Wikipediaspjall:Tillögur að gæðagreinum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Ég fjarlægði tillögurnar Albert Einstein, Japan, Frakkland, Kanada og Ástralía enda eru þær þegar komnar og tvöföld listun getur valdið ruglingi í kosningu. Fjarlægði líka Heimspeki þar sem hún er þegar úrvalsgrein (einum gæðaflokki ofar)og til þess að grein hætti að vera úrvalsgrein þarf að kjósa um það sérstaklega, það er ekki nóg að gera hana að gæðagrein í kosningu hér. --Cessator 21. júlí 2006 kl. 16:01 (UTC)

Gildi kosninga[breyta frumkóða]

Hvað segiði, gildir atkvæði frá þeim sem leggur tillöguna fram? Þýðir það að viðkomandi leggi greinina fram kannski að hann kjósi hana sjálfkrafa? Eða hvernig virkar þetta? --Baldur Blöndal 20:28, 5 desember 2006 (UTC)

Ég geri ráð fyrir því nema sá sem leggur fram tillöguna hafi fyrirvara á tillögunni. Það er eitthvað kjánalegt við að leggja til að grein verði gæða-/úrvalsgrein en andmæla því jafnfram að hún verði það. Þannig að alla jafnan ætti tillaga að fela í sér stuðning. Hins vegar leyfist fólki vitaskuld að hafa fyrirvara á stuðningi sínum eða jafnvel snúast hugur meðan kosningin er enn í gangi. --Cessator 20:42, 5 desember 2006 (UTC)
Já ok. Fannst heldur kjánalegt að styðja mína eigin tillögu. Þannig að tillaga felur "óbeint" í sér stuðning? --Baldur Blöndal 20:43, 5 desember 2006 (UTC)
Ef enginn annar samþykkir tillöguna er hún ekki samþykkt. Það væri alveg út í hött. --Jóna Þórunn 20:45, 5 desember 2006 (UTC)
Ég var að sjálfsögðu ekki að gefa það í skyn, líkar það bara illa við að kvitta við mína eigin tillögu. --Baldur Blöndal 20:47, 5 desember 2006 (UTC)
Enda þarf minnst tvö atkvæði til að hún sé samþykkt. Þannig að ef tveir styðja tillöguna, þá er hún samþykkt ef enginn annar hefur neitt um málið að segja. Og andmæli mega ekki vera meiri en 25% þannig að ef einn andmælir, þá þarf alla vega 3 sem styðja hana. Ef fleiri taka þátt í kosningunni, þá gildir bara hvort 75% stuðningur næst eða ekki. --Cessator 20:49, 5 desember 2006 (UTC)
Já, það væri heldur torkennilegt ef maður gæti unnið bara með því að leggja tillöguna fram. --Baldur Blöndal 20:50, 5 desember 2006 (UTC)
Oftast gengur þetta bara sjálfkrafa fyrir sig, eða hefur gert það hingað til. En ég ætla að nota tækifærið til að minna á þá skynsamlegu klausu „Þó skal ávallt leitast við að ná fram sem víðtækastri sátt um gæðagreinar“ sem ég túlka þannig að ef rökstudd andmæli eru til staðar sé sjálfsagt að reyna að koma til móts við þau ef hægt er, jafnvel þótt tillagan njóti stuðnings fullnægjandi meirihluta. Mér finnst þetta vera ein birtingarmynd þeirrar reglu að hafa skynsemina í fyrirrúmi og notendur eigi að beita dómgreind sinni í hverju tilviki fyrir sig fremur en að fylgja reglum í of mikilli blindni. Mér er annt um þá reglu, því mér sýnist okkur hér á þessari Wikipediu að mestu leyti hafa gengið vel að vinna öll saman og að góður andi hafi ríkt hér hingað til og þessi regla minnir okkur á að vinna áfram í sátt og samlyndi :) --Cessator 21:19, 5 desember 2006 (UTC)

Kosningaréttur[breyta frumkóða]

Ég var að spá í hvort fólk þyrfi ekki að uppfylla ákveðnar kröfur til þess að atkvæði þeirra sé tekið gilt. Datt í hug að notendanafn þyrfti að vera til staðar, hann hafi verið til í mánuð að lágmarki og hafi gert 50 breytingar hið minnsta. Þetta eru ekki miklar hömlur en koma vonandi í veg fyrir að einhver búi til aukareikninga til þess að koma eigin tillögu í gegn. Að sjálfsögðu hafa samt allir rétt á að leggja orð í belg. Þessar takmarkanir myndu líklegast gilda um allar kosningar almennt, líka úrvalsgreinar o.s.frv. Eða eru þetta kannski enn óþarfar reglur? :P --Friðrik Bragi Dýrfjörð 15:19, 31 desember 2006 (UTC)

