Wikipedia:Sannreynanleikareglan
Þessi síða
lýsir samþykkt sem gildir á íslensku Wikipediu og allir notendur ættu að virða eins og kostur er. Ekki breyta henni í ósátt við aðra notendur. |
Lágmarkskrafa sem gerð er til efnis á Wikipediu eru sannreynanleiki. Þetta þýðir að í alfræðiritinu á einungis heima efni sem hægt er að staðfesta í áreiðanlegum, útgefnum heimildum. Sannreynanleikareglan (eða staðfestingarreglan) er ein af þremur meginreglum Wikipediu um efni alfræðiritsins. Hinar tvær eru hlutleysisreglan og reglan um engar frumrannsóknir. Saman sjá þessar reglur um að greinar alfræðiritsins séu alfræðilegar í eðli sínu og vel unnar. Varast skal að beita þeim eða túlka þær í einangrun hverja frá annarri; höfundar á Wikipediu ættu að kynna sér allar þrjár reglurnar. Wikipedia byggir á þessum reglum og þær má aldrei afnema eða hundsa. Hins vegar skal hafa í huga að ýmis matsatriði geta komið upp í beitingu reglanna og þær skyldi ávallt túlka með hliðsjón af almennri heilbrigðri skynsemi.
Reglan
[breyta frumkóða]
|
Sannreynanleiki
[breyta frumkóða]Lykillinn að því að skrifa góða grein fyrir alfræðirit er ekki síst fólginn í því að átta sig á að slíkar greinar eiga aðeins að vísa til staðreynda, fullyrðinga, kenninga, hugmynda, skoðana og raka sem hafa komið út hjá traustum útgefendum eða er getið í áreiðanlegum heimildum. Markmið Wikipediu er að verða traust alfræðirit. Höfundar greina ættu því að vísa í traustar heimildir svo að aðrir notendur, höfundar og lesendur, geti sannreynt framlag þeirra.
„Sannreynanleiki“ í þessu samhengi þýðir ekki að farið sé fram á það við höfunda efnis að þeir sannreyni til dæmis fullyrðingar Morgunblaðsins. Raunar eru höfundar eindregið hvattir til þess að láta slíkt eiga sig, vegna þess að frumrannsóknir eiga ekki heima á Wikipediu. Greinar ættu einungis að innihalda efni sem áður hefur verið fjallað um í traustum heimildum, óháð því hvort greinarhöfundur telur að efnið sé satt eða ekki. Þótt það virðist þversagnakennt, þá er þröskuldurinn fyrir efni á Wikipediu sannreynanleiki.
Ef til vill er eftirfarandi dæmi hjálplegt til þess að átta sig á muninum á sannreynanleika og sannleika. Gerum ráð fyrir að þú sért að semja grein fyrir Wikipediu um kenningu X sem frægur eðlisfræðingur setti fram, hún var birt í ritrýndu fræðitímariti og er þess vegna viðeigandi efniviður í grein á Wikipediu. Meðan þú ert að semja greinina hefurðu hins vegar samband við eðlisfræðinginn og hann segir við þig: „Reyndar, þá tel ég núna að kenning X sé alfarið röng“. Jafnvel þótt þú hafir þessar upplýsingar frá eðlisfræðingnum sjálfum geturðu ekki haft þessa staðreynd með í greininni.
Af hverju ekki? Vegna þess að hún er ekki sannreynanleg með þeim hætti sem fullnægir þörfum lesenda og annarra höfunda Wikipediu. Lesendur vita ekki hver þú ert. Þú getur ekki gefið upp símanúmerið þitt, þannig að hver einasti lesandi í heiminum geti hringt í þig og fengið það staðfest að eðlisfræðingurinn hafi sagt þetta. Og jafnvel þótt þeir gætu það, hvers vegna ættu þeir að trúa þér?
Ef þú vildir gera þessar upplýsingar að viðeigandi viðbót við greinina þyrftirðu að sannfæra viðurkennda fréttastofu um að birta fyrst söguna þína og þá færi hún í gegnum ferli sem er ekki ósvipað og ritrýni. Blaðamaður eða fréttamaður, ritstjóri eða einhver annar starfsmaður myndi staðfesta söguna og ef það væri vandkvæðum bundið myndu kannski lögfræðingar og aðalritstjórar kanna málið enn frekar. Þetta ferli er viðhaft til þess að tryggja að fréttaumfjöllun sé sanngjörn og rétt.
