Fara í innihald

Svarta örin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Svarta örin (franska: La Flèche noire) er sjöunda bókin í sagnaflokknum um Hinrik og Hagbarð eftir belgíska myndasöguhöfundinn Peyo. Sagan birtist í myndasögublaðinu Sval á árinu 1957 en kom út á bókarformi árið 1959.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Ræningjaflokkur gerir ítrekaðar árásir á vagnalestir kaupmanna. Konungur og menn hans, með Hinrik og Hagbarð innanborðs, reyna að stemma stigu við þessum ránum, en svo virðist sem illvirkjarnir fái upplýsingar úr höllinni, sem skotið er með svörtum örvum. Hinrik og Hagbarður rekast fyrir tilviljun á ræningjaflokkinn í skóginum, en tekst að villa á sér heimildir og smeygja sér í raðir þeirra. Þeir uppgötva jafnframt hvar ránsfengur ræningjanna er falinn.

Hinrik og Hagbarður uppgötva að stjórnandi ræningjaflokksins leynist við hirðina. Þeir ná tali af vini sínum, aðalsmanninum herra Núma, sem komist hafði að sömu niðurstöðu. Félagarnir finna leyniskilaboð frá foringja ræningjanna um að drepa herra Núma á burtreiðum sem fyrirhugaðar eru í höllinni. Þeir hyggjast koma vini sínum til bjargar, en þurfa fyrst að stinga af mestallan ræningjahópinn. Á síðustu stundu tekst þeim að bjarga herra Núma og hrekja tilræðismennina á flótta. Í kjölfarið tekst þeim að egna gildru fyrir hirðmennina Glúm og Brand, sem reynast báðir hafa tilheyrt ræningjahópnum..

Íslensk útgáfa

[breyta | breyta frumkóða]

Svarta örin kom út hjá bókaútgáfunni Iðunni árið 1982 í þýðingu Bjarna Fr. Karlssonar. Hún var fyrsta Hinriks og Hagbarðs-bókin sem kom út á íslensku, en þó aðeins sú þriðja elsta.