Nei, ég er alveg sammála þessu. Helst að hafa það x margar breytingar fyrir einhvern y-tíma, t.d. 50 breytingar 7 dögum áður en kosning hefst. --Jóna Þórunn 15:21, 31 desember 2006 (UTC)
Ég er alveg sammála því að kosningarétt eigi einungis skráðir notendur að hafa; er meira efins um nauðsynlegan breytingafjölda og lágmarksbreytingafjölda á tíma T, en ætla samt ekki að mæla fast gegn því. (Slíkt þætti mér aftur á móti koma til greina sem krafa fyrir stjórnendaréttindi, kannski lágmark 500 eða 1000 breytingar sem síðan er hægt að skoða til að meta famlag viðkomandi.) En eins og Friðrik bendir á mega auðvitað allir leggja orð í belg og í kosningum ættum við alltaf að taka tillit til málefnalegs innleggs og reyna að koma til móts við ábendingar, líka frá óinnskráðum. --Cessator 16:51, 31 desember 2006 (UTC)
Já, sammála Cessator. Persónulega finnst mér að ekki sé hægt að meta notanda af breytingarfjölda heldur af því hvað hann skrifar. Veit samt ekki hvort það sé gáfulegt að nota þetta til að ákveða stjórnendur. --Baldur Blöndal 16:56, 31 desember 2006 (UTC)
Jah, í fyrsta lagi skiptir meira máli að stjórnendur séu reyndir notendur en kjósendur í kosningum um gæða- og úrvalsgreinar; í öðru lagi gilda engar ákveðnar reglur um lágmarksskilyrði fyrir stjórnendaréttindi og kannski væri sniðugt að hafa einhver viðmið; og í þriðja lagi skiptir einmitt mestu máli hvernig framlag viðkomandi er ekki endilega hversu mikið (gæði fram yfir magn) — eins og þú segir — en til þess að geta metið framlag viðkomandi, þá þarf viðkomandi að hafa lagt þónokkuð af mörkum. Eftir 500 breytingar er t.d. hægt að sjá hvernig viðkomandi tekst að vinna með öðrum, hvort hann er gjarn á að blása til breytingastríðs o.s.frv. --Cessator 17:09, 31 desember 2006 (UTC)
Fyrir stjórnendur gæti fínt viðmið verið að hafa verið skráður í allvegana tvær vikur (eða jafnvel mánuð?) og að hafa gert svona 200-300 breytingar? Þ.e.a.s. ef við ætlum að hafa einhver skilyrði. --Baldur Blöndal 17:11, 31 desember 2006 (UTC)
Mér finnst tvær vikur og jafnvel mánuður vera allt of stuttur tími. Kannski kemur viðkomandi inn á einu sinni í viku og er þá búinn að koma inn á tvisvar til fjórum sinnum. Fjöldi breytinga segir miklu meira, þess vegna finnst mér ákjósanlegra að miða bara við það. --Cessator 17:17, 31 desember 2006 (UTC)
Ef ég man rétt varstu búin að vera virkur notandi í mánuð eða svo þegar þú varst gerður að stjórnenda :P --Friðrik Bragi Dýrfjörð 17:46, 31 desember 2006 (UTC)
Það er rétt, Friðrik, enda fannst mér það svolítið skrítið þá og átti alls ekki von á því. En það breytir engu um hvort þessi tillaga sé skynsamleg eða ekki. Á ensku eru einhver svona viðmið og eftir því sem íslenska Wikipedian stækkar og notendum fjölgar verður meiri þörf fyrir að hugsa út í svona lagað. --Cessator 19:12, 31 desember 2006 (UTC)
Þess má þó geta að breytingafjöldinn var þegar í kringum 300 eða svo en það sem ég vil tryggja er að enginn uppfylli skilyrðin bara með því að hafa verið skráður í mánuð. Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla :) --Cessator 20:13, 31 desember 2006 (UTC)
Það þarf bara að vera einhver einföld leið til að koma í veg fyrir að atkvæði séu fölsuð. Ég held að það nenni engin að búa til notendur og gera reglulega breytingar á þeim til þess að hægt sé að nota reikningin til að falsa atkvæði. En að sjálfsögðu er aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir þetta, þetta er þó eitthvað sem að fælir flesta frá slíkum aðgerðum. Hvað varðar kröfur til stjórnenda þá þykir mér óþarfi að hafa eitthvað niðurskrifað um það. Kannski er ekki þörf á því að setja takmarkanir á kosningarétt, enda tel ég takmarkanirnar þurfi ekki að vera miklar, vikugamall reikningur og fimmtíu breytingar eru kannski nóg eins og Jóna segir. --Friðrik Bragi Dýrfjörð 17:42, 31 desember 2006 (UTC)
(Breytingaárekstur) Tími = reynsla í þessu samhengi. Á no.wiki segir í viðmiðum varðandi stjórnendur (WP:A) að stjórnandi þurfi að hafa 1) notandasíðu, 2) kannast við Wikimedia verkefnin og tekið þátt á no.wiki í að minnsta kosti 4 samliggjandi mánuði 3) hafa 1000 breytingar á no.wiki. Þar mega þeir einungis kjósa sem hafa að minnsta kosti 1 breytingu viku áður en kosning hefst. Á tillögusíðunni varðandi gæða- og úrvalsgreinar (WP:KUA) eru engar hömlur á því að kjósa en mér þætti gáfulegt að hafa sama hér; eina breytingu fyrir að minnsta kosti viku. --Jóna Þórunn 17:47, 31 desember 2006 (UTC)
Fróðlegt að vita hvernig frændor vorir Norðmenn fara að. ÉG held að það sé ekki þörf á alveg svo ströngum skilyrðum hérna enn þá. Ég legg til að kosningaréttur miðist við skráða notendur en fyrir stjórnendaréttindi þurfi a.m.k. 500 breytingar. --Cessator 19:12, 31 desember 2006 (UTC)
Nei, það kemur ekki til greina að apa upp eftir norðmönnunum og þar sem is.wiki er mun minni en no.wiki þyrfti ekki að hafa eins strangar kröfur hér. Annað er það þó að mér finnst 500 breytingar að stjórnanda kannski fulllítið. Jæja, ég ætla að snúa mér að fjölskylduósætti kvöldsins, Tungufossi. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla ;) --Jóna Þórunn 19:53, 31 desember 2006 (UTC)
Miðað við það sem kemur fram á síðunni Notendur eftir breytingafjölda — gamlar upplýsingar að vísu — eru ekki nema 18 notendur hér með fleiri en 500 breytingar og a.m.k. einn stjórnandi með færri breytingar. Þetta eru allt of gamlar upplýsingar til að taka mark á þeim, en samt, innan við ár síðan. Kannski væri ráð að byrja á að setja 500 breytinga mark og hækka það svo þegar tími er til kominn? Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla :) --Cessator 20:13, 31 desember 2006 (UTC)
Já, 400 breytingar væri kannski fínt? :D Gleðilegt nýtt ár! Það hefur verið æðislegt að vinna með ykkur. --Baldur Blöndal 21:25, 31 desember 2006 (UTC)
Varðandi fjölda breytinga... nú vista ég hressilega oft þegar ég er að vinna í greinum, kannski talsvert meira en flestir aðrir. Ég myndi segja að þetta væri galli, t.d. ef ég myndi setja inn jafn mikið efni og einhver, en geri mun fleiri breytingar en hann. Ég held að við ættum bara að hafa þetta pínu óformlegt áfram, ekkert vera að flækja þetta neitt. --Gdh 01:00, 1 janúar 2007 (UTC)
Reyndar, og ég geri hið sama stundum. Það væri auðvitað hægt að virkilega lesa öll innlegg frá öllum, en það tæki bara of langan tíma. Það er auðvitað hægt að fara að einhverju leiti eftir hvað viðkomandi er áberandi á Wikipedia? Ég meina, maður tekur mikið eftir sumum hér á Wikipedia- þetta getur auðvitað ekki ráðið neinum úrslitum en þetta getur verið haft að leiðarljósi. --Baldur Blöndal 02:19, 1 janúar 2007 (UTC)
Fyrst af öllu: Gleðilegt nýár öll hér og þakka gott samstarf síðastliðin ár. Svo, varðandi kosningar: Það er alveg augljóst að mínu mati, að óinnskráður notandi á ekki að hafa kosningarétt. Hins vegar finnst mér að sérhver notandi með notandanafn eigi að fá að greiða atkvæði um gæða- og/eða úrvalsgreinar. Annað varðandi stjórnandaréttindi: Þar finnst mér að gera þurfi auknar kröfur. Að sjálfsögðu verður notandinn að vera trausts verður að áliti samfélagsins. Traust er ekki sjálfgefið, heldur verður viðkomandi að vinna sér það inn. Þess vegna finnst mér eðlilegt að bæði sé tekið mið af tíma og breytingum viðkomandi. Ég held að mánuður sé heppilegt viðmið og að viðkomandi hafi gert a.m.k. 200 (?) breytingar, sem ekki hafa verið afturkallaðar. Hafi viðkomandi gert margar breytingar, sem aðrir hafa síðan afturkallað, finnst mér það eiga að rýra traustið sem til hans er borið. Ég legg til að við ræðum þetta nánar á næstu dögum og mótum reglur, sem við getum náð samkomulagi um, en gætum þess samt að regluverkið verði ekki of flókið. --Mói 02:30, 1 janúar 2007 (UTC)
Já auðvitað ef viðkomandi hefur verið mikið að 'skemmi-leggja' er erfitt að hugsa sér hann sem stjórnanda. Og svo má ekki hafa þetta of flókið svo við festumst ekki í einhverju skriffinsku rugli. --Baldur Blöndal 02:52, 1 janúar 2007 (UTC)
Varðandi eyddar breytingar er til eitthvað sem kallast deleted-edits, þ.e. eydd framlög. Þetta var eitthvað sem hrjáði mig þegar ég varð stjórnandi á no.wiki - þ.e. að ég hafði sett inn tortíma-snið á mjög margar greinar (frá öðrum) sem síðan var eytt. (Þá átti ég auðvitað bágt með að komast í nægjilega margar breytingar.) Þar skilur s.s. milli tveggja notendahópa; þeirra sem virkilega eru skemmdarvargar og hinna sem eru að reyna að taka til en hafa ekki réttindi til að eyða og banna. Varðandi reynslutímann þá held ég að mánuður sé ekki nægilega langur. Það gerist ekki það mikið hér að það troðist allt inn á einn mánuð. Það er náttúrulega erfitt að segja til um hvort að notandi hafi reynslu eða ekki. Breytingafjöldinn segir s.s. ekki margt um það, við verðum þá að meta hvort við þurfum að taka mikið til eftir viðkomandi. Þroski er annað mál sem taka þarf tillit til, það þriðja er vilji. Reynslutími, þroski, vilji. Lykilatriði í mínum huga. En nú er ég eitthvað komin út í aðra sálma - en það sem sagt vildi ég hafa var að Toolserver lá niðri um tíma um og þess vegna er erfitt að nálgast nýjar breytingatölur og delete-edits eru felld brott meðan Interiot er í sjúkraleyfi. Það skiptir ekki máli núna, en þetta þarf að sjálfsögðu að athuga þegar við viljum fá inn nýja stjórnendur. Varðandi sífelldar vistanir þá finnst mér alltaf betra að ýta oftar á Forskoða en Vista, bæði auðveldar það yfirsýn á RC (IRC + PHP) og minnkar álag á vefþjóninn (sífelldar gagnasendingar). --Jóna Þórunn 04:28, 1 janúar 2007 (UTC)
Vil nú benda á að ég hafði verið á enska og latneska Wikipedia í u.þ.b. 1-2 ár áður en ég varð skráður notandi á því íslenska, þannig að þótt ég hefði bara verið einn dag á íslenska wikipedia hefði ég samt meira en eins árs reynslu; enn einn liður sem gerir þetta mál tvísýnna. --Baldur Blöndal 06:06, 1 janúar 2007 (UTC)
Aftur á móti hafði íslenska wiki-samfélagið ekki enn reynslu af þér ;) Ég tek undir orð Móa að fólk verður að vinna sér inn traust og mér finnst það reyndar vera aðalatriði; reynslutímann hugsa ég mér m.a. til þess en ekki bara fyrir notandann til að læra á wiki-samfélagið. --Cessator 14:47, 1 janúar 2007 (UTC)
Varðandi þessa umræðu er hér ágætis tól til að sjá hvernig stjórnendur eru að standa sig í stykkinu; Sysop activity. --Jóna Þórunn 15:24, 9 janúar 2007 (UTC)
Sniðugt tól, en sýnir bara ákveðna virkni á nýliðnu tímabili, ekki endilega hvernig stjórnendur eru almennt að „standa sig í stykkinu“ (við höfum t.d. nokkra stjórnendur sem hafa almennt staðið sig vel og lagt mikið af mörkum en hafa ekki sést mikið undanfarið og hjá þeim er allt rautt). --Cessator 17:39, 9 janúar 2007 (UTC)
Já, þetta er meira notað til að sjá hverjir eru að „úreldast“, ef svo mætti að orði komast. Varðandi það að tólið virki ekki nægilega vel, þá finnst mér vanta inn í þetta möppudýragjörðir, það er kannski til sérstakt tól fyrir það, en já. --Jóna Þórunn 17:44, 9 janúar 2007 (UTC)