Wikipedia er ekki fær um að sjá um þetta staðfestingarferli, og það er þess vegna sem reglurnar um engar frumrannsóknir og sannreynanleika eru svona mikilvægar.
Ef blaðið myndi birta fréttina, þá gætirðu bætt við þessum upplýsingum í greinina þína á Wikipediu og vísað í blaðagreinina sem heimild fyrir upplýsingunum.
Heimildir
[breyta frumkóða]Greinar ættu að styðjast við traustar, trúverðugar heimildir frá þriðja aðila sem hefur gott orðspor fyrir að sannreyna staðreyndir, nákvæmni og góð vinnubrögð. Ef um fræðilegt viðfangsefni er að ræða ættu heimildirnar helst að vera ritrýndar. Heimildirnar ættu einnig að vera viðeigandi fyrir fullyrðingarnar: sérkennilegar og langsóttar fullyrðingar gera sterkari kröfu um heimildir.
Heimildabyrðin
[breyta frumkóða]Heimildabyrðin liggur hjá þeim sem eykur við efni eða vill halda efni sem er þegar til staðar. Höfundar ættu þess vegna að vísa í heimildir. Ef engar traustar viðurkenndar heimildir frá þriðja aðila eru fyrir hendi, þá ætti Wikipedia ekki að hafa grein um efnið.
Fjarlægja má allt efni sem ekki er stutt heimildum. Sumir gætu þó andmælt ef þú fjarlægir efni án þess að gefa fólki færi á að finna heimildirnar. Ef þú vilt fara fram á að heimildir séu gefnar fyrir einhverri fullyrðingu er ágæt hugmynd að byrja á að vekja athygli á henni á spjallsíðu greinarinnar. Einnig gætirðu merkt greinina með sniðinu {{Heimildir}} eða merkt viðeigandi málsgrein í greininni með sniðinu {{Heimild vantar}}. Þú gætir einnig gert setningarnar sem ekki eru heimildir fyrir ósýnilegar með því að setja <!-- á undan þeim hluta greinarinnar sem þú vilt ekki að sjáist og --> á eftir honum og þannig fjarlægt hluta greinarinnar tímabundið og án þess að eyða honum, þar til heimildir hafa verið fundnar.
Gæta þarf sérstaklega að ævisögum lifandi fólks, vegna þess að ævisögur sem innihalda fullyrðingar án stuðnings heimilda gætu haft skaðleg áhrif á líf fólks og gætu haft lagalegar afleiðingar. Ef greinin fjallar um lifandi manneskju, fjarlægðu þá strax fullyrðingarnar sem vantar heimildir ef þær gætu verið túlkaðar sem gagnrýni á manneskjuna eða koma illa út fyrir hana; ekki færa fullyrðingarnar á spjallsíðuna. Þetta á einnig við um lifandi manneskjur sem getið er í greinum um eitthvað annað en manneskjuna sjálfa. Um þetta, sjá einnig ævisögur lifandi fólks.
Ótraustverðar heimildir
[breyta frumkóða]Almennt gildir að heimildir teljast ótraustverðar ef þær eru þekktar af því að standa illa að staðfestingu staðreynda, staðfesta sjaldan eða aldrei eða lúta ekki ábyrgri ritstjórn.
