Trufltækni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hvernig truflun hefur áhrif og breiðist út með tímanum.

Truflnýbreytni eða trufltækni er uppfinning eða nýjung sem býr til nýjan markað og verðmæti og truflar ríkjandi markaði og markaðsgildi á nokkrum árum eða áratugum og ryður burtu eldri tækni. Hugtakið er notað í viðskipta- og tækniritum til að lýsa nýjungum sem bæta vöru eða þjónustu á hátt sem markaðurinn hefur ekki búist við, venjulega fyrst með hönnun fyrir mismunandi hópa viðskiptavina á nýjum markaði og seinna með því að valda verðlækkun á ríkjandi markaði.

Truflun á markaðnum er vanalega ekki í tækninni sjálfri heldur í hvernig notkunin breytist. Sem dæmi má nefna að bifreið var byltingarkennd tækninýjung en ekki truflandi nýbreytni vegna þess að fyrstu bífreiðar voru dýr munaðarvara sem hafði ekki truflandi áhrif á markað fyrir hestvagna. Markaður fyrir samgöngutæki var óbreyttur þangað til árið 1908 þegar ódýr útgáfa af Ford Model T kom á markað. Þessi fjöldaframleidda bifreið var truflandi nýbreytni vegna þess að hún breytti samgöngutækjamarkaðnum. En bifreiðin sjálf gerði það ekki.

Clayton M. Christensen hefur sett fram kenningar um trufluppfinningar og hvernig ríkjandi fyrirtæki á markaðnum bregðast við þeim. Hann bendir á að vel rekin ríkjandi fyrirtæki fylgist vel með tækninýjungum en búi við viðskiptaaðstæður þar sem þau geta ekki lagt þrótt í nýjungar sem ekki skilar nógum ágóða og á meðan vaxi upp nýsköpunarfyrirtæki sem nota önnur verðmætakerfi. Christensen skilgreinir truflnýjung sem vöru eða þjónustu sem er hönnuð fyrir nýjan hóp viðskiptavina. Christensen skrifaði bókina The Innovator's Dilemma.

Clayton M. Christensen kynnti fyrstur hugtakið trufltækni árið 1995 í Disruptive Technologies: Catching the Wave en hugtak um hvernig nýtækni umbyltir hagkerfum var komið fram áður í verkum Joseph Schumpeter sem byggði á hugmyndinni um skapandi eyðingu frá Karl Marx. Schumpeter tók dæmi um hvernig járnbrautarlagning þvert yfir Bandaríkin hafi breytt landbúnaði í fylkjunum í vestri.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]