Niðurstaða[breyta frumkóða]

Hver er nú niðurstaðan í þessum umræðum? Ekki seinna vænna að fá þær á hreint. --Cessator 20:13, 10 apríl 2007 (UTC)

Ég væri til í að það væri 50 breytingar lámark og vera búinn að skrá sig viku fyrir byrjun kosningar, ekki endilega búin með 50 breytingar áður en kosning hefst, bara þegar maður kýs. --Nori 16:16, 11 apríl 2007 (UTC)
50 breytingar hvar? Í aðalnafnrými (þ.e. á greinum)? Eða bara almennt (breytingar á eigin notandasíðu teknar með)? Það er freistandi að leggja fram tillögu og láta kjósa um hana en það gæti verið vandvæðum bundið þegar kosið er um kosningarétt og viðmiðin velta á úrslitum kosninganna... --Cessator 18:01, 11 apríl 2007 (UTC)

Ok, ég legg til eftirfarandi: „Kosningarétt hafa allir skráðir notendur sem hafa verið skráðir í mánuð eða lengur og hafa a.m.k. 100 breytingar í aðalnafnrými.“ Þetta eru ekki eins þröng skilyrði og í mörgum tillögum að ofan en þjóna vonandi sínum tilgangi. Ég legg enn fremur til að þessi sömu skilyrði gildi um þessa kosningu. --Cessator 19:10, 11 apríl 2007 (UTC)

  1. Samþykkt Samþykkt --Cessator 19:13, 11 apríl 2007 (UTC)
  2. Samþykkt Samþykkt --Jabbi 19:30, 11 apríl 2007 (UTC)
  3. Samþykkt Samþykkt 110% Samþykkt!!! Og eyða kosningu frá Blond-4ever, IngaRut, og Leyndo --Ice201 20:18, 11 apríl 2007 (UTC)
  4. Samþykkt Samþykkt. Ágætis tímabundin lausn, það þarf hinsvegar að bæta við einhverskonar ákvæðum um gildi röksemda þeirra sem ekki eru kjörgengir o.s.frv. Þ.e.a.s. þetta má ekki skilja sem svo að þeir sem hafa kosningarétt hafi einir eitthvað um þetta að segja og svo mega auðvitað aðrir leggja til að kosið verði um grein. --Friðrik Bragi Dýrfjörð 22:12, 11 apríl 2007 (UTC)
Góðar athugasemdir. Ég hafði einmitt hugsað út í tillöguréttinn og taldi að orðalagið útilokaði hann ekki hjá notendum sem hefðu ekki skv. þessu kosningarétt. Það má svo kannski túlka klausuna um að ná verði sem mestri sátt um greinarnar þannig að taka verði með í reikninginn allar málefnalegar athugasemdir (og jafnvel koma til móts við þær ef hægt er) sama hvaðan þær koma. --Cessator 22:19, 11 apríl 2007 (UTC)
  1. Samþykkt Samþykkt --Bjarki 22:30, 11 apríl 2007 (UTC)
  2. Samþykkt Samþykkt En sambandi við það að hver sem er sendir inn grein, auðvitað finnst mér að það ætti að vera en nú af því að einn notandi bjó til tvo aðra á þá ekki að ógilda atkvæði hennar? Einnig ef það eru 3 búnir að kjósa, einn á móti og tveir með, er það ekki bara 25% andmæli því sendandinn var auðvitað samþykur? --Nori 14:12, 12 apríl 2007 (UTC)
Það má gera ráð fyrir að sá sem gerir tillöguna sé samþykkur en atkv. hans gildir samt bara ef hann hefur kosningarétt. Í því tilfelli sem þú ímyndar þér myndi ég, fyrir mitt leyti alla vega, segja að tillagan væri felld því andmæli væru 33%. Hvað varðar ógildingu atkvæða frá einhverjum sem býr sér til gervinotendur veit ég ekki til þess að það sé til nein regla eða fordæmi þess að ógilda atkvæði raunverulegra notenda, jafnvel þótt þeir hafi brotið kosningareglur/-venjur á Wikipediu; en atkv. gervinotenda eru auðvitað ekki tekin gild. --Cessator 14:27, 12 apríl 2007 (UTC)
Já, ok. En sambandi við hitt þá er ég að meina ef notandi vill að einhver grein verði gæðagrein, getur hann þá búið til notanda, sent greinina inn og kosið síðan með alvöru notendanum? Það er náttúrulega erfitt að sanna en þar sem einn notandi samþykkti grein sem hann sendi inn með öðrum notanda, ætti það að vera leyfilegt? --Nori 15:15, 12 apríl 2007 (UTC)
Það myndi ekki breyta neinu. Ef ég myndi t.d. búa til gervinotanda, láta hann gera tillögu um gæðagrein en kjósa svo sjálfur (þ.e. með alvöru notandanafni mínu) í kosningunni, þá hefði ég samt bara eitt atkv. af því að gervinotandinn minn hefði ekki kosningarétt og hans atkv. myndi ekki gilda, svo ég gæti þá alveg eins gert tillöguna sjálfur og svo kosið eins og venjulega. Gervinotandinn myndi að vísu vera álitinn hafa kosningarétt ef ég myndi hafa hann fyrst í mánuð og gera yfir 100 breytingar með honum; en atkv. yrði ógilt ef upp kæmist og „hann“ og ég bannaður (a.m.k. tímabundið), eins og gerðist í þessu tilviki. Er ég enn að misskilja hvað þú ert að fara? --Cessator 15:47, 12 apríl 2007 (UTC)
Ef maður lætur sjálfur fram tillögu, er maður þá ekki sjálfkrafa að kjósa eða má maður sjálfur kjósa, eins og með dæmið uppi, ef maður er með 100 breytingar og búinn að vera í mánuð, og 3 kjósa, ein andmæli og tvö samþykja er maður þá ekki talinn með og verður 75% samþyki og 25% andmæli. Og ef það myndi vera 33% andmæli er þá ekki betra að gera gervinotanda og láta hann gera tillöguna og kjósa síðan sjálfur og vera þá með 25% og 75%? Þar að segja ef það fattast ekki? Smá off-topic en hvernig gerir maður íslensku gæsalappirnar, alt+hvað? --Nori 15:59, 12 apríl 2007 (UTC)
Það er ekki sjálfgefið að sá sem leggur fram tillögu greiði atkv. með henni, því við höfum nefnilega séð fjöldatillögur þar sem viðkomandi notendur tóku fram að þeir væru bara að leggja fram tillögur en hefðu ekki lesið greinarnar rækilega og hefðu því ekki endilega skoðun á þeim sjálfir. Það er samt eðlilegt að ganga alla jafnan út frá því að sá sem gerir tillögu um gæðagrein sé að greiða atkvæði með henni en það gildir auðvitað ekki ef sá hinn sami hefur ekki kosningarétt. Það sem ég sagði áðan um að andmælin væru að mínu mati 33% gerði einmitt ráð fyrir að sá sem gerði tillöguna væri ekki með kosningarétt (ég skildi þig þannig að þú værir að tala um það), og í því tilviki gildir tillagan ekki sem atkvæði. Gervinotendur eru ekki leyfðir og ef upp kemst um þá, þá eru atkvæði þeirra ógild (en ekki endilega tillagan enda bara atkvæðin sem skipta máli en ekki tillagan óháð kosningunni). Ef ekki kemst upp um þá, þá liggur í augum uppi að allt er eins og það væri venjulega... --Cessator 17:08, 12 apríl 2007 (UTC)

