Fara í innihald

Wikipedia:Almenningur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Wikipedia:Almenningseign)

Höfundaréttur varir í takmarkaðan tíma. Samkvæmt íslenskum höfundalögum varir höfundaréttur að bókmennta- og listaverkum í 70 ár eftir dauða höfundar. Ef höfundur er ókunnur varir rétturinn þó aðeins í 70 ár eftir útgáfu. Höfundaréttur að hljóðupptökum og ljósmyndum sem ekki eru listaverk varir í 50 ár eftir að þær eru teknar. Verk sem ekki eru lengur háð höfundarétti verða hér kölluð almenningur (enska „public domain“) og þau má nota á Wikipediu.

Fræðitextar

[breyta frumkóða]

Wikipedia getur hagnýtt texta sem eru í almenningi. Texti úr gömlum fræðiritum getur til dæmis myndað undirstöðu fyrir nýjar greinar eða hluta af greinum. Greinin Heimdallur notar til dæmis texta eftir fræðimanninn Finn Jónsson sem dó 1934. Að nota gamlan texta á þennan hátt er fljótleg leið til að bæta upplýsingum við Wikipediu. Hún er þó alls ekki gallalaus. Grein Finns er fróðleg og nokkuð ítarleg en brátt verður liðin öld síðan hún var skrifuð og skilningi manna á goðafræði hefur farið fram síðan þá. Finnur er þarna auk þess nokkuð fullyrðingaglaður og ekki jafnhlutlaus í umfjöllun og æskilegt er að Wikipedia sé. Þar sem texti hans er í almenningi er þó hverjum sem er heimilt að breyta honum og bæta og hafa sumir mestu vankantarnir þegar verið sniðnir af.

Ljósmyndalist

[breyta frumkóða]
Sigfús Eymundsson tók þessa ljósmynd af fyrsta bílnum á Íslandi árið 1904. Hún er í almenningi, jafnvel þótt hún yrði talin listaverk.

Þekktasti íslenski ljósmyndarinn sem nú er ótvírætt kominn í almenning er Sigfús Eymundsson (1837 - 1911). Hann tók fjöldamargar myndir bæði af Reykjavík og bæjum úti á landi en auk þess myndir af fólki og atburðum. Margar þeirra myndu sóma sér vel í greinum á Wikipediu. Af öðrum ljósmyndurum má nefna Pétur Brynjólfsson (1882-1930), sem tók margar fróðlegar myndir í Reykjavík, og Magnús Ólafsson (1862-1937). Magnús var mjög afkastamikill og kunnáttusamur ljósmyndari og eftir hann liggja margar af þekktustu íslensku ljósmyndunum frá fyrri hluta 20. aldar. Öll verk hans eru laus undan höfundarétti síðan 1. janúar 2008.

Flestar gamlar ljósmyndir af þessu tagi eru geymdar í söfnum eins og Þjóðminjasafninu eða Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Bæði þessi söfn sýna hluta af ljósmyndakosti sínum á netinu en yfirleitt er þá einhvers konar vatnsmerki bætt við myndirnar til að torvelda notkun þeirra í afleiddum verkum. Því verður að leita á önnur mið til að nálgast ljósmyndir og oft lítið annað að gera en að skanna þær inn úr útgefnum bókum.

Hugsanlegt er að í einhverjum tilfellum þurfi svo mikla kunnáttusemi og listfengi til að framkalla og prenta gamla ljósmynd — filman eða glerplatan er ef til vill verulega löskuð — að til verði eitthvað sem gæti kallast sjálfstætt höfundaverk og að nýr höfundaréttur verði til þeim til handa sem endurgerir myndina. Venjulega er þó ekki ástæða til að hafa áhyggjur af þessum möguleika nema eitthvað í þessa veru sé sérstaklega tekið fram í heimildinni sem notuð er. Mjög ólíklegt er að venjuleg framköllun og prentun á mynd teljist nýtt listaverk.

Ljósmyndir sem ekki eru listaverk

[breyta frumkóða]
Finnska höfundaréttarráðið hefur úrskurðað að þótt þessi ljósmynd sé af sögulegum atburði sé hún „aðeins venjuleg fréttaljósmynd“ og njóti ekki höfundaréttar sem listaverk. Myndu íslenskir dómstólar komast að sömu niðurstöðu?

