Dred Scott

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dred Scott
FæddurU.þ.b. 1799
Dáinn17. september 1858 (u.þ.b. 59 ára)
St. Louis, Missouri, Bandaríkjunum
DánarorsökBerklar
ÞjóðerniBandarískur
StörfÞræll, síðar flutningamaður
Þekktur fyrirDred Scott-málið
MakiHarriet Robinson Scott
BörnEliza, Lizzie

Dred Scott (um 1799 – 17. september 1858) var bandarískur þræll sem reyndi árið 1857 að lögsækja eiganda sinn til þess að vinna frelsi sitt og fjölskyldu sinnar. Dómsmálið hét formlega Dred Scott gegn Sandford en er jafnan kennt við Scott og kallað Dred Scott-málið. Scott hélt því fram að þar sem hann og kona hans, Harriet Robinson Scott, hefðu búið í átta ár í fylkjum þar sem þrælahald var ólöglegt, hefði þeim í reynd þegar hlotnast frelsi.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Dred Scott fæddist í þrældóm í kringum árið 1799 í Virginíu. Hann fluttist ásamt húsbónda sínum, Peter Blow, til Missouri árið 1830. Eftir að Blow lést tveimur árum síðar keypti herskurðlæknirinn John Emerson Scott og flutti hann með sér til Illinois og síðan til virkisbæjar í Wisconsin, en á báðum þessum stöðum var þrælahald bannað með lögum.[1]

Í þjónustu Emersons í Wisconsin kvæntist Scott Harriet Robinson, ambátt dómara að nafni Lawrence Taliaferro. Taliaferro sjálfur sá um formlega hjónavígslu fyrir parið. Þessi athöfn fól ekki í sér lagalega viðurkenningu á frelsi þeirra en það að hafa gengið í formlegt hjónaband í umsjá dómara varð seinna lykilatriði í málssókn Scotthjónanna sem átti að sýna fram á að komið hefði verið fram við þau eins og frjálsa ríkisborgara Bandaríkjanna. Venjulega hlutu „hjónabönd“ þræla enga lagalega stöðu[2] þar sem hjónaband var samningur milli hjónanna og ríkisins og þrælar gátu ekki gerst aðilar að lagalega bindandi samningum. Þess vegna mátti líta svo á að með giftingarathöfninni hefðu húsbændur Dreds og Harrietar á vissan hátt viðurkennt stöðu þeirra sem ríkisborgara. Eftir giftinguna seldi Taliaferro þó Harriet Emerson sem kom sem áður fram við hana eins og ambátt. Hjónin eignuðust tvær dætur, Elizu og Lizzie, og sneru aftur til Missouri með þær árið 1838.

Eftir dauða Emersons reyndi Scott að kaupa frelsi sitt og fjölskyldu sinnar frá ekkju Emersons, Irene, en hún þáði ekki boð hans. Scott ákvað því árið 1850 að fara með mál fyrir rétt og krefjast frelsis síns í ljósi þess að hann hefði búið í átta ár í fylkjum þar sem þrælahald var ólöglegt og naut engrar lagalegrar viðurkenningar. Henry Taylor Blow, sonur Peters Blow og æskuvinur Scotts, fjármagnaði málssókn hjónanna og veitti þeim lagalega ráðgjöf í málaferlunum. Eftir þrjár áfrýjanir var dómsmálið lagt fyrir hæstarétt Bandaríkjanna árið 1857.

Hæstiréttur Bandaríkjanna dæmdi þann 6. mars á móti Scott með sjö atkvæðum gegn tveimur. Niðurstaða réttarins var sú að hvorki Scott né aðrir Afrískættaðir Bandaríkjamenn teldust til bandarískra ríkisborgara og því hefði Scott ekki rétt til að höfða mál fyrir bandarískum rétti. Enn fremur neitaði hæstirétturinn því að Scott hefði hlotnast frelsi með því að búa í Missouri því stjórnarskráin kvæði á um að ríkisstjórnin mætti ekki svipta neinn löglegri eign sinni án málsmeðferðar. Þar með væru í reynd öll lög sem bönnuðu eða takmörkuðu þrælahald í Bandaríkjunum andstæð stjórnarskránni.

Roger B. Taney, forseti hæstaréttarins, hafði vonast til þess að útkljá deilur um þrælahald og valdsvið Bandaríkjaþings með ákvörðuninni, en úrskurðurinn hafði þveröfug áhrif. Dómurinn vakti almenna hneykslun og kynti enn frekar undir deilum sem áttu eftir að leiða til Þrælastríðsins nokkrum árum síðar. Dómurinn var í reynd ógiltur með frelsisyfirlýsingu Abrahams Lincoln Bandaríkjaforseta árið 1863 og með þrettándu, fjórtándu og fimmtándu viðaukunum við stjórnarskrá Bandaríkjanna í kjölfar stríðsins.

Eftir lyktan málsins ákvað Henry Taylor Blow að kaupa Scott-fjölskylduna af fr. Emerson og veitti þeim þannig frelsi sitt. Fjölskyldan flutti til St. Louis, þar sem Scott vann í stuttan tíma sem flutningamaður hjá hóteli í borginni. Hann var þó ekki lengi frjáls maður, því hann lést úr berklum í september næsta ár.[3]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Þórður Einarsson (30. október 1957). „Lognið á undan storminum“. Alþýðublaðið. Sótt 23. febrúar 2019.
  2. Darlene Goring. „The History of Slave Marriage in the United States“. The John Marshall Law Review. Louisiana State University Law Center, 2006: 299-347. .
  3. Alan Axelrod (2008). Profiles in Folly: History's Worst Decisions and why They Went Wrong. bls. 192–.