Eyða kjós frá Inga Rut og Blonde-4ever[breyta frumkóða]

Mér finnst að það er ekki gott til að láta nýr notandi bara að skrá sig og þá kjósa kjósa og kjósa! Bara þetta er ekki afkastamikið. Svo getur möppudýr hérna eytt ÖLL kjósur frá Inga Rut og Blonde-4ever? --Ice201 16:59, 11 apríl 2007 (UTC)

Góð hugmynd. --Baldur Blöndal 14:49, 12 apríl 2007 (UTC)

Hvað er gæðagrein?[breyta frumkóða]

Nú er búið að leggja til að greinar um sveitastjórnarkosningar f. Kópavog og Seltjarnes verði gerðar að gæðagreinum. Ég vil nota þetta tækifæri og varpa fram þeirri skoðun minni að, hverju sem um sé að kenna, sé það undarleg tilhneiging (sjálfur er ég jafn sekur og aðrir) hjá flestum notendum hér, hvort sem þeir eru stjórnendur eða ekki, að búa til stubbagreinar sem svo breytast ekkert svo dögum/mánuðum skipti. Sjálfur hef ég einsett mér að reyna að gera sérvöldum viðfangsefnum góð skil og þannig vonandi búa til góða kandídata að gæðagreinum. Það er talsverð vinna að sækja heimildir um sveitastjórnarkosningar, svo eitthvað sé nefnt,og koma þeim yfir á læsilegt form hér á WP en ég sé enga ástæðu til þess að "verðlauna" slíkar c/p upplýsingar með gæðastimpli. Ég beini þessari aths. ekki að neinum einstaklingi né grein heldur vil ég hvetja aðra sömuleiðis til þess að "klára greinar". Kveðja --Jabbi 18:30, 2 júlí 2007 (UTC)