Stundum er einungis hægt að finna eitthvað fullyrt í ótraustverðum heimildum svo sem í slúðurblöðum. Ef fullyrðingin er tiltölulega ómikilvæg, fjarlægðu hana þá. Ef hún er nógu mikilvæg til þess að halda henni, vísaðu þá í heimildina í meginmáli. Til dæmis: „Samkvæmt vikuritinu Séð og heyrt...“
Heimildir gefnar út á eigin vegum
[breyta frumkóða]Allir geta sett upp vefsíðu eða kostað útgáfu bókar og haldið því síðan fram að þeir séu sérfræðingar á einhverju sviði. Af þeim sökum eru heimildir gefnar út á eigin vegum, svo sem persónulegar heimasíður og bloggsíður, ekki ásættanlegar heimildir. Gera má undantekningu í tilfelli vel þekktra, atvinnufræðimanna á viðeigandi sviði eða atvinnustjórnmálamanna og vel þekktra atvinnublaðamanna, sem hafa útbúið efni á eigin vegum. Í sumum tilvikum getur verið að heimildir af þessu tagi séu ásættanlegar, svo fremi sem verk þeirra hafa áður verið gefin út af traustum útgefendum sem eru ekki á þeirra vegum. Gætið ykkar þó: Ef upplýsingarnar á bloggsíðu fræðimannsins eru raunverulega þess virði að þær séu hafðar eftir honum, þá er allt eins líklegt að einhver sé búinn að því. Eins er ekkert því til fyrirstöðu að vísa í vel þekkta heimasíðu Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra til stuðnings fullyrðinga um stjórnmálaviðhorf hans (enda má það teljast traust heimild um viðhorf hans og hægt er að sannreyna fulyrðingarnar). En aftur er gott að hafa í huga að flest það sem skiptir máli er haft eftir honum í blöðunum hvort sem er.
Heimildir á eigin vegum í greinum um þær sjálfar
[breyta frumkóða]Heimildir sem eru gefnar út á eigin vegum einhvers sem og ótraustar útgefnar heimildir ætti einungis að nota sem heimildir um þær sjálfar og einungis í greinum um þær sjálfar. Til dæmis mætti styðjast við upplýsingar af heimasíðu Stormfront í umfjöllun um hana sjálfa í grein um Stormfront, svo lengi sem upplýsingarnar eru markverðar, ekki óhóflega sjálfsupphefjandi og ekki í mótsögn við traustar útgefnar heimildir frá þriðja aðila. Heimildir sem þessar má ekki styjast við um upplýsingar un neinn annan eða neitt annað.
Grein á Wikipediu um ótraust dagblað ætti ekki að hafa eftir dagblaðinu fullyrðingar um þriðja aðila á þeim forsendum að það þurfi að gefa dæmi um fréttir blaðsins, nema fréttin hafi birst í öðrum traustari miðlum.
Aðrar athugasemdir
[breyta frumkóða]Það er ekki þar með sagt að Wikipedia sé rétti staðurinn til að birta ákveðnar upplýsingar bara af því að hægt er að sannreyna þær. Sjá Hvað Wikipedia er ekki. Og bara af því að upplýsingar eru sannar, þá þýðir það ekki að þær uppfylli kröfurnar um sannreynanleika — það þarf að vera hægt að vísa í góðar heimildir ef upplýsingar eiga að vera á Wikipediu (en auðvitað ættirðu að geta fundið góðar heimildir fyrir upplýsingum sem eru sannar, þ.e. ef um alfræðilegt efni er að ræða á annað borð). Önnur afleiðing þessarar reglu er sú að frumrannsóknir mun ávallt skorta heimildir og eiga því ekki heima í alfræðiritinu (það er skilgreiningaratriði að þegar eitthvað hefur verið gefið út af traustum aðilum, þá er ekki lengur um nýjar og frumlegar rannsóknir að ræða). Sjá engar frumrannsóknir.
Til umhugsunar: athugasemd Tacitusar
[breyta frumkóða]nos consensum auctorum secuturi, quae diversa prodiderint sub nominibus ipsorum trademus. Fyrst við ætlum að fylgja eftir því sem höfundar eru á einu máli um, þá skulum við geta þess sem þá greinir á um og nafngreina þá. Tacitus, Annálarnir, XIII.20.
Heimild
[breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Wikipedia:Verifiability“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 4. maí 2006.
Tengt efni
[breyta frumkóða]
Wikipedia samfélagið | |
---|---|
Potturinn | Samfélagsgátt | Gátlistinn | Handbókin | |
Reglur: Hlutleysisreglan | Sannreynanleikareglan | Engar frumrannsóknir |
Æviágrip lifandi fólks | Máttarstólpar Wikipedia | Markvert efni | |
Önnur stefnumál: Nafnavenjur | Flokkakerfið | Viðhald | Deilumál | Framkoma á Wikipediu | |
Notendur: Möppudýr | Vélmenni | Hver erum við? | Notendur eftir breytingafjölda | Notendakassar | |
Annað: Samvinna mánaðarins | Tillögur að úrvalsgreinum | Tillögur að gæðagreinum | Merkisáfangar | Hugtakaskrá |