Wikipedia:Grein mánaðarins/05, 2019

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Dred Scott-málið (formlega nefnt Dred Scott gegn Sandford) var dómsmál sem fór fyrir hæstarétt Bandaríkjanna í ákæru Dreds Scott gegn John F. A. Sanford árið 1857. Í málinu var dæmt gegn Dred Scott, svörtum þræl sem hafði reynt að gera tilkall til frelsis síns í ljósi þess að hann hefði búið um hríð í fylki þar sem þrælahald var bannað með lögum.

Í dómi hæstaréttarins var úrskurðað að Dred og eiginkona hans, Harriet, ættu ekki heimtingu á frelsi sínu og jafnframt að blökkumenn gætu ekki undir neinum kringumstæðum verið bandarískir ríkisborgarar. Í dómnum var enn fremur kveðið á um að öll lög sem kæmu í veg fyrir að þrælaeigendur færu með þræla sína hvert sem þá lysti innan Bandaríkjanna væri andstæð stjórnarskrá landsins. Þar með voru ýmis gömul lög sem höfðu átt að stemma stigu við útbreiðslu þrælahalds til nýrra bandarískra landsvæða felld úr gildi.

Á seinni dögum hefur ákvörðunin fengið á sig það orð að vera eitt versta glappaskot í sögu hæstaréttarins og er jafnvel talað um hana sem eina kveikjuna að bandarísku borgarastyrjöldinni.