Vilfredo Pareto

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vilfredo Pareto

Vilfredo Pareto (15 júlí 1848 - 19 ágúst 1923) var ítalskur verkfræðingur, félagsfræðingur og hagfræðingur. Framlög Pareto til hagfræðinnar voru margvísleg, þar á meðal framlög til rannsókna á tekjudreifingu og efnahagslegri hagkvæmni. Pareto var lærisveinn Léon Walras og tók við stöðu hans sem prófessor í hagfræði við Lausanne háskóla í Sviss, og er því oft kenndur við Lausanne-skólann í hagfræði.

Ævi og störf[breyta | breyta frumkóða]

Pareto fæddist í París, en faðir hans, sem var ítalskur markgreifi, hafði flúið Ítalíu vegna stjórnmálaskoðana sinna. Móðir hans var frönsk. Pareto ólst upp á Ítalíu þar sem hann nam bókmenntir, verkfræði og stærðfræði. Innsýn hans og þekking á verkfræði og verkfræðilegu jafnvægi í aflfræði höfðu áhrif á hagfræðikenningar hans.[1]

Á milli áranna 1870 og 1880 starfaði Pareto í viðskiptum og iðnaði. Hann tók virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni og skrifaði í anda frjálslyndisstefnunnar. Hann nam hagfræði hjá Walras, einum af upphafsmönnum jaðargreiningar og nýklassískrar hagfræði. Auk rita um hagfræðileg málefni skrifaði Pareto töluvert um félagsfræði og eru framlög hans til félagsfræði síst minni en til hagfræði. Kenningar Pareto í félagsfræði teljast til fyrstu vísindalegu kenninganna í greininni, en þær gengu út á að þjóðfélagsþróun einkenndist ekki af línulegri þróun, heldur endurtæki hún sjálfa sig í ferli hringrásar (e. Social Cycle Theory.)[1]

Meðal helstu rita Pareto voru Cours d’economie politique sem kom út á árunum 1896-7 og fjallaði um tengingu náttúruvísinda og hagfræðinnar. Bókina Manual of Political economy gaf hann út árið 1906  sem varð síðar grunnur að velferðarhagfræði í jafvægiskenningunni (general equilibrium theory).[2]

Pareto hagkvæmni[breyta | breyta frumkóða]

Pareto studdist við stærðfræðilega aðferðarfræði Walras í hagfræðilegum rökleiðslum sínum. Hann notaði bæði við stærðfræðilega greiningu Walras á framboð og eftirspurn, auk þess að þróa eigin kenningar um eftirspurn neytanda á markaði.[2] Hann byggði á módeli Walras og sýndi fram á að frjáls samkeppni skilaði hámarks-velferð og hámarksskilvirkni. Jafnvægisstaða þar sem ekki er hægt að bæta kjör eða ábata neins án þess að rýra kjör eða ábata annars hefur verið köllum Pareto hagkvæmni.[2]

Pareto-hagkvæmni, (e. Pareto optimality eða Pareto efficiency) þegar um endurúthlutun auðæfa er að ræða  þar sem í það minnsta einn þátttakandi getur náð efnahagslegum framförum án þess að minnka velsæld annars sem og að ef mörkuðum tekst að greiða fyrir öllum mögulegum hagstæðum viðskiptum er talað um að markaðurinn hafi náð Pareto-hagkvæmni.[3]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 A short History of Economic Thought, Bo Sandelin, Hans-Michaela Trautwein, Richard Wundrak, p. 56-57, Third edition.
  2. 2,0 2,1 2,2 A companion to the History of Economic Thought, ed.Warren J. Samuels, Jeff E. Biddle, John B.Davis p. 283-288.
  3. Modern Labor Economics, theory and public policy. Ronald G. Ehrenberg, Robert S.Smith.p. 37.