Umsátrið um Wolmar
Umsátrið um Wolmar var umsátur um borgina Wolmar á Líflandi (nú Valmiera í Lettlandi) í Stríði Svíþjóðar og Póllands 1600–1611. 15.000 manna pólskur her undir stjórn Jan Zamoyski höfuðsmanns settist um borgina sem var varin af um 1000 manna sænskum her undir stjórn Jakob De la Gardie og Carl Carlsson Gyllenhielm 18. október 1601. Sigmundur 3. Vasa var viðstaddur umsátrið í upphafi. Fyrst um sinn tókst sænska varnarliðinu að halda pólska herliðinu frá með fallbyssum en 8. desember fékk pólska liðið nýjar fallbyssur og hóf tíu daga skothríð á borgina. Fallbyssurnar rufu varnarveggina á tveimur stöðum og pólska hernum tókst að gera áhlaup. Sænska liðið hörfaði inn í kastala borgarinnar og gafst þar að lokum upp 18. desember. Sænsku hermennirnir fengu að snúa aftur til Svíþjóðar en foringjarnir voru teknir höndum. De la Gardie var skilað við fangaskipti 1605 en Gyllenhielm var haldið föngnum til 1613.