Í íslenskum höfundalögum segir: „Til bókmennta og lista teljast samið mál í ræðu og riti, leiksviðsverk, tónsmíðar, myndlist, byggingarlist, kvikmyndir, ljósmyndalist, nytjalist og aðrar samsvarandi listgreinar, á hvern hátt og í hverju formi sem verkið birtist.“ Ljóst er því að þær ljósmyndir sem heyra undir ljósmyndalist njóta verndar í 70 ár eftir dauða höfundar. Þetta á hins vegar ekki við um allar ljósmyndir. Í 49. grein laganna er vikið að ljósmyndum „sem ekki njóta verndar laga þessara sem listaverk“ og kemur í ljós að þær njóta einkaréttar sem er hliðstæður við höfundarétt í 50 ár eftir að þær eru gerðar.

Lögin gefa engar beinar leiðbeiningar um það hvaða ljósmyndir teljist listaverk og hverjar ekki. Til að skýra lögin má reyna að leita í greinargerðina með þeim frá því að þau voru til meðferðar á Alþingi. Þar má lesa:

Ljósmyndagerð á sér ekki langa sögu og er í nánari tengslum við tækni en hin eldri myndlist. Alþjóðleg viðurkenning er samt fengin á því, að ljósmyndaverk geti haft listgildi. Í Bernarsáttmálanum, eins og frá honum var gengið árið 1948, eru ljósmyndaverk nefnd í flokki þeirra listgreina, sem undir höfundarétt falla. Samt er ljóst, að þetta á ekki við um meginhluta ljósmynda, sem er á venjulegu iðnaðarsviði. ... Í 1. gr. gildandi laga nr. 49 frá 1943 eru ljósmyndir taldar meðal verndaðra verka, og tekur það vitanlega aðeins til listrænna ljósmynda. Þykir ekki þörf að gera breytingu á þessu, enda er þá líka fullnægt kröfum Bernarsáttmálans. Um vernd annarra ljósmynda eru svo sett sérákvæði í 49. gr. - Alþingistíðindi 1971-A, síða 1278.

Þarna kemur skýrt fram að flestar ljósmyndir séu ekki listaverk enda sé meginhluti þeirra "á venjulegu iðnaðarsviði". Þetta er ennþá ekki fullkomlega ljóst en hér getur varla verið átt við fjölskyldumyndir. Líklegra virðist að átt sé við að atvinnuljósmyndarar séu venjulega ekki að framleiða listaverk heldur stunda iðngrein, svipað og iðnaðarmenn sem mála hús. Hættulegt væri þó að túlka þetta þannig að hvaða fréttaljósmynd sem er sé ekki listaverk. Þær sem þykja sérlega fallegar og vel heppnaðar geta endað á listsýningum og verið prentaðar aftur og aftur. Það er þá skýr vísbending um að slík mynd hafi verulegt listrænt gildi.

Eftir því sem sá sem þetta skrifar kemst næst hefur aðeins einu sinni komið mál fyrir Hæstarétt þar sem munurinn á ljósmyndalist og öðrum ljósmyndum var nefndur til sögunnar. Þar bar hins vegar svo við að bæði verjandi og sækjandi voru sammála um að myndirnar væru listaverk, enda höfðu þær verið valdar til að setja á sýningu erlendis. Hæstiréttur skoðaði því ekki myndirnar og lagði ekki sjálfstætt mat á listrænt gildi þeirra.

Til er íslensk handbók um höfundarétt frá 1994 eftir Pál Sigurðsson lagaprófessor. Þar er vikið að ljósmyndum og ljósmyndalist:

Af augljósum ástæðum fullnægir mikill meiri hluti þeirra ljósmynda, sem teknar eru, ekki því lágmarksskilyrði um listfengi og frumleika að þær teljist til eiginlegra höfundaverka samkvæmt höfundarétti. Varasamt er hins vegar að tala um ákveðna flokka verka í þessu sambandi, í aðgreiningarskyni, því að vafalaust getur, eftir atvikum, reynt á listræn og sjálfstæð efnistök höfundar á öllum sviðum ljósmyndunar þótt fáar myndir hlutfallslega fullnægi fyrrnefndu skilyrði.[1]

