Þorvaldur Gissurarson
Þorvaldur Gissurarson (d. 1. september 1235) goðorðsmaður í Hruna var íslenskur höfðingi á 12. og 13. öld. Hann var af ætt Haukdæla, sonur Gissurar Hallssonar í Haukadal og Álfheiðar Þorvaldsdóttur konu hans. Bræður hans voru Hallur ábóti á Helgafelli og í Þykkvabæ og Magnús biskup í Skálholti. Þorvaldur bjó í Hruna í Hrunamannahreppi frá 1182 og var helsti leiðtogi Haukdæla á fyrsta fjórðungi 13. aldar.
Þorvaldur var prestvígður og árið 1225 eða 1226 stofnaði hann með tilstyrk Snorra Sturlusonar Ágústínusarklaustur í Viðey. Hann varð sjálfur kanúki þar og stýrði klaustrinu til dauðadags 1235.
Þorvaldur var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Jóra, dóttir Klængs Þorsteinssonar biskups, og áttu þau fimm syni. Einn þeirra var Björn, fyrri maður Hallveigar Ormsdóttur, sem síðar giftist Snorra Sturlusyni. Annar var Teitur Þorvaldsson lögsögumaður í Bræðratungu. Síðari kona Þorvaldar var Þóra yngri, dóttir Guðmundar gríss Ámundasonar, allsherjargoða á Þingvöllum (d. 22. febrúar 1210). Sonur þeirra var Gissur Þorvaldsson.