Tómas Nikulásson (fógeti)
Tómas Nikulásson (d. 23. eða 24. maí 1665) var danskur fógeti og umboðsmaður á Bessastöðum á 17. öld, alræmdur fyrir harðræði og yfirgang og yfirleitt illa þokkaður, jafnt af alþýðu og þeim sem meira máttu sín.
Tómas er sagður hafa verið járnsmiður en keypt sig inn í embætti fógeta á Bessastöðum og umboðsmanns Henriks Bjelke höfuðsmanns. Flestar heimildir bera honum illa söguna en þó segir í Fitjaannál að hann hafi verið „vitur maður og framsýnn, þótti mörgum hann nokkuð óstilltur og yfirgangssamur; treystist þó varla neinn í móti að mæla“. Ýmsar sagnir eru til af ofbeldi sem hann beitti fólk, oft fyrir litlar eða engar sakir. Meðal annars barði hann að sögn hjákonu sína svo illa að hún var handlama til æviloka. Hann var fésæll og er sagður hafa þegið mútur til að veita mönnum embætti.
Tómas drukknaði vorið 1665 á Faxaflóa ásamt fimm mönnum öðrum og fórst báturinn á litlu skeri fram undan Melum í Melasveit. „Ætlaði á Stapa að afsetja Matthías Guðmundsson sýslumann af Stapaumboði og setja Christoffer Roehr þar inn, ætlaði á Vestfjörðu að knýja fé af fjáðum mönnum,“ segir í Eyrarannál. Sagt er að með honum hafi skjalabók Viðeyjarklausturs farið í sjóinn því hann hafi haft hana með til að láta skrifa skjöl Stapaumboðs í hana. Eftir lát hans skrifaði Brynjólfur biskup Sveinsson höfuðsmanni og bað hann að skipa ekki neinn óþokka í embættið.
Tómas Nikulásson var tvíkvæntur. Fyrri kona hans er óþekkt en 1664, ári fyrir lát sitt, giftist hann Elínu eða Elenu Pétursdóttur Höyer.