grunnskólum og fyrir því að sjónarmið þeirra sem efast um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum yrðu kennd í grunn- og framhaldsskólum.[2][3]

Birgir hefur hrósað Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, fyrir eiturlyfjastríð hans, þar sem þúsundir fólks hafa verið tekin af lífi án dóms og laga.[4][5] Hann lýsti yfir efasemdum um hlutverk Íslands í ályktun gegn eiturlyfjastríði Duterte á vettvangi Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna og lagði áherslu á að það yrði skaði ef Filippseyjar slitu stjórnmálasambandi við Ísland þar sem Filippseyjar væru eina kristna landið í Suður-Asíu.[6]

Birgir náði endurkjöri á þing í Alþingiskosningunum 2021 og var aftur kjördæmakjörinn sem þingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Hann var einn aðeins þriggja Miðflokksmanna sem náðu inn á þing í kosningunum. Birgir ákvað hins vegar að segja skilið við Miðflokkinn eftir kosningarnar og gekk í Sjálfstæðisflokkinn. Flokkaskipti Birgi voru umdeild þar sem hann skipti um flokk aðeins tveimur vikum eftir kosningarnar, áður en nýtt þing hafði komið saman.[7] Birgir vísaði til Klaustursmálsins sem ástæðu fyrir flokksskiptunum en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, leiddi líkur að því að Birgir hefði ígrundað flokksskiptin fyrir kosningarnar og þar með háð kosningabaráttuna undir „fölsku flaggi“.[8]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Birgir vill stokka upp trúnaðarstöður í þingflokki Miðflokksins“. Vísir. 30. janúar 2019. Sótt 4. ágúst 2019.
  2. Steindór Grétar Jónsson (14. júní 2019). „Þingmaður Miðflokks vill láta kenna sjónarmið afneitunarsinna í loftslagsmálum í grunnskólum“. Stundin. Sótt 18. október 2021.
  3. Þórður Snær Júlíusson (12. október 2021). „Sannkristinn ræðukóngur sem beitti sér gegn þungunarrofi, afglæpavæðingu og orkupakkanum“. Kjarninn. Sótt 18. október 2021.
  4. Jóhann Páll Jóhannsson (1. maí 2019). „Þingmaður Miðflokksins ver Duterte og segir hann fórnarlamb „falsfrétta". Stundin. Sótt 18. október 2021.
  5. Rebecca Ratcliffe (4. júní 2020). „Philippines war on drugs may have killed tens of thousands, says UN“. The Guardian. Sótt 18. október 2021.
  6. „Skaði slíti Filippseyjar stjórnmálasambandi“. mbl.is. 22. júlí 2020. Sótt 18. október 2021.
  7. Freyr Gígja Gunnarsson (9. október 2021). „Karl Gauti: „Heil sveðja í bakið á flokknum". RÚV. Sótt 18. október 2021.
  8. Markús Þ. Þórhallsson (10. október 2021). „„Ekki gott að heyja baráttu undir fölsku flaggi". RÚV. Sótt 18. október 2021.
  Þessi æviágripsgrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.