Ég er ábyrgur fyrir ofansögðu en ég skil hvað þú átt við með þessum vangaveltum. Ég veit ekki hvort "verðlaun" er rétta orðið enda settirðu það innan gæsalappa. Hins vegar er ljóst að mismikil vinna er lögð í greinar og ég er meðal margra sem hefur smíðað stubba. Málið með stubba er reyndar það að fólk virðist mun líklegra til að leggja til vinnu í grein sem er þegar til en að smíða nýja. Þetta er að hluta til ástæðan fyrir því að ég hef pumpað út nokkrum beinagrindum í ýmsustu flokkum, stundum er það til að auðvelda lífið fyrir næsta aðila (eins og fugladæmið þar sem ég og aðrir höfum sett skilmerkilega upp tegunda-boxin með tilheyrandi tenglum).
Ef greinin gerir viðfangsefninu góð skil ætti það að teljast góð grein, hér nefnt gæðagrein. Ef að greinin gerir efninu frábær skil þá erum við að tala um úrvalsgrein. Gæðagrein væri grein sem við myndum ekki skammast okkar fyrir að væri ritrýnd af fjölmiðlum eða öðrum, á meðan að marga stubba væri hægt að slíta sundur og saman fyrir skort á efni, margir þeirra eru aðeins ein setning. Ég velti því fyrir mér hvort að þessar greinar mínar myndu teljast góðar greinar, ég taldi svo vera sökum raka sem ég setti fram þar og nefni hér. Mér finnst að þú viljir gera sömu kröfur til gæða- og úrvalsgreina sem ég og það sem samfélagið hér erum ekki sammála um.
Varðandi að klára greinar þá er það oft erfitt að fara alla leið upp í úrvalsflokkinn þegar ekki er hægt um heimildir eða þá að efninu þarf að gera gríðarleg skil. Ég sjálfur hef metnað til að gera úrvalsgreinar en ég átta mig á takmörkunum sem fylgja því. Ég myndi frekar gera 10 gæðagreinar en nota sama tíma í eina úrvalsgrein. Varðandi þessar kosningar til dæmis þá eru einu heimildirnar um kosningamál og annað eins og stendur ýmist grafið í ævisögum eða einhliða málstaður Morgunblaðsins. Þegar Þjóðviljinn, Tíminn og Alþýðublaðið og fleiri dagblöð og tímarit verða aðgengileg á timarit.is þá verður kominn grundvöllur fyrir því að kryfja hverjar kosningar betur. Þangað til gæti ég svo sem notað örfilmulesarana í Þjóðarbókhlöðunni en það er seinlegt og tímafrekt og á sama tíma gæti ég gert nokkrar gæðagreinar í viðbót. Engin grein sem ég skrifa er með því hugarfari að þar sé endanleg útgáfa, alltaf er hægt að bæta við. Þessar greinar sem ég tilnefndi gera efninu sem þær skilgreina sig um góð skil, ekki fullkomin. Þess vegna, svo ég endurtaki mig, voru þær ekki lagðar fram sem úrvalsgreinar.
Þetta eru greinar sem maður myndi hiklaust sýna einhverjum til að sýna að Wikipedia er með góðar greinar. Sem ég hef og gert. Já og ekkert c/p við þessar greinar, kosningatölfræðin t.d. var reiknuð upp á nýtt til að sýna fjölda ógildra og auðra atkvæða, sem er oft sleppt í útreikningum heildartalna sem mér finnst verulega villandi. --Stalfur 19:19, 2 júlí 2007 (UTC)
Já, ég ætlaði einmitt að benda á þetta. Við munum hafa miklu betri forsendur til að skrifa hlutlausar greinar um íslensk stjórnmál fyrr á öldinni þegar hægt verður að leita í fleiri dagblöðum á timarit.is. Samkvæmt Morgunblaðinu eru Finnbogi Rútur Valdimarsson og félagar bara einhverjir 'kommar' sem ekkert mark er á takandi - þegar Alþýðublaðið og Þjóðviljinn koma verður þetta auðveldara fyrir okkur. Þess er vonandi ekki langt að bíða. Biðin eftir Tímanum gæti orðið eitthvað lengri. Haukur 21:39, 2 júlí 2007 (UTC)
Hvað er kláruð grein? Og hvað er að gera efninu góð skil? Það hefur verið bent á að greinar í Íslensku alfræðiorðabókinni eru oft ekki lengri en stubbar hér. Sama gildir um færslur í allmörgum alfræðiritum. Í The Penguin Dictionary of Ancient History virðist t.d. færslan um Hippókrates vera meðallöng færsla en hún er innan við 150 orð. Færslan um bjarghyggju í Oxford Dictionary of Philosophy lítur sömuleiðis út fyrir að vera meðallöng grein og hún er rúmlega 150 orð; færslan um Tómas frá Akvínó er löng og hún er um 800 orð. Færslur eru svipað langar í Oxford Concise Companion to Classical Literature og The Penguin Dictionary of Classical Mythology. 150 orða langar greinar geta ekki talist kláraðar greinar og þær gera efninu auðvitað ekki ýtarleg skil — það er að sjálfsögðu hægt að bæta miklu við svo stutta grein um Hippókrates eða bjarghyggju, alveg eins og það er líka hægt að bæta mjög miklu við 800 eða jafnvel 3000 orða langa grein um Tómas frá Akvínó. En þær geta samt verið bæði heildstæðar og upplýsandi. Kannski ættum við að hætta að stubbamerkja greinar ef við getum svarað spurningunni „gæti þessi grein staðið svona í Íslensku alfræðiorðabókinni?“ (eða The Penguin Dictionary of Geology o.s.frv.) játandi, jafnvel þótt enn mætti bæta ýmsu við þær. Ef svarið er hins vegar neitandi, þá má greinin heita réttnefndur stubbur, eða hvað? Það fylgir svo sögunni að í mörgum alfræðiritum eru færslur oft ekki nema tvær línur að lengd. Það er sem sagt ekki sama stubbur og stubbur. Og þá liggur beint við að spyrja hvaða stubba þú átt við, alla þá sem hér eru merktir stubbar eða bara þá sem gætu ekki staðið óbreyttir í öðrum alfræðiritum. Ég hugsa að ég sé sammála þér um að það sé eðlilegt að hvetja fólk til að ganga nægilega vel frá greinum þannig að þær séu ekki stubbar í þeim skilningi — en, aftur, það fylgir sögunni að í mörgum alfræðiritum eru færslur oft ekki nema tvær línur að lengd. --Cessator 19:20, 2 júlí 2007 (UTC)
Ég er þeirrar skoðunar að samanburður við flest prentuð fræðirit, sérhæfð eða alfræði, eigi frekar takmarkaðan rétt á sér. Sérstaklega þegar tekið er með í dæmið hversu langt er síðan að viðk. bók var gefin út. Í dag eru upplýsingar mjög aðgengilegar. Ég er ekki að mælast til þess að fólk hópist í örfilmulesarana í Þjóðarbókhlöðunni því það er alltof mikil vinna. Sömuleiðis þykist ég ekki geta gefið niðurnjörvaða skilgreiningu á hvað teljist kláruð grein og auðvitað er hægt að gera viðfangsefni ásættanlega góð skil í nokkur hundruðum orða. Það er einnig rétt að því fleiri greinar sem eru til því líklegra er að smálegar viðbætur, ein og ein setning bætist við eða stafsetningarvillur verði lagaðar af einhverri óþekktri ip-tölu, eigi sér stað. Ég furða mig mikið á því en tilfellið er augljóslega að alltof fáir notendur eru virkir hér á íslensku wp. En það er annar handleggur.
Ég geri fastlega ráð fyrir því að margir séu ósammála mér en mín skilgreining á gæðagrein er töluvert þröng, þ.e.a.s. ég tek þessum skilyrðum mjög alvarlega. Mér finnst að WP eigi að geta boðið upp á gæði (sbr. gæða- og úrvalsgreinar) sem er ekki aðeins hægt að bjóða fjölmiðlum upp á að rýna í skömmustulaust heldur er betra en þeir bjóða:
  1. Hún er vel skrifuð, rétt og laus við staðreyndarvillur, skrifuð út frá hlutlausu sjónarmiði og stöðug.
Þetta skilyrði er ekki auðuppfyllt. Hún þarf sömuleiðis að vera vel uppbyggð:
Framsetning gæðagreina er í samræmi við það sem fram kemur í Handbókinni, t.d. hefur gæðagrein:
  • (a) stuttan inngang, sem lýsir öllum meginatriðum viðfangsefnisins og undirbýr lesandann fyrir nánari umfjöllun í köflunum sem fylgja, og
  • (b) viðeigandi skiptingu efnis í kafla og undirkafla.
Úrvalsgreinar þurfa að uppfylla þessi skilyrði auk þess að hafa meltast í einhvern tíma og hafa fjölbreyttar og áreiðanlegar heimildir. Kveðja --Jabbi 13:42, 3 júlí 2007 (UTC)

Tilnefna greinar aftur[breyta frumkóða]

Nú hafa minnst tvær greinar verið tilnefndar tvisvar með stuttu millibili. Ég legg til að við setjum smá reglu um þann tíma sem þarf að líða á milli tilnefninga sömu greinar. 3 mánuðir ættu að vera nóg að mínu mati. Ég veit að þetta er gert með eyðingu greina á ensku wikipediu, en þar sem að þetta er ekki alveg sami hluturinn þá vildi ég fyrst setja fram umræðu um þetta. --Steinninn 00:55, 29 ágúst 2007 (UTC)

Ágætis hugmynd. -Jóhannesbjarki 9. maí 2010 kl. 13:02 (UTC)
Já já, prýðileg hugmynd. --Cessator 9. maí 2010 kl. 14:08 (UTC)

Lágmarks fjöldi breytinga[breyta frumkóða]

Ég tók eftir að Marina hefur verið að kjósa á morgum greinum án þess að geta lesið greinina. Það er erfit að banna notendum að gera það. En hins vegar tók ég líka eftir því að þessi notandi hefur bara gert um 25 breytingar í aðalnafnaríminu. Skilirðin eru minnst 100. Datt bara í hug að benda á þetta, en sjálfur hef ég ekki á huga á að tækla það. --Steinninn 6. apríl 2008 kl. 04:39 (UTC)

