Fara í innihald

Vincent van Gogh

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vincent Willem van Gogh)
Sjálfsmynd frá 1887

Vincent Willem van Gogh (30. mars 185329. júlí 1890) var hollenskur listmálari sem flokkaður er með póstimpressjónistunum. Einkenni á verkum hans eru sterkir litir og sýnilegar pensilstrokur. Hann er einn af áhrifamestu myndlistarmönnum vestrænnar myndlistar. Hann naut engrar velgengni meðan hann lifði en verk hans eru í dag með þeim verkum sem hæst verð fá á listaverkauppboðum. Hann þjáðist af geðveiki þótt ekki sé vitað hvers eðlis hún var nákvæmlega. Hann var oftar en einu sinni lagður inn á geðspítala og að lokum framdi hann sjálfsmorð.

Van Gogh var af fjölskyldu úr efri millistétt og fæddist í Groot-Zundert í Norður-Brabant í Hollandi. Sem barn þótti hann þögull, alvarlegur og hæglátur. Hann fékk ungur starf sem listaverkasali en missti áhugann á því eftir að hann var fluttur til London. Hann gerðist þá mótmælendatrúboði í Suður-Hollandi og flakkaði um, einmana og slæmur til heilsunnar, þar til hann hóf að mála 1881. Þá hafði hann flutt aftur heim til foreldra sinna. Yngri bróðir hans, Theo van Gogh, studdi hann fjárhagslega og bræðurnir áttu í reglulegum bréfasamskiptum alla ævi. Fyrstu verk van Goghs voru kyrralífsmyndir og myndir af bændafólki máluð með dökkum litum. Árið 1886 flutti hann til Parísar þar sem hann kynntist framúrstefnulistamönnum þess tíma, eins og Émile Bernard og Paul Gauguin, sem vildu gera uppreisn gegn impressjónismanum. Verk hans tóku að breytast, urðu bjartari og litríkari, sérstaklega meðan hann dvaldi í Arles í Suður-Frakklandi árið 1888. Þar málaði hann meðal annars myndraðir af ólífutrjám, hveitiökrum og sólblómum.

Van Gogh þjáðist af reglulegum geðhvörfum og ranghugmyndum, og þótt hann hefði áhyggjur af geðheilsu sinni átti hann það til að hirða lítið um líkamlegt ástand sitt, borðaði lítið og drakk mikið. Vinátta þeirra Gauguins endaði þegar hann skar af sér hluta annars eyrans með rakhníf í reiðikasti. Hann var lagður inn á geðsjúkrahús, meðal annars í Saint-Rémy þar sem hann málaði fræga myndröð af herbergi sínu. Eftir það flutti hann í Auberge Ravoux í Auvers-sur-Oise í nágrenni Parísar. Þar hóf hann meðferð hjá hómópatalækninum Paul Gachet. Þunglyndið versnaði og 27. júlí 1890 er talið að hann hafi skotið sig í brjóstið með skammbyssu. Hann lést af sárum sínum tveimur dögum síðar.

Van Gogh naut engrar velgengni á meðan hann lifði og var álitinn geðsjúklingur og misheppnaður listamaður. Eftir sjálfsmorðið var tekið að líta á hann sem misskilinn snilling á mörkum geðveiki og snilligáfu. Snemma á 20. öld óx frægð hans og nýjar listastefnur, fauvisminn og þýski expressjónisminn, urðu fyrir áhrifum frá honum. Næstu áratugina nutu verk hans vaxandi velgengni og harmræn saga hans var tengd við staðalmyndina af kvalda listamanninum. Í dag eru sum verka van Goghs með dýrustu verkum sem seld hafa verið á uppboðum. Van Gogh-safnið í Amsterdam var stofnað árið 1973 og geymir stærsta safn verka hans, að stofni til verk sem Theo átti og erfði eftir bróður sinn og síðan eiginkona hans, Johanna van Gogh-Bonger, þegar Theo lést aðeins ári síðar.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.