Fara í innihald

Tarzan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Tarsan)
Forsíða fyrstu sögunnar um Tarzan í tímaritinu The All-Story frá október 1912.

Tarzan (stundum ritað Tarsan á íslensku) er sögupersóna sem upprunnin er úr ævintýrasögum bandaríska rithöfundarins Edgar Rice Burroughs. Persónan birtist fyrst í skáldsögunni Tarzan of the Apes, sem var birt í tímaritinu The All-Story árið 1912 og var gefin út í bókarformi árið 1914. Ævintýri Tarzans náðu miklum vinsældum og Burroughs hélt því áfram að skrifa sögur um hann allt fram á fimmta áratuginn. Alls skrifaði Burroughs 26 sögur um Tarzan.

Auk skáldsagna Burroughs náði Tarzan miklum vinsældum sem hetja á hvíta tjaldinu. Fyrsti leikarinn til að fara með hlutverk Tarzans í kvikmynd var Elmo Lincoln árið 1919 en persónan náði mestum vinsældum sem kvikmyndahetja með kvikmyndaröð sem hófst á fjórða áratuginum þar sem sundkappinn Johnny Weissmuller fór með aðalhlutverkið.[1] Í gegnum árin hefur Tarzan síðan birst í fjölda skáldsagna, kvikmynda, myndasagna, teiknimynda og annarra sagnaverka sem enn njóta vinsælda í dag.[2]

Í sögunum um Tarzan heitir hann réttu nafni John Clayton, vísigreifi af Greystoke. Í baksögu hans verða foreldrar hans, sem eru af enskum aðalsættum, strandaglópar á vesturströnd Afríku með son sinn eftir að áhöfn skips þeirra gerir uppreisn gegn þeim. Stuttu síðar eru þau bæði drepin og John er því alinn upp undir nafninu Tarzan af öpum af óræðri tegund í frumskógum Afríku.[3]

Þegar Tarzan vex úr grasi gerist hann nokkurs konar verndari frumskógarins og lendir í ýmsum ævintýrum. Burroughs hafði takmarkaða þekkingu á staðháttum í Afríku og því draga sögur hans um Tarzan ekki fram rétta mynd af álfunni. Almennt er þó reiknað með því að sögurnar um Tarzan eigi að gerast á svæðum sem nú spanna löndin Kamerún, Gabon, Lýðveldið Kongó og Lýðstjórnarlýðveldið Kongó.[3] Margar af sögum Burroughs um Tarzan hafa í seinni tíð sætt ásökunum um keim af afturhaldssemi og heimsvaldshyggju vegna staðalímynda þeirra af Afríkumönnum og öðrum þjóðfélagshópum.[2]

Tarzanbrandarar

[breyta | breyta frumkóða]

Tarzanbrandarar eru brandarar þar sem Tarzan kemur við sögu. Algengt er að fílar komi við sögu í bröndurunum og eru þeir brandarar kallaðir fílabrandarar. Tarzanbrandarar hafa notið mikilla vinsælda og þá einkum meðal barna.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Tarzan“. Æskan. 1. nóvember 1963.
  2. 2,0 2,1 „Þeir taka frá okkur Tarzan“. Heimilistíminn. 15. júní 1980.
  3. 3,0 3,1 „Hvers lenskur var Tarzan og hvar gerast ævintýrin um hann?“. Vísindavefurinn.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.