Thor Aspelund

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Thor Aspelund (f. 4. janúar 1969) er íslenskur stærðfræðingur og prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands. Í rannsóknum sínum hefur Thor komið að gerð spálíkana fyrir sjúkdóma og hefur verið í fararbroddi íslensks vísindafólks sem spáir fyrir um þróun kórónuveirufaraldursins.

Thor er fæddur í New York í Bandaríkjunum og bjó þar fyrstu mánuðina en fluttist svo til Íslands með fjölskyldu sinni og ólst upp í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnesi. Foreldrar hans eru Erling Aspelund (f. 1937) fyrrverandi stöðvarstjóri Loftleiða í New York og hótelstjóri Hótel Loftleiða og Kolbrún Þórhallsdóttir (f. 1936) læknaritari. Kona Thors er Arna Guðmundsdóttir læknir og eiga þau þrjá syni.[1]

Systir Thors er Guðrún Aspelund sóttvarnarlæknir Íslands.

Menntun og starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík. Hann hóf nám í rafmagnsverkfræði og síðar guðfræði við Háskóla Íslands en skipti síðar yfir í stærðfræði[1] og lauk BS-prófi í stærðfræði frá Háskóla Íslands árið 1994, MS-prófi í tölfræði frá University of Iowa í Bandaríkjunum árið 1998 og doktorsprófi í sömu grein frá sama skóla árið 2002. Að námi loknu hóf hann störf sem tölfræðingur hjá Hjartavernd en þar kom hann meðal annars að hönnun áhættureiknis fyrir hjartasjúkdóma. Hann hefur einnig tekið þátt í að hanna áhættureikni fyrir sykursýki.

Árið 2007 hóf hann störf sem dósent við Háskóla Íslands og varð prófessor í líftölfræði við skólann árið 2015. Hann hefur birt hátt á þriðja hundrað vísindagreina og er í hópi þeirra fræðimanna við Háskóla Íslands frá upphafi sem flestar vísindagreinar hafa birt.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Mbl.is, „Að lifa með veirunni“ (skoðað 3. febrúar 2021)
  2. Hi.is, „Fjögur fá verðlaun fyrir lofsverðan árangur í starfi“ (skoðað 3. febrúar 2021)