Ef marka má þessa efnisgrein hafði lítið breyst í túlkun þessa ákvæðis frá 1971 er lögin voru sett. Ef eitthvað er er Páll enn afdráttarlausari en greinargerð þingsins og segir að "mikill meiri hluti" ljósmynda flokkist ekki undir ljósmyndalist. Samkvæmt þessu mætti búast við að til að ljósmynd teldist listaverk þyrfti hún að hafa meira listrænt gildi en dæmigerð ljósmynd og jafnvel verulega meira listrænt gildi.

Í máli sem kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur árið 2008 var ágreiningur um tvær tilteknar ljósmyndir. Stefnandi taldi að ljósmyndirnar væru listrænar en stefndi taldi að svo væri ekki. Myndirnar birtust í Séð og heyrt, 10. janúar 2008, og sýndu fólk á veitingastað í Reykjavík. Niðurstaða dómsins var þessi: „Dómurinn getur ekki fallist á að umræddar ljósmyndir teljist listaverk í skilningi 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 73/1972. Til þess þykir þær skorta bæði listræna sköpun og frumleika.“[2] Í einu máli frá 2012 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur að portrettmyndir af einstaklingum teldust ekki listrænar.[3]

Í öðru máli, frá 2012 við sama dómstól, var kveðið á um að stefnandi bæri sönnunarbyrði þess að tiltekin ljósmynd væri listræn.[4] Í þessu sama máli dæmdi Hæstiréttur að í þessu tilviki teldist myndin bæði vera listræn og í höfundarrétti.[5]

Altaristaflan í kirkjunni á Þingeyri er eftir Þórarin B. Þorláksson og þar með í almenningi. Ljósmyndina af töflunni sem hér er notuð tók notandi Wikimedia Commons og gaf út undir frjálsu leyfi.

Verk listamanna sem dóu á árinu 1953 eða áður eru nú í almenningi. Af þekktum listmálurum eru þar helstir Muggur (1891-1924), Þórarinn B. Þorláksson (1867 - 1924) og Sigurður málari (1833 - 1874). Auk þess má nefna að allar handritaskreytingar og teikningar frá fyrri öldum eru lausar undan höfundarétti. Vel fer á því að nota gömul listaverk í Wikipediugreinum. Rétt er þó að benda á að til að gæta fyllsta samræmis við íslensk höfundalög þarf að athuga heimildina.

Oft er ljósmynd milliliður þegar listaverk er gefið út á prenti. Ólíklegt er að ljósmynd af listaverki geti sjálf kallast listaverk en hugsanlegt er að hún myndi njóta verndar sem annars konar ljósmynd í 50 ár frá því að hún er tekin. Öruggast er því að notast við listaverkabækur sem gefnar eru út fyrir meira en 50 árum. Sá hængur er á að slíkar bækur eru fáar og að mestu prentaðar í svarthvítu. Því getur reynst erfitt fyrir almenning að nýta sér listaverk sem komin eru í almenning. Ýmislegt var þó gefið út fyrir meira en 50 árum, til dæmis Dimmalimm eftir Mugg en óhætt hlýtur að vera að skanna inn fyrstu útgáfur þeirrar bókar. Auk þess getur auðvitað einhver notandi Wikipediu reynt að komast að upphaflegum listaverkum og ljósmynda þau en fá listaverk eru geymd þar sem bæði er leyfilegt og framkvæmanlegt að ljósmynda þau.

Rétt er að benda á að í Bandaríkjunum hefur dómstóll skorið úr um að ljósmyndir af listaverkum njóti engrar sjálfstæðrar verndar. Ekki er þó ljóst að það sama myndi gilda á Íslandi og reyndar er það ef til vill heldur ólíklegt þar sem ólistrænum ljósmyndum er áskilinn sérstakur einkaréttur í íslenskum lögum en svo er ekki í Bandaríkjunum.

