Brennisteinsvetni
Brennisteinsvetni eða vetnissúlfíð (H2S), er litlaus eitruð gastegund. Megn lykt er af brennisteinsvetni þó magn þess sé lítið í andrúmsloftinu, það er brennisteinsvetni sem veldur lykt af fúleggjum og jöklafýlu sem gjarnan fylgir hlaupum í jökulám.[1]
Lyktin hverfur hins vegar þegar styrkur brennisteinsvetnis í andrúmslofti eykst og það verður lífshættulegt. Það eykur einnig á hættu að brennisteinsvetni er þyngra en andrúmsloftið og getur því lagst í dældir eða safnast fyrir í botnum á geymum og tönkum.
Brennisteinsvetni myndast oft þegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni án þess að súrefni sé til staðar svo sem í mýrum og í sorp- og mykjutönkum.[2] Brennisteinsvetni er einnig sums staðar að finna í gufu á háhitasvæðum og í vatni.
Um 10% af losun á H2S í heiminum er af mannavöldum. Í iðnaði er það einkum í olíuhreinsunarstöðvum. H2S finnst þar sem brennisteinn kemst í samband við lífrænt efni, sérstaklega ef um er að ræða hátt hitastig. Sýnt hefur verið fram á að framkalla má dvala hjá músum með brennisteinsvetni.
Brennisteinsvetni og örverur
[breyta | breyta frumkóða]Brennisteinsvetni er þýðingarmikið í hringrás brennisteins á jörðinni. Sumar örverur vinna orku með því að breyta brennisteini í brennisteinsvetni með því að oxa vetni eða lífrænar sameindir. Aðrar örverur losa brennistein frá amínósýrum sem innihalda brennistein. Nokkrar tegundir af bakteríum geta notað brennisteinsvetni sem orkugjafa. Sumar bakteríur nota brennisteinsvetni við ljóstillífun og framleiða með því brennistein. Þessi tegund af ljóstillífun er eldri en sú sem jurtir nota með því að taka inn vatn og losa súrefni.