Fara í innihald

Wikipedia:Grein mánaðarins/08, 2019

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Policarpa Salavarrieta (26. janúar 1795 – 14. nóvember 1817), einnig þekkt undir nafninu La Pola, var nýgranadísk saumakona sem njósnaði fyrir ameríska byltingarmenn um hersveitir spænska heimsveldisins á 19. öld. Spænskir konungssinnar handsömuðu hana að lokum og létu taka hana af lífi fyrir landráð. Hún er í dag talin meðal sjálfstæðishetja Kólumbíu og kólumbíski konudagurinn er tileinkaður henni.

Þar sem fæðingarvottorð hennar hefur aldrei fundist er óvíst hvert skírnarnafn hennar var. Faðir hennar kallaði hana Apoloniu í erfðaskrá sinni og presturinn Salvador Contreras, sem lögfesti hana þann 13. desember 1802, staðfesti þá nafngift. Nánasti ættingi hennar var bróðir hennar, Bibiano, þar sem hún hafði tekið hann í gæslu sína eftir að foreldrar þeirra létust. Þegar hersveitir í Guaduas fóru að leita að henni tók hún upp viðurnefnið Policarpa.

Í fölsuðu vegabréfi sem Policarpa notaði til þess að komast inn og út úr Bogotá árið 1817 notaði hún nafnið „Gregoria Apolinaria“. Andrea Ricaurte de Lozano, sem Policarpa bjó með og vann fyrir í Bogotá, og skæruliðaforinginn Ambrosio Almeyda, kölluðu hana einnig þessu nafni. Samtímamenn hennar kölluðu hana einfaldlega La Pola, en hún er þekktust í dag undir nafninu Policarpa Salavarrieta.