Fara í innihald

Tólgarkerti

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kerti
Hefðbundin kerti

Tólgarkerti voru ljósfæri sem talið er að farið hafi verið að gera á 15.öld. Helstu ljósfæri til forna voru kolur sem voru gerðar úr mjúkum steinum, íhvolf bein og lampar sem voru tvöfaldar kolur. Ljósmetið var mörin úr kindunum, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi sem þótti best, hákarlalýsi og lýsi úr fiskalifur en þorskalýsið var talið lakast.

Líklegt er talið að menn hafi nokkuð snemma komist upp á lag með að steypa kerti úr harðri feiti eins og sauðatólg sem var fremur dýr og voru þau þess vegna ekki notuð hversdagslega á alþýðuheimilum heldur voru þau helst notuð við guðsþjónustur.

Gerð tólgarkerta[breyta | breyta frumkóða]

Tólgarkertin var auðvelt að gera á íslenskum heimilum og var þá tólgin brædd og hellt í djúpt ílát með heitu vatni í botninum. Tólgin helst þá bráðin því vatnið er volgt undir. Ofan í þetta var svo kveiknum dýft en hann var oft gerður úr gömlum léreftsflíkum sem rifnar höfðu verið í ræmur, en kveikurinn var einnig oft gerður úr hrosshári, snúinni ull eða fífu, þó þekktist það einnig að kveikurinn hafi verið úr innfluttu ljósagarni. Því þurftu heimilin oft að afla fífuullar á sumrin, sem var oftast starf barna og unglinga.

Þegar kerti voru steypt í strokk, var fyrst hellt í strokkinn sjóðandi vatni, og síðan bræddri tólg. Nokkrir ljósagarnsspottar um 12 þumlunga langir voru festir á prik, 6-8 saman með litlu millibili. Var þeim síðan dýft í tólgina. Síðan var tekið annað prik með jafnmörgum spottum og farið með eins og hið fyrra. Fór prikafjöldinn eftir því, hvað mörg kerti átti að steypa. Jafnóðum og tólgin storknaði, var þeim dýft í strokkinn á ný, þar til öll kertin voru orðin nógu gild. Strokkkerti voru algeng í Rangárvallasýslu um 1880.

Mismunandi tólgarkerti[breyta | breyta frumkóða]

Til voru svonefnd kóngakerti en þau voru búin til með því að binda þrjú rök neðan í spýtu og hnýta endarökin á mitt miðjurakið. Þetta átti að vera tákn vitringanna þriggja frá austurlöndum. Þess konar kert voru á jólunum sem altarisljós í kirkjum. Á aðfangadagskvöld var hins vegar hefð fyrir því að allir á heimilinu fengju sitt eigið tólgarkerti.

Heimildaskrá[breyta | breyta frumkóða]