Svínanes
Svínanes er nes við norðurströnd Breiðafjarðar, milli fjarðanna Skálmarfjarðar, sem er vestan megin við nesið, og Kvígindisfjarðar, sem er austan við. Um aldir var búið á nesinu, en þar hefur búseta lagst af, líkt og víðar á þessum slóðum. Yst á nesinu var áður samnefndur bær, en hann fór í eyði árið 1959. Vestan megin á nesinu var einnig búið á bænum Selskerjum, en hann fór í eyði 1954. Um tíma var einnig búið á Svínanesseli, sem var áður sel frá Svínesi. Bæirnir tilheyrðu áður Skálmarnesmúlahreppi (eða Múlahreppi), en nesið er nú hluti af sveitafélaginu Reykhólahreppi í Austur-Barðastrandarsýslu.
Landshættir
[breyta | breyta frumkóða]Nesið er bratt og undirlendi lítið. Helst er undirlendi að finna yst á nesinu, og við bæjarstæði Selskerja. Svínanesfjall heitir fjallið sem liggur eftir endilöngu nesinu. Yst á nesinu er ágæt lending, þar sem nefnist Kumbaravogur. Þar skammt frá, á svo nefndri Fit, munu Þýskir Hansakaupmenn hafa stundað viðskipti á 16. öld [1]. Vegaslóði var ruddur meðfram hluta af nesinu vestanverðu, allt að Selskersseli, en hann er nú með öllu ófær. Um tíu tíma tekur að ganga fyrir nesið og inn í Skálmardal. Sú gönguleið hefur verið vinsæl á síðari tímum, en getur verið erfið öðrum en vönu göngufólki. Símasamband er yst á nesinu, við bæjarstæði Svínaness.
Svínanes
[breyta | breyta frumkóða]Sagan segir að Guðmundur Heljarskinn, landnámsmaður á þessum slóðum, hafi haft svín þar sem nú er Svínanes, og af þeim dragi nesið nafn sitt. Munnmæli herma að svín Guðmundar hafi verið höfð nærri svo nefndum Kumbaravogi. Hvenær búseta hófst á Svínanesi er ómögulegt um að segja, en líklegt þykir að það hafi gerst snemma. Sama ættin byggði jörðina frá 1603, þegar Teitur Halldórsson keypti jörðina í skiptum fyrir nálæga jörð, Kirkjuból, sex málnytakúgildi og 30 hundruð í öðrum gjaldeyri. Síðasti ábúandi jarðarinnar var Aðalsteinn Helgason og kona hans Guðrún Þórðardóttir, fædd á Firði á Skálmarnesi. Þau brugðu búi árið 1959. Séra Árelíus Níelsson prestur, ólst upp um tíma á Svínanesi.
Á vestur strönd Svínaneshlíðar var bærinn Selsker. Hann fór í eyði 1954, eftir að húsmóðirin og önnur heimasætan á bænum fórust þegar bátur fórst á Breiðafirði.
Á austur strönd Svínaneshlíðar má finna rústir kotsins Svínanessels. Var þar upprunalega haft í seli frá Svínanesi, en um aldamótin 1900 og fram á fjórða áratug 20. aldar bjó þar um tíma Kristinn Sigfússon, gjarnan nefndur Kitti í Seli. Aðstæður þóttu mjög erfiðar og mun Kitti helst hafa lifað á góðvild sveitunga sinna. Halldór Laxness heimsótti Kitta, og telja margir að Kitti hafi, ásamt fleirum, verið fyrirmynd Bjarts í Sumarhúsum.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ólafur Olavius: Ferðabók Ólafs Olavius, landshagir í norðvestur-, norður- og norðaustursýslum Íslands 1775-1777, Steindór Steindórsson frá Hlöðum íslenskaði.Reykjavík, 1964, bls. 244-245.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Gunnar F. Guðmundsson, Jarðabréf frá 16. og 17. öld. Útdrættir. Hið íslenska fræðafélag í Kaupmannahöfn. 1993.
- Jón Kr. Guðmundsson: Skyggir fyrir skuld. Sagnabrot og ábúendatal úr Gufudalssveit og Múlasveit í Austur-Barðastrandarsýslu 1703-1989. Kópavogur, 1991.
- Mark Gardiner, Conor Graham og Natascha Mehler. OITIS, Field report no. 2. Survey of Archaeological Remains at Svínanes, Reykhólahreppur, Iceland. 2011.