Þetta er ágæt ábending. Lítið að tækla, strikethrough er nóg. --Cessator 6. apríl 2008 kl. 04:53 (UTC)
If you're talking about me, please translate it, so I can understand. Marina (msg) 6. apríl 2008 kl. 06:55 (UTC)
We are saying that you don't have the criteria for voting on gæðagreinar since you have not made 100 edits on the Icelandic Wikipedia. So your votes have been crossed out. --Steinninn 6. apríl 2008 kl. 08:12 (UTC)
Also, it's not incumbent on users here to duplicate all their contributions in another language so that those that don't understand Icelandic can follow the discussion. It is incumbent on you to know Icelandic if you want to follow the discussion. That's how it works. Sometimes we do communicate with you in English, but you can't expect us to translate everything. --Cessator 6. apríl 2008 kl. 16:12 (UTC)
Það ætti líka að vera þannig að ef hún skilur ekki þessar samræður þá skilur hún greinilega ekki greinarnar. --Baldur Blöndal 6. apríl 2008 kl. 16:53 (UTC)
Sammála því, að greiða atkvæði gerir ráð fyrir að viðkomandi hafi lesið greinina. Kannski væri hægt að gera að reglu að til að geta greitt atkvæði þurfi maður að hafa alla vega is 3 íslenskukunnáttu. --Cessator 6. apríl 2008 kl. 16:56 (UTC)
Mér persónulega finnst óþarfi að gera sérstaka reglu um alla þessa hluti, er ekki nokkuð auðvelt að ákveða þetta á "person-to-person-basis"? --Baldur Blöndal 7. apríl 2008 kl. 00:22 (UTC)

Atkvæði[breyta frumkóða]

Fyrst umræðurnar eru byrjaðar hér vil ég leggja fram þá tillögu að öllum atkvæðum fylgi rökstuðningur. Það tíðkast á flestum verkefnum að rökstyðja á móti og hlutlaus-atkvæði en af hverju þarf ekki að rökstyðja með/samþykkt-atkvæði? Auðvitað eru sum atkvæði byggð á af því bara - en í flestum tilfellum er hægt að draga fram eitthvað, hvort sem það er gott eða slæmt. — Jóna Þórunn 6. apríl 2008 kl. 17:06 (UTC)

Þetta er ekki slæm hugmynd. Sérstaklega reyndar atkvæði sem greidd eru á móti því þar hjálpar rökstuðningurinn þeim sem vilja bæta greinina/tillöguna. Og það á jú að vera tilgangurinn, við erum að hjálpast að við að gera þeyta alfræðirit sem allra best. Hlutlaust atkvæði er eiginlega ekki atkvæði því það er ekki tekið með í reikninginn hvort eð er, það er bara leið til gefa þeim sem vilja hvorki greiða atkvæði með eða á móti tækifæri til að tjá sig. Það væri þess vegna algerlega tilgangslaust að greiða hlutlaust "atkvæði" en hafa svo ekkert að segja, þá væri alveg eins hægt að greiða bara ekki atkvæði. En það er ekki slæm hugmynd að fara fram á rökstuðning fyrir atkvæðum greiddum með grein/tillögu, það hjálpar kannski einhverjum að átta sig betur á af hverju hann greiðir atkvæði á ákveðinn hátt ef hann þarf að koma orðum að því; það hjálapar öðrum að sjá hvað er gott við greinina/tillöguna og það hjálpar til við að koma umræðu inn í kosningarnar. Ég held þess vegna að það sé vel þess virði að íhuga þetta. --Cessator 6. apríl 2008 kl. 18:37 (UTC)
Ég er í raun sammála öllu sem Cessator segir og hef littlu við það að bæta. Hlutlaus kostning er mjög tilgangslaus ef maður segir svo ekkert með henni. Og það væri gott að skrifa eitthvað með "samþykkt" atkvæðum til, meðal annar svo þeir sem gefa "á móti" atkvæði fái smá innsýn í það sem hinir aðilarnir eru að hugsa. --Steinninn 6. apríl 2008 kl. 20:29 (UTC)
Jú, góðir punktar. Ef við ákveðum eitthvað hér, eigum við ekki að láta það eiga við um allar kosningar, þar á meðal fyrir úrvalsgreinar? --Stefán Örvarr Sigmundsson 7. apríl 2008 kl. 02:34 (UTC)
Já, fyrir bæði gæðagreinar og úrvalsgreinar, enda sama kosningaferlið í báðum tilvikum. --Cessator 7. apríl 2008 kl. 02:44 (UTC)
Og þegar verið er að kjósa um Möppudýr og fleira. --Steinninn 7. apríl 2008 kl. 06:52 (UTC)

Reglur um kosningar[breyta frumkóða]

Núna nýlega var kosið um sviptingu gæðagreinarnafnbótar Rafhlöðu. Hún var samþykkt með einu atkvæði (þess notanda sem lagði tillöguna fram) og hlutleysisatkvæði mínu. Mér þykir þetta ekki nægilega lýðræðisleg ákvörðun. Þessi ákvarðanataka hefur í mínum augum ekki nægilegt lögmæti í ljósi þess að akkúrat 7.062 notendanöfn eru skráð á ísl. wikipediuna (en talsvert færri virkir). Það eru því um 0,03% notenda sem koma að því að ákveða hvað sé gæðagrein og hvað ekki í þessu tilviki. Að sjálsögðu er hlutfall virkra notenda sem koma að ákvarðanatöku mikið hærra. Engu að síður legg ég til að hver tillaga þurfi tvöfalt fleiri atkvæði til þess að teljast afgreidd eða 4. Kveðja --Jabbi 17. febrúar 2009 kl. 16:00 (UTC)

