Tora Torapa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Tora Torapa er 23. bókin í bókaflokknum um Sval og Val og sú fjórða eftir listamanninn Fournier. Sagan birtist fyrst í teiknimyndablaðinu Sval árið 1973 og kom út á bókarformi sama ár. Bókin hefur enn ekki verið þýdd á íslensku.

Söguþráður[breyta | breyta frumkóða]

Sagan hefst á setri Sveppagreifans. Töframaðurinn Ító Kata er í heimsókn ásamt Sval og Val. Þeir félagarnir aðstoða greifann og Zorglúbb við tilraunir á staðsetningarbúnaði fyrir rannsóknir á fuglum. Skyndilega koma dularfullir menn aðvífandi og nema Zorglúbb á brott.

Með hjálp staðsetningarbúnaðarins geta Svalur, Valur, greifinn og Ító Kata rakið slóðina til dularfullrar smáeyju í Pólýnesíu, Tora Torapa. Glæpasamtökin Þríhyrningurinn, undir stjórn hins dularfulla Papa Pop hafa þar sölsað undir sig hátæknilegar bækistöðvar sem áður höfðu verið mikilvægasti hlekkurinn í kerfi Zorglúbbs í Z fyrir Zorglúbb og Með kveðju frá Z.

Papa Pop telur Zorglúbb trú um að Þríhyrningurinn vinni nú að almannahag og sannfærir hann um að búa til tæki sem dragi til sín allar heimsins mýflugur. Hinn raunverulegi tilgangur er þó að beita mýflugunum sem vopni til að ná á sitt vald kjarnorkuvopnum úr nálægri herstöð og öðlast heimsyfirráð.

Svalur og félagar komast til eyjarinnar og kynnast þar hugdjarfri stúlku, Óróreu. Þau uppgötva að Papa Pop er í raun Sammi frændi Vals. Zorglúbb áttar sig á að hann hafi verið plataður og kemur bæði mýflugunum fyrir kattarnef og skilur Samma frænda og þrjóta hans eftir á björgunarbáti á hafi úti.

Fróðleiksmolar[breyta | breyta frumkóða]

  • Snemma í sögunni bregður teiknimyndapersónunni Steina sterka fyrir.
  • Hægri hönd Papa Pop í sögunni minnir í útliti mjög á Yvan Delporte, teiknimyndasöguhöfund og samverkamann Fourniers hjá teiknimyndablaðinu Sval.
  • Órórea er kynnt til sögunnar í bókinni og átti eftir að skjóta upp kollinum oftar.
  • Þetta er fjórða og síðasta bókin þar sem Þríhyrningurinn kemur við sögu.