Súetóníus
Gaius Suetonius Tranquillus (um 75 – 160), betur þekktur sem Súetóníus (stundum nefndur Svetóníus á íslensku[1]), var rómverkur rithöfundur og sagnaritari.
Súetóníus vann sem ritari fyrir keisarann Hadríanus, áður en hann var rekinn fyrir að sýna keisaraynjunni Sabínu óvirðingu. Hans er einkum minnst sem höfundar ævisagna fyrstu tólf keisaranna (Caesaranna) í Róm (De vita Caesarum), en ævisögurnar hafa verið nýttar sem heimildir í mörgum verkum um sögu Rómar.
Súetóníus virðist hafa haldið meira upp á suma keisarana en aðra. Hann virðist til að mynda hafa haft meira álit á Ágústusi en Neró og Caligúla. Súetóníus virðist einnig hafa yndi af klúrum gróusögum sem þekktust um þá sem hann fjallar um. Sumar gróusagnanna, sem oftar en ekki snerust um kynlíf og kynhneigðir, gætu hafa átt uppruna sinn í skjölum sem hann hafði aðgang að sem ritari keisarans Hadríanusar og endurspegla því ef til vill viðhorf fólks á 2. öld til fyrrverandi keisara og starfsmanna keisaranna.
Súetóníus getur heimilda sinna afar sjaldan. Eitt dæmi þess er þegar hann leggur áherslu á að þeir sem hallmæltu Ágústusi hafi verið óvinir keisarans, svo sem Marcus Antoníus en hans er getið sem vafasamrar heimildar fyrir nokkrum neikvæðum sögum um Ágústus í fjórða kafla ævisögu Ágústusar. Fjöldi beinna tilvitnana í bréfasamskipti Ágústusar og sú staðreynd að hann getur ekki slíka heimilda í síðari köflum verksins virðist gefa til kynna að hann hafi ekki verið rekinn úr starfi sínu við hirð Hadríanusar fyrr en eftir að hann hafði lokið við að skrifa ævisögu Ágústusar.
Súetóníus getur á einum stað „Chrestusar“, sem gæti verið tilvísun til „Krists“. Sjá Súetóníus um Jesú.
Helstu ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- De vita Caesarum (Um ævisögur Caesaranna)
- De Illustribus Grammaticis (Um merka málfræðinga)
- De Claris Rhetoribus (Um merka mælskufræðinga)
- De Viribus Illustris (Um merka menn)
- De Poetis (Ævisögur skáldanna)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]Heimild
[breyta | breyta frumkóða]Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Verk Súetóníusar á The Latin Library.
- Ævisögur Caesaranna hjá LacusCurtius (Latneskur frumtexti auk enskrar þýðingar).
- Ævisögur Caesaranna hjá Gutenberg verkefninu (Ensk þýðing - inniheldur ævisögur málfræðinganna, mælskufræðinganna og skáldanna).