Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar
Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var eitt þriggja stofnfélaga AFLs Starfsgreinafélags 28. apríl 2007. Félagið var minnst stofnfélaga AFLs en auk Verkalýðsfélags Reyðarfjarðar voru stofnfélög AFLs, AFL Starfsgreinafélag Austurlands og Vökull Stéttarfélag.
Upphafið
[breyta | breyta frumkóða]Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar var eitt af elstu starfandi verkalýðsfélögum landsins er það sameinaðist í AFL Starfsgreinafélag en það var tæplega 100 ára gamalt við sameininguna. Til undirbúningsfundar var boðað milli jóla og nýárs árið 1907. „Að kvöldi þess 29. desember 1907 var fundur haldinn í bindindisfélagshúsinu til að ræða um stofnun verkamannafélags í Reyðarfjarðarhreppi. Á fundinum voru mættir 16 menn“, segir í fyrstu fundargerð félagsins. Á þessum fundi voru lagðar fram tillögur um nafn félagsins og árstillag. Fimm manna nefnd var kjörin til að semja lög og reglur félagsins.
Verkamenn á Reyðarfirði fóru strax í undir-búningsvinnu og sunnudaginn 19. janúar 1908 var stofnfundurinn haldinn. Fundarstjóri var kjörinn Guðmundur Jónsson sem einnig hafði stýrt undirbúningsfundinum. [1]
Þegar hér var komið við sögu höfðu fimm menn bæst í hópinn og voru stofnfélagar því alls 21. Fyrstu lög félagsins í 16 greinum voru samþykkt og fyrsta stjórn kjörin. Í henni sátu Sigurjón Gíslason formaður, Eiríkur Beck varaformaður og Guðmundur Jónsson gjaldkeri, en hann skrifaði einnig fundargerðirnar. Endurskoðendur reikninga voru kosnir Hallgrímur Bóasson og Valdimar Þorgrímsson. Stjórn félagsins var falið að semja reglur um sjóð félagsins og samþykkt að meðlimir greiddu fyrsta gjald sitt í félagið á næsta fundi. Verkamannafélag Reyðarfjarðarhrepps var því komið á skrið í stéttabaráttunni og á þriðja fundinum var samþykkt kaupgjaldskrá fyrir félagsmenn.
Það má sjá á fundargerð frá árinu 1913 að safnast höfðu í sjóði félagsins 120,88 krónur. Þá voru félaginu færðar fimm krónur í áheit frá félagsmanni.
Í reglum félagsins frá árinu 1914 segir að tilgangur félagsins sé að stuðla að réttindum og hag félagsmanna og árgjald til félagsins skuli vera 1 króna. Í 6. grein félagslaganna er ákvæði um að enginn félagsmaður megi koma ölvaður til vinnu eða hafa vín um hönd meðan á vinnu stendur. Í næstu grein þar á eftir er ákvæði um að félagsmenn séu skyldir að halda sig vel að vinnu! Á þessum árum voru laun félagsmanna ákveðin 25 aurar á tímann í dagvinnu og 35 aurar í eftirvinnu yfir vetrarmánuðina. Tímalaun á sumrin voru 40 aurar í dagvinnu og 50 aurar í eftirvinnu.
Félagið endurreist og gengur í ASÍ
[breyta | breyta frumkóða]Starfsemi félagsins lá niðri í nokkur ár en árið 1933 var aftur blásið til sóknar hjá verkamönnum á Reyðarfirði og boðað til fundar þann 1. apríl það ár. Fundurinn var haldinn í Barnaskóla Reyðarfjarðar og var hann fjölmennur eins og tiltekið er í fundargerðabókum frá þeim tíma. Á þeim fundi var lagt til að félagið gengi til liðs við Alþýðusamband Íslands. Félagsmenn voru alls ekki sammála um nauðsyn þess að vera innan ASÍ og einn félagsmaður taldi samtökin „of pólitísk“. Eftir snarpar umræður var samþykkt að sækja um inngöngu í Alþýðusamband Íslands.
Árið eftir á aðalfundi 1934 voru félagsmenn 83 talsins og höfðu 80 af þeim greitt árgjaldið til félagsins. Heildartekjur félagsins voru 423 krónur. Tímalaun í dagvinnu voru komin í 90 aura og 1,10 krónur í eftirvinnu að lágmarki. Hærra var greitt fyrir vinnu við uppskipun og í kola- og saltvinnu. Á þessum fyrsta aðalfundi eftir endurreisn samþykkti félagið áskorun til ASÍ um að samtökin beittu sér fyrir samræmingu á kjörum vegavinnumanna um landið. Einnig var stofnuð nefnd til að athuga um möguleika á að koma á fót samvinnuútgerð í þorpinu.
Næstu árin starfaði félagið af krafti í kjarabaráttu fyrir félagsmenn sína. Kaupgjald var samræmt við önnur verkamannafélög á Austurlandi árið 1947. Það sama ár voru félagsmenn með gilda samninga og neitaðu þeir að segja upp samningum með ASÍ. Hins vegar samþykkti fundurinn áskorun til ASÍ um að sambandið tæki upp samvinnu við ríkisstjórnina um áframhaldandi nýsköpun atvinnuveganna. Í febrúar árið 1952 var nafni félagsins breytt úr Verkamannafélagi Reyðarfjarðarhrepps í Verkalýðsfélag Reyðarfjarðar.