Þetta er ekki alveg rétt, hún var samþykkt með tveimur atkvæðum en hvorugt þeirra var hlutleysisatvæðið þitt. Atkvæðin voru atkv. Orra, sem lagði tillöguna fram, og Thvj, sem studdi. Þar með eru komin tvö atkv. en það voru engin andmæli — hlutlausir þátttakendur í umræðum teljast hvorki með né á móti. Þetta er skv. reglunum sem lýst er efst á síðunni.
Það er svo annað mál hvort það ætti að herða kosningalögin. Núna er krafist 4ra atkv. fyrir úrvalsgreinar en 2ja atkv. fyrir gæðagreinar. Kannski mætti gera kröfu um 3 atkv.? Eða bara hafa sömu reglur fyrir bæði úrvals- og gæðagreinar. En Það má svo sem benda á að það er ekki kannski alveg svo einfalt að tveir notendur hafi hér tekið ákvörðun, heldur eru mun fleiri sem sátu hjá og sáu ekki ástæðu til að tjá sig um þetta (ég geri ráð fyrir að a.m.k. einhverjir virkir notendur hafi tekið eftir kosningunni). Með öðrum orðum má segja að flestir virkir notendur hafi haft tækifæri til þess að andmæla en látið það eiga sig. --Cessator 17. febrúar 2009 kl. 16:52 (UTC)
Samkvæmt tölfræði-síðunni eru 203 virkir notendur og því má segja að 1,48% hafi tekið þátt í kosningunni (en örugglega miklu fleiri sem tóku eftir henni og sátu hjá). --Cessator 17. febrúar 2009 kl. 16:55 (UTC)
Vel athugað Cessator. Eftir sem áður finnst mér þetta of lágt hlutfall. Ef fólki þykir 3 lágmarksatk. f. gæðagreinar og 6. f. úrvalsgreinar ásættanlegra þá hlýtur það að vera framför. Fjöldi notenda sem situr hja er einmitt áhyggjuefnið, með því að setja hærri lágmarkskvóta er meiningin einmitt sú að það sé hvatning til þess að virkir notendur taki þátt. --Jabbi 17. febrúar 2009 kl. 17:29 (UTC)
Ég held að það sé ef til vill ágætt að breyta eins og þú segir. Þá yrði textanum efst á síðunni, sem segir núna: „Tillaga þarf minnst 2 atkvæði til þess að teljast samþykkt.“ breytt í „Tillaga þarf stuðning minnst 3ja atkvæða til þess að teljast samþykkt.“ Ég bendi á að ég bætti inn orðinu „stuðning“ til að taka af öll tvímæli um að hlutlausir séu ekki að greiða atkvæði (með eða á móti). Samsvarandi texta fyrir úrvalsgreinar, sem segir núna: „Tillaga þarf 75% greiddra atkvæða og aldrei færri en 4 atkvæði til þess að teljast samþykkt“ yrði þá sömuleiðis breytt í „Tillaga þarf 75% greiddra atkvæða og aldrei minna en stuðning 6 atkvæða til þess að teljast samþykkt.“ — eða eru 5 atkv. kannski nóg þar (enda í mesta lagi einn sem andmælir í slíku tilviki; ef fleiri andmæla þarf fleiri atkvæði til að komast upp fyrir 75%)? --Cessator 17. febrúar 2009 kl. 17:39 (UTC)
Samþykkt Samþykkt --Jabbi 17. febrúar 2009 kl. 20:39 (UTC)
Samþykkt Samþykkt fyrir mitt leyti. (Voðalega yrði nú írónískt ef enginn annar greiddi atkvæði um þessa tillögu) --Cessator 17. febrúar 2009 kl. 22:19 (UTC)
Samþykkt Samþykkt og lol @ Cessator :) Gott að hafa húmorinn innan handar. — Jóna Þórunn 17. febrúar 2009 kl. 23:12 (UTC)
Á móti Á móti Það er líka lýðræði að greiða EKKI atkvæði eða að vera hlutlaus!! - Hins vegar geri ég ráð fyrir að til þess að rafhlöðugreinin fá hugsanlega aftur gæðagreinarstimpilinn (óverðskuldað, að mínu mati) þurfi að leggja fram tillögu um að hún verði valin sem gæðagrein og kjósa um það ;) Thvj 18. febrúar 2009 kl. 00:07 (UTC)
Mér þætti áhugavert að vita aðeins meira um hvað þú ert að fara með þessu. Það er að sjálfsögðu ekki verið að banna fólki að vera hlutlaust eða greiða ekki atkvæði. --Cessator 18. febrúar 2009 kl. 05:06 (UTC)
Að sjálfsögðu er það lýðræðislegt val að kjósa ekki og vera hlutlaus. Það að skila inn auðu er alveg jafn lýðræðislegt og að kjósa (sömuleiðis að sitja bara heima ef út í það er farið). Eins og Cessator bendir á er það hægt eftir sem áður. Það sem ég er að benda á er að það sé hægt innan ramma reglnanna að einvörðungu tveir notendur stjórni því hvað sé gæðagrein og hvað ekki. Það þykir mér hættulega ólýðræðisleg ákvarðantaka. Það eru einfaldlegar of fáir sem ráða of miklu. Ef halda á til haga gæða/úrvalsgreinakerfi á annað borð eigum við ekki að hafa það í anda þeirrar baráttu fyrir gagnsæi og lýðræði sem nú virðist vaxa ásmegin í þjóðfélaginu. (Að gefnu tilefni vil ég taka fram að ástæða þess að ég legg þetta til hefur nákvæmlega ekki neitt með Rafhlöðugreinina að gera. Þetta er pjúra tæknilegt atriði) --Jabbi 18. febrúar 2009 kl. 12:11 (UTC)
Cessator, ég spyr þig á móti, hvað er það sem kallar á breytingar ?? Varla getur það verið sú staðreynda að atkvæði "thvj" skyldi ráða úrslitum? Ég sé ekki annað en þetta sé eins lýðræðislegt eins og kostur er miðað við smæð íslenska wiki-samfélagsins, hinir völdu bara að greiða ekki atkvæði um tillöguna ;) Ég held að það sé mjög hollt fyrir wiki-samfélagið að það sé mögulegt að fella gæðagreinarstimpil með fáum atkvæðum, því það hvetur þá sem hafa áhuga á efni greinarinnar að bæta hana og fá stimpilinn settan! M.ö.o. veldur það jákvæðum þrýstingi, sem verður bara til að bæta wiki :) Thvj 18. febrúar 2009 kl. 17:53 (UTC)
Nei að sjálfsögðu kemur það málinu ekkert við hvers atkvæði réðu úrslitum um rafhlöðugreinina. Sú tillaga kemur þessu alls ekkert við og þessi breytingatillaga hér — sem er ekki einu sinni mín tillaga — er ekki viðbragð við því að tillagan um rafhlöðugreinina skyldi hafa verið samþykkt. En það má kannski minna á að það var nú einmitt ég sem benti á að tillagan hafi verið samþykkt en ekki felld eins og í fyrstu var talið fyrir mistök; og að ef ég hefði viljað koma í veg fyrir að tillagan hefði verið samþykkt með atkvæðum ykkar Orra, þá hefði ég einungis þurft að andmæla og mín andmæli hefðu þá nægt til að fella tillöguna og þ.a.l. væri rafhlöðugreinin enn þá gæðagrein. Nei, þessi rafhlöðugrein kemur þessu ekkert við. Þú bendir á að það sé kostur að það sé hægt að fjarlægja gæðastimpil með fáum atkvæðum en það eru tvær hliðar á þeim peningi; hin hliðin er sú að það er hægt að gefa gæðastimpil með fáum atvæðum, m.ö.o. er hugsanlegt að í framtíðinni fáu grein óverðskuldaðan gæðastimpil með atkvæðum einungis tveggja notenda. Við erum auðvitað sammála um að það verði að tryggja að greinar verðskuldi gæðastimpilinn og að ferlið sé lýðræðislegt en það er nú líka eitt sem skiptir máli um lýðræði og það er að það virkar bara með þátttöku lýðsins. Þess vegna er nú þessi hugmynd uppi um að auka kröfur um lágmarksþátttöku. --Cessator 19. febrúar 2009 kl. 01:48 (UTC)
Mér þykir ekki brýnt að breyta þessari reglu að sinni, þó vissulega megi færa gild rök fyrir breytingunni, eins og Cessator gerir. Það heyrir til undantekninga að greinar séu sviptar gæðagreinartitli, og ef svo er þá er skaðinn ekki mikll, en hvatning því meiri að bæta greinina! Thvj 19. febrúar 2009 kl. 16:23 (UTC)
Hlutlaus Hlutlaus Þið gerið ykkur grein fyrir því að allur þessi tími hefði getað farið í það að gera greinina um rafhlöður að verðskuldaðri gæðagrein ;) annars held ég að íslenska Wikipedian sé einfaldlega ekki nógu mönnuð til hver grein fái 4-6 samþykka (alla vegana miðað við það sem ég hef séð, en sjaldan kjósa fleiri en 5). Annars er afar erfitt að komast að góðri lausn í þessu, og ég veit hreinlega ekki hvar ég stend. Held ég merki við mig sem hlutlausan. --Baldur Blöndal 18. febrúar 2009 kl. 03:50 (UTC)
Tja, eins og tillagan er núna er gert ráð fyrir að minnst 3 þurfi að styðja tillögu um gæðagrein og ef þú ferð í samþykktar tillögur sérðu að oft hafa tillögur verið samþykktar með 4 til 8 atkvæðum (t.d. eftirfarandi úrslit: Listi yfir stærstu borgir Evrópusambandsins 4:1; Alþingiskosningar 2007 4:1; Hafskip hf. og Hafskipsmálið 5:1; Rómaveldi 4:0; Inkaveldið 3:0; Muse 5:0; Listi yfir íslenskar kvikmyndir 8:1; Kommúnismi 6:0; Krabbamein 8:0; Finnland 7:0; Strandasýsla 6:0; Heimskautarefur 7:0; Vilmundur Gylfason 4:0; Norðurslóðir 5:0; Kris Kristofferson 4:0 o.s.frv.) --Cessator 18. febrúar 2009 kl. 14:34 (UTC)
Ég hef eitthvað misskilið þetta. Jú ætli ég styðji þetta ekki, það ætti alla veganna ekki að vera þannig að eitt atkvæði sé nóg til að lækka eða hætta grein í status. --Baldur Blöndal 19. febrúar 2009 kl. 19:33 (UTC)
Samþykkt Samþykkt --Akigka 18. febrúar 2009 kl. 12:13 (UTC)