Björt mey og hrein - Þessi upptaka af laginu Björt mey og hrein var gerð einhvern tíma fyrir 1912. Ljóðið er eftir Stefán Ólafsson (1619-1688) en lagið er þjóðlag og má finna nótur að því í þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar (1906-1909). Þar sem upptakan var gerð fyrir meira en 50 árum er flutningsréttur útrunninn. Tónverkið og textinn eru einnig í almenningi. Upptakan er fengin frá Ísmús sem fjallar ekkert um höfundarétt og virðist ekki áskilja sér hann á neinum forsendum, enda óljóst hvaða forsendur það gætu verið. Allt bendir því til að þessi upptaka sé að fullu í almenningi og óhætt að hlaða henni upp á Wikimedia Commons.

Tónskáld eiga höfundarétt að verkum sínum eins og aðrir listamenn og í jafnlangan tíma. Þeir sem semja texta við tónlist njóta einnig höfundaréttar eins og hver önnur skáld. Listflytjendur njóta hins vegar ekki höfundaréttar á sama hátt heldur í 50 ár frá því að hljóðupptaka er gerð. Hljómplöturnar sem útgáfufyrirtækið Tónika gaf út á stofnári sínu, 1954, eru til dæmis ekki lengur háðar rétti listflytjenda. Sennilega mætti hver sem er endurútgefa slíkar plötur án sérstaks leyfis. Þetta er hins vegar ekki nóg til að efnið sé í almenningi en til þess verða réttindi tónskáldsins og textahöfundarins einnig að vera útrunnin.

Ef einhver hefði sungið Ísland ögrum skorið inn á hljómplötu árið 1955 og gefið hana út sama ár væru réttindin sem fylgdu listflutningnum útrunnin. Hins vegar þyrfti einnig að athuga tónsmíðina og textann. Eggert Ólafsson orti kvæðið en hann dó 1768 og verk hans eru í almenningi. Sigvaldi Kaldalóns samdi hins vegar lagið. Hann dó 1946 og verk hans eru því háð höfundarétti til 1. janúar 2017. Þessi ímyndaða upptaka yrði því ekki í almenningi að fullu fyrr en eftir 10 ár samkvæmt núgildandi lögum. Áður en það gerist má þó alveg eins búast við að listflytjendarétturinn verði framlengdur. Í Evrópu eru til dæmis sterkir þrýstihópar sem vilja framlengja listflytjendarétt upp í 95 ár eftir upptöku en þannig eru lögin nú þegar í Bandaríkjunum. Ef fram kæmi ESB-tilskipun um slíkt yrði Alþingi að fara eftir henni vegna EES-samningsins.

Nýlega hefur verið gefið út nokkuð af fyrstu tónlistarupptökum sem gerðar voru á Íslandi. Kvæðamannafélagið Iðunn hefur þannig gefið út Silfurplötur Iðunnar og Smekkleysa geisladiskinn Raddir. Á þessum diskum má finna upptökur allt frá byrjun 20. aldar. Bæði tónskáldin og ljóðskáldin eru í flestum tilfellum í almenningi eða jafnvel óþekkt og upptökurnar oft meira en 50 ára gamlar. Einnig má benda á vefinn Ísmús en þar má nálgast elstu íslensku hljóðupptökurnar. Þetta efni er væntanlega í almenningi. Þó er rétt að athuga að þegar gamlar upptökur eru gefnar út þarf oft að vinna nokkuð með þær til að þær njóti sín sem best enda eru frumeintökin gerð með frumstæðri tækni og oft nokkuð illa farin. Hugsanlegt er að í einhverjum tilfellum krefjist slík hljóðvinnsla svo mikillar kunnáttusemi og listfengi að til verði nýtt höfundaverk, hliðstætt og drepið var á að ofan með listilega endurgerðar ljósmyndir. Það hlytu þó að vera algjör undantekningartilvik og almennt hlýtur að teljast ólíklegt að hljóðvinnsla veiti ný réttindi, að minnsta kosti virðist það ekki vera raunin í grannlöndunum.

Tilvísanir

[breyta frumkóða]
  • Höfundalög Íslenska lýðveldisins
  • „Hvaða lög gilda um notkun mynda (ljósmynda/listaverka) þegar 70 ár eru liðin frá láti listamanns?“. Vísindavefurinn.