Fara í innihald

Íslenska stafrófið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Íslenskt stafróf)
Íslenska stafrófið
Aa Áá Bb Dd Ðð Ee
Éé Ff Gg Hh Ii Íí
Jj Kk Ll Mm Nn Oo
Óó Pp Rr Ss Tt Uu
Úú Vv Xx Yy Ýý Þþ
Ææ Öö

Íslenska stafrófið er stafróf sem er notað til að skrifa íslensku. Íslenska stafrófið hefur 32 bókstafi, en 26 ef broddstafir eru ekki taldir með. Í stafrófinu eru eftirfarandi bókstafir:[1]

A Á B D Ð E É F G H I Í J K L M N O Ó P R S T U Ú V X Y Ý Þ Æ Ö
a á b d ð e é f g h i í j k l m n o ó p r s t u ú v x y ý þ æ ö

þar sem broddarnir (´) yfir sérhljóðum tákna hvorki breytileika í áherslu né lengd heldur annað hljóðgildi.[1] Tveir sérstafir eru í stafrófinu en þeir eru þorn og en stafurinn Þ hefur verið í stöðugri notkun í íslensku frá upphafi.[1]

Stafurinn Z var einu sinni hluti af stafrófinu en var tekinn út árið 1973 vegna þess að z er í íslensku borin fram eins og s og þótti því ástæða til að einfalda stafsetningu. Samtímis var rætt um að fella út y og ý en ekki náðist samstaða um það.

Fimm stafir í íslenska stafrófinu tákna tvö hljóð: x é á ó æ.

Stafirnir C, Q, W, og Z eru ekki notaðir almennt í íslensku, en koma fyrir í sumum nöfnum sem Íslendingar bera, aðallega ættarnöfnum, og eru á íslensku lyklaborði. Margir telja að þeir ættu að vera með í íslenska stafrófinu, enda er stafrófið fyrst og fremst tæki til þess að raða orðum og/eða nöfnum í "rétta" röð. Séu þessir stafir ekki á ákveðnum stað í stafrófinu getur enginn sagt hvar raða skal nöfnum eins og Carl eða Walter, sem bæði eru vel þekkt hérlendis. Stafrófið var kennt í íslenskum skólum með þessum stöfum allt fram undir 1980. Þá var stafrófið þannig: a, á, b, c, d, ð, e, é, f, g, h, i, í, j, k, l, m, n, o, ó, p, q, r, s, t, u, ú, v, w, x, y, ý, z, þ, æ, ö. Alls 36 stafir.

Íslenska stafrófið á uppruna sinn í latneska stafrófinu, sem á rætur að rekja til gríska stafrófsins.

Íslenskar stafrófsvísur

[breyta | breyta frumkóða]

A, Á, B, D, Ð, E, É,
F, G, H, I, Í, J, K.
L, M, N, O, Ó og P,
eiga þar að standa hjá.

R, S, T, U, Ú, V næst,
X, Y, Ý, svo Þ, Æ, Ö.
Íslenskt stafróf er hér læst
í erindi þessi skrítin tvö.

(Höfundur: Þórarinn Eldjárn)

Hér er svo upprunalega útgáfan af vísunum. Þær birtust fyrst í stafrófskveri séra Gunnars Pálssonar í Hjarðarholti, Lítið ungt stöfunarbarn, sem var prentað í Hrappsey 1782, og eru taldar vera eftir hann. Þetta er sú útgáfa sem flestir þekkja og syngja en á seinni árum hefur J og V þó yfirleitt verið bætt inn:

a, b, c, d, e, f, g
eftir kemur h, i, j, k
l, m, n, o, einnig p,
ætla eg q þar standi hjá.

r, s, t, u, v eru þar næst
x, y, ý, z, þ, æ, ö
allt Stafrófið er svo læst
í erendi þessi lítil tvö.[2]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Íslenska, í senn forn og ný“ (PDF). Sótt 8. desember 2005.
  2. Gunnar Pálsson: Lítið ungt stöfunarbarn. Íslensk rit í frumgerð. Iðunn, Reykjavík 1982.