Wikipedia:Grein mánaðarins/06, 2019

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Bundesarchiv Bild 183-R69173, Münchener Abkommen, Staatschefs.jpg

München-sáttmálinn var milliríkjasamningur sem gerður var milli Bretlands, Frakklands, Ítalíu og Þýskalands árið 1938. Samningurinn var undirritaður þann 30. september 1938 í kjölfar ráðstefnu í München sem ætlað var að finna friðsamlega lausn á deilum þjóðanna um Súdetaland, sem Þjóðverjar gerðu tilkall til en var þá innan landamæra Tékkóslóvakíu.

Tilgangur ráðstefnunnar var að ræða um tilkall sem Adolf Hitler, einræðisherra Þýskalands, hafði gert til Súdetalands. Þar sem Súdetaland var aðallega byggt þýskumælandi fólki hélt Hitler því fram að það tilheyrði Þýskalandi með réttu og hótaði að gera innrás í Tékkóslóvakíu til að innlima það.

Forsætisráðherrar Bretlands og Frakklands, Neville Chamberlain og Édouard Daladier, vildu fyrir alla muni forðast stríð gegn Þýskalandi og því kölluðu þeir með milligöngu Benito Mussolini, forsætisráðherra Ítalíu, til ráðstefnu til að ræða um stöðu Súdetalands. Niðurstaðan varð sú að Chamberlain og Daladier lögðu blessun sína við að Þjóðverjar innlimuðu þýskumælandi héruð Tékkóslóvakíu.

Bretar og Frakka vonuðust til þess að koma í veg fyrir stríð gegn Þjóðverjum með samningnum. Undanlátsstefna þeirra frestaði stríði þó ekki lengi því næsta ár réðust Þjóðverjar inn í Pólland og Chamberlain og Daladier neyddust því til að lýsa yfir stríði. Með þessu hófst seinni heimsstyrjöldin.

Fyrri mánuðir: Dred Scott-máliðSurturÁhrif erlendra hvalveiðimanna á íslenskt samfélag