Þessi kosning stendur núna í 4:1 og verður að öðru óbreyttu samþykkt. Það hefur ekkert bæst við þessa umræðu í dálítinn tíma; vill einhver bæta einhverju við? --Cessator 27. febrúar 2009 kl. 22:10 (UTC)

Þetta er löngu samþykkt og enginn nennir að ræða þetta meir svo ég skellti inn breytingunum sem lagðar voru til. --Cessator 30. mars 2009 kl. 21:51 (UTC)

Áhyggjur[breyta frumkóða]

Ég lýsi hér með yfir áhyggjum mínum af sinnuleysi annara notenda við gæðagreinatillögur. Það er spurning hvort það megi bara leggja þetta niður líkt og gert var við samvinnuhlutann...? --Jabbi 6. maí 2010 kl. 23:11 (UTC)

Sé ekki tilganginn í því að leggja þetta niður þar sem það er þegar ákveðið batterí í kringum þetta. Gefum þessu tíma segi ég, vonum bara að þetta rakni við. --バルドゥル 7. maí 2010 kl. 00:07 (UTC)
Já, kannski er rétt að hafa áhyggjur en varla þess virði að leggja þetta niður; það er miklu auðveldara að blása lífi í þetta aftur ef þetta er ekki „lagt niður“. --Cessator 7. maí 2010 kl. 12:12 (UTC)
Etv væri ráð að takmarka fjölda tilnefninga, sem virðast hafa farið úr böndunum nýlega. Thvj 22. júní 2011 kl. 20:24 (UTC)

Pæling[breyta frumkóða]

Væri ekki eðlilegra þegar fjallað er um að svipta grein gæðagreinarnafnbót (eða úrvals) að slík atkvæðagreiðsla fari fram á svipuðum forsendum og nýjar tillögur? Þ.e.a.s. að það þurfi meirihluta atkvæða til þess að samþykkja að grein verði áfram gæðagrein en að hún missi titilinn ef það er ekki samstaða um að hún eigi hann skilinn. Það er óeðlilegt að nýjar tillögur að gæðagreinum þurfi að komast í gegnum þrengra nálarauga hvað varðar stuðning samfélagsins en þær greinar sem þegar bera titilinn. Eðlilegra væri að láta gæða- og úrvalsgreinastaðalinn njóta vafans og setja engar greinar í þá flokka sem ekki hafa breiðan stuðning við það. Þetta er sömuleiðis verklagið sem ég sé að er viðhaft á öðrum tungumálum. --Bjarki (spjall) 30. desember 2012 kl. 18:09 (UTC)

Kannski er það eðlilegra. Ég sé samt einn galla á þessu og hann er sá að það er hægt að misnota þetta fyrirkomulag. Ég held svo sem ekkert að það fari allt í einu að gerast lon og don eða jafnvel svo mikið sem einu sinni. En það gæti gerst. Ímyndum okkur t.d. að það sé kosið um að gera grein að gæðagrein. Það taka níu notendur þátt í kosningunni og átta eru sammála um að gera greinina að gæðagrein en einn er andvígur og nokkuð heitur í þeirri afstöðu. Þegar kosningu lýkur er greinin gerð að gæðagrein. Viku seinna leggur þessi eini til að hún sé svipt stimplinum. Hinir átta þurfa nú að kjósa aftur til að halda greininni. Ef þeir gera það bíður þessi eini aftur í viku og tilnefnir svo greinina aftur til sviptingar stimplinum. Hann ætlar enn fremur að halda þessu til streitu þar til hann fær sínu fram. Nú eru aðrir notendur í gíslingu þessa eina að því leyti að þeir þurfa sífellt að vakta tilnefningar og kjósa allir aftur og aftur hvenær sem þessum eina hentar að gera nýja tillögu; nema auðvitað þeir gefist upp og láti undan og leyfi þessum eina fá að hafa hlutina eftir sínu höfði. Ég endurtek, ég held ekkert að þetta sé endilega að fara að gerast en það er eitthvað skrítið við að opna fyrir þennan möguleika. Að því leyti er eðlilegra að sömu reglur gildi hvenær sem kosið er um að breyta stöðu greinar á hvorn veginn sem er. --Cessator (spjall) 30. desember 2012 kl. 19:47 (UTC)
Það er ekki útilokað að svona aðstæður komi upp, sérstaklega í litlu samfélagi þar sem afar fáir notendur virðast vera virkir á hverjum tíma. Vandamálið er lítil virkni í atkvæðagreiðslum og ég hef reynt að gera eitthvað í því með því að lengja tímafresti og auglýsa það með áberandi hætti á nýlegum breytingum að það sé atkvæðagreiðsla í gangi. Þessar aðstæður sem þú lýsir væri einfalt að koma í veg fyrir með reglum um tímafresti þannig að eftir að grein er samþykkt sem gæða- eða úrvalsgrein þá njóti hún friðhelgi um þá stöðu í eitt ár nema sá sem leggur til endurskoðun á nafnbótinni rökstyðji það sérstaklega að breytt staða sé uppi frá því að nafnbótin var samþykkt. Sömuleiðis ef grein stenst endurskoðun og heldur nafnbótinni þá gildi það aftur í eitt ár. Ef einhver setur af stað atkvæðagreiðslu innan þessa frests en hefur ekkert nýtt fram að færa frá síðustu umræðu þá er í lagi að stoppa slíka atkvæðagreiðslu. --Bjarki (spjall) 30. desember 2012 kl. 20:10 (UTC)
Friðhelgishugmyndin er allrar athygli verð. Ef maður vill vera svartsýnn (sem er kannski ekki við hæfi á nýársnótt) þá getur maður ímyndað sér að það geti komið upp ágreiningur og ósætti um hvað nægir til að maður teljist „rökstyðja sérstaklega“ og hvað teljist nægilega breyttar aðstæður. En þetta eru kannski alveg óþarfar áhyggjur. --Cessator (spjall) 1. janúar 2013 kl. 03:47 (UTC)
Við höfum yfirleitt tamið okkur frjálslega nálgun á svona hingað til og ekki verið að setja of stífar regluramma, allavega ekki fyrr en það ljóst að hans er þörf. Ég held að við útilokum aldrei alla mögulega ágreiningsfleti en sérstakt ferli fyrir endurskoðun gæða- og úrvalsgreina sem fylgir þessum tímaviðmiðum sem ég nefndi ætti að taka á flestum slíkum málum. Ef grein er samþykkt sem gæðagrein og hún hefur ekki tekið sérstökum breytingum til hins verra eftir það þá er varla „sérstakt tilefni“ til endurskoðunar á því. En til lengri tíma litið er hins vegar ágætt að fara yfir allar gæða- og úrvalsgreinar og spyrja sig að því hvort að nafnbótin sé ennþá viðeigandi vegna þess að þó að greinarnar breytist kannski lítið þá eru kröfurnar sem gerðar eru tvímælalaust í þróun. --Bjarki (spjall) 1. janúar 2013 kl. 19:50 (UTC)
Það er rétt, kröfurnar hafa breyst gríðarlega mikið frá því úrvalsgreinar voru fyrst tilnefndar. --Cessator (spjall) 1. janúar 2013 kl. 23:45 (UTC)