Fara í innihald

Tomás Luis de Victoria

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tomás Luis de Victoria

Tomás Luis de Victoria (154827. ágúst 1611) var spænskt tónskáld á síðari hluta endurreisnarinnar. Hann var frægasta tónskáld Spánar á 17. öld og er af mörgum talinn mestur á eftir Palestrina af tónskáldum þessa tíma.

Victoria fæddist í Avila á Spáni í kringum 1548. Hann var sjöunda barn Francisca Suarex de la Concha og Francisco Luis de Victoria sem voru af virtum ættum. Þau áttu þá eftir að eignast fjögur börn áður en að Francisco Luis de Victoria dó þegar Tomás Victoria var aðeins níu ára gamall.

Victoria söng í kór við biskupskirkjuna í Avila þegar hann var ungur og lærði þar undirstöðuatriði tónlistar, hann gekk líka í Rómversk-kaþólskan tónlistarskóla þar sem formlegt tónlistarnám hans hófst. Á þessum tíma lærði hann hjá helstu tónskáldum Spánar svo sem Jeronimo de Espinar, Bernardino de Ribera, Juan Navarrro og Hernando de Isasi. Einnig hefur verið talið að hann hafi hitt Antonio de Cabezon á þessum tíma.

Þegar Victoria komst á unglingsár var hann sendur til Rómar í skólann Collegium Germanicum þar sem hann var skráður sem söngvari. Í Róm hitti hann Palestrina og lærði hugsanlega hjá honum. 1569 fór Victoria frá Collegium Germanicum og gerðist organisti og söngvari við spænsku kapelluna Santa Maria de Monserrat. 1571 var honum svo boðið að gerast kennari við Collegium Germanicum og sama ár tók hann við af Palestrina sem stjórnandi við rómverska prestaskólann.

1572 kom út fyrsta mótettubók Victoria. Hann var þá 24 ára gamall. Bókin var tileinkuð Otto von Truchsess von Waldburg sem var erkibiskup af Ágsborg og mikill aðdáandi og stuðningsmaður Victoria.

1575 var Collegium Germanicum flutt af páfanum og var Victoria þá gerður að yfirstjórnanda skólans. Hann var yfir tónlistarmenntun kórdrengjanna, kenndi völdum nemendum kontrapunkt og tónsmíðar og hafði yfirumsjón með allri tónlist í kirkjunum tengdum Collegium Germanicum. Hann þurfti því að segja skilið við kirkjuna Santa Maria de Monserrat. Þetta sama ár nam hann til prests og var vígður sem slíkur 28. ágúst.

1578 sagði Victoria upp störfum hjá Collegium Germanicum og settist að sem kapelluprestur við San Girolamo della Carità. Í sjö ár bjó hann með San Felipe Neri og var í djúpum trúarlegum hugleiðingum. Á þessum tíma bjó Victoria einnig með tveim merkum tónskáldum, spænska tónskáldinu Francisco Soto de Langa og ítalska tónskáldinu Giovanni Animuccia. Victoria sat ekki auðum höndum á þessum árum og frá honum komu margar messur og mótettur sem breiddu hróður hans um heiminn.

1587 sneri Victoria aftur heim til Spánar og varð prestur og kórstjóri við kapelluna Real Convento de las Clarisas Descalzas í Madrid. Hann gegndi því starfi til 1603. Á þessum tíma fór hann þó til Rómar 1592 til að hafa umsjón með flutningi á verki sínu Missae liber secundus og tveim árum síðar mætti hann í jarðarför Palestrina. Eftir að María Spánardrottning sem hafði ráðið Victoria til starfa dó 1603 varð Victoria að orgelleikara